Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 14:51:38 (1019)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:51]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga mál og þær góðu undirtektir sem það hefur undantekningarlítið fengið hjá þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Hér hefur að sjálfsögðu margt verið reifað og inn á marga hluta málsins komið og ég ætla, hæstv. forseti, að snerta á flestu af því sem hér hefur verið rætt.

Í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kom fram við upphaf umræðunnar spurning um hvort menn hefðu velt fyrir sér hvernig háttað væri endurfjármögnun banka og sparisjóða á þeim lánum sem þeir nú, góðu heilli, bjóða á húsnæðislánamarkaðnum og ég ítreka að ég fagna framboði þeirra á markaðnum. Sá er hér stendur hefur ekki haft frumkvæði að slíkri athugun enda kannski varla á mínu verksviði en þó vil ég, með leyfi forseta, vitna til nýlegs álits Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem fjallar m.a. um breytinguna á húsnæðislánamarkaðnum. Í sjálfu sér má segja að í áliti hans komi ekkert nýtt fram hvað varðar Íbúðalánasjóð og álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á starfsemi hans en það vekur athygli að sjóðurinn varar við þeirri hættu sem skapast þegar bankar og sparisjóðir fjármagna langtímalán í formi íbúðalána á lágum vöxtum með skammtímalánum og erlendum lántökum með tilheyrandi gengisáhættu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar við því ójafnvægi sem myndast milli meðallíftíma eigna og skulda í efnahagsreikningi fjármálastofnananna við þær aðstæður.

Svipaðan tón mátti heyra í máli forstjóra Fjármálaeftirlitsins á ársfundi þess í gær þar sem forstjórinn sagði, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið telur brýnt að þeir viðskiptabankar og sparisjóðir sem bjóða upp á þessi lán hugi vel að áhættustýringu og áhættustöðu sinni vegna þessarar nýju og auknu starfsemi. Svör við ítarlegri upplýsingabeiðni um þetta gefa til kynna að í sumum tilvikum hafi verið ítarlega farið yfir áhættustýringu í þessu sambandi. Í öðrum tilvikum er ljóst að ekki hefur verið hugað nægilega vel að fjármögnun lánanna í upphafi eða arðsemi þessara lána að teknu tilliti til þátta eins og afskrifta, rekstrarkostnaðar og annarra tekna. Brýnt er að Íbúðalánasjóður undirbúi sig vel undir breytta tíma þar sem hann er ekki lengur einn á þessum markaði. Nýlegar breytingar á fyrirkomulagi starfsemi hans og breyttar markaðsaðstæður kalla á miklu nákvæmari áhættufjárstýringu en áður. Fjármálaeftirlitið mun fylgjast vel með framvindunni en með lagabreytingum á þessu ári fellur Íbúðalánasjóður nú að fullu undir eftirlit þess.“

Þetta finnst mér ástæða til að komi hér fram, hæstv. forseti.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr líka um það hvort félagsmálaráðherra hafi haft frumkvæði að athugun Seðlabankans á áhrifum af lánum bankanna og þeirri breyttu stöðu sem nú er upp komin. Því er til að svara að ég hef gert það. Ég hef fært það í tal við forsvarsmenn Seðlabankans að nauðsynlegt sé að slíkt álit fari fram, slík vinna fari fram, slík athugun eigi sér stað og tel brýnt að það verði gert.

Sömuleiðis er því til að svara hv. þingmanni að að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að félagsmálanefnd fái aðgang að því áliti sem Seðlabankinn vann fyrir félagsmálaráðuneytið varðandi þær hugmyndir sem liggja til grundvallar því frumvarpi sem við fjöllum hér um þó að segja megi, hæstv. forseti, að það álit sé að mörgu leyti úrelt því að það fór fram áður en sú breytta staða varð uppi á húsnæðislánamarkaði sem nú er orðin staðreynd.

Til þess að taka af öll tvímæli vil ég líka svara hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur afdráttarlaust um það að þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að strax um áramót, ekki síðar, eða við gildistöku laganna, verði Íbúðalánasjóði heimilt að lána allt að 90% af kaupverði hóflegs íbúðarhúsnæðis.

Hér hefur þingmönnum orðið talsvert tíðrætt um hámarkslánið og hvers vegna það eigi ekki að hækka hraðar og meira. Um það má, hæstv. forseti, eflaust endalaust deila. Ég vil þó undirstrika það að hámarkslán Íbúðalánasjóðs hefur hækkað mikið á þessu ári. Það hefur hækkað úr 8 millj. vegna notaðs húsnæðis og 9 millj. vegna nýrra húsnæðis í 11,5 millj. hvort tveggja. Frumvarpið sem við ræðum nú gerir ráð fyrir að það verði 13 millj. um áramótin og haldi síðan áfram að hækka á kjörtímabilinu.

Það er hins vegar afar mikilvægt, eins og komið hefur fram í umræðunni hvað eftir annað í dag, hæstv. forseti, að hámarkslán Íbúðalánasjóðs taki mið af þeim aðstæðum sem eru á húsnæðislánamarkaðnum þannig að honum verði gert kleift að uppfylla markmið sín. Við höfum skilgreint það svo að það sé að veita öllum almenningi aðgang að 90% lánum vegna meðalhúsnæðis upp að ákveðnu hámarki.

Hv. þm. spurði líka hvort ráðherra hefði viljað ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir og svarið við því er nei. Ég tel að þarna sé farið fram af skynsemi og hófsemd og síðan, eins og áður sagði, hæstv. forseti, þarf að meta stöðuna eftir því sem henni vindur fram.

Hv. þm. spurði um viðbótarlánin og hvort farið hefði fram athugun á því hvort hagkvæmara væri að vera í gamla kerfinu, þ.e. því kerfi sem var við lýði um síðustu áramót, eða hinu sem hér er boðað. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, formaður félagsmálanefndar, rakti áðan sparast strax á fyrsta ári við breytinguna hjá þeim sem tekur hámarkslán í nýja kerfinu nokkrar þúsundir króna þrátt fyrir hærri lántökukostnað. Eftir það er sparnaðurinn um 90 þús. kr. á ári þau 39 ár sem eftir eru af lánstímanum þannig að það sést auðvitað, hæstv. forseti, að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson rakti í máli sínu aðkomu og athugasemdir bankanna að þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar því máli sem við ræðum hér. Það er auðvitað rétt sem þingmaðurinn rakti að bankarnir hafa snúið við blaðinu. Í bréfi sem þeir rituðu félagsmálaráðuneytinu 4. júní í fyrra hafa þeir uppi allnokkur varnaðarorð og segja að þær hugmyndir sem þar voru uppi geti leitt til hækkaðs fasteignaverðs, geti leitt til hækkunar verðtryggðra vaxta, ýti undir verðbólgu, það sé eðlilegt að lánshlutfallið hækki ekki eða a.m.k. mun minna vegna lána til dýrara húsnæðis og þannig mætti áfram telja. En bankarnir hafa nú snúið við blaðinu og tekið þá ákvörðun að taka virkan þátt í samkeppninni á þessum markaði og það er vel.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson og sömuleiðis hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fjölluðu um stöðu annarra á húsnæðislánamarkaði en þeirra sem eiga kost á að eignast eigið húsnæði. Ég rakti í máli mínu í morgun, hæstv. forseti, að nefnd sem fjallaði sérstaklega um um biðlista eða bið eftir félagslegu húsnæði og stöðu leiguhúsnæðismarkaðarins hefur komist að þeirri niðurstöðu að tekjulægstu hóparnir í samfélaginu þurfi væntanlega á frekari aðstoð að halda til að standa undir leigugreiðslum á almennum markaði. Þar kemur ýmislegt til álita, m.a. sérstakar húsaleigubætur og stofnstyrkir til sérhópa á borð við öryrkja, aldraða og námsmenn. Við munum skoða það í framhaldi af þessu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist sömuleiðis á húsnæðismál geðfatlaðra. Það er út af fyrir sig sérmál sem er til umfjöllunar sameiginlega hjá félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Ég vonast til að við getum kynnt um þau ákveðna áætlun á næstu mánuðum.

Hv. þm. Böðvar Jónsson undirstrikaði í þessari umræðu, sem mér finnst ástæða til að gera líka, hæstv. forseti, að samstaða er um málið milli stjórnarflokkanna. Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmála. Sömuleiðis get ég vitnað til ummæla hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, frá því í sumar. Hann sagði, og ég tek undir það, að sú staða sem uppi er á húsnæðislánamarkaði undirstriki enn frekar nauðsyn þess að við viðhöldum sterku húsnæðislánakerfi með Íbúðalánasjóð í fararbroddi.

Umræðan um varasjóð viðbótarlána fer nú fram milli félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í umræðunni hefur verið komið inn á hlutverk sveitarfélaganna í húsnæðiskerfinu.

Katrín Júlíusdóttir rakti í máli sínu að innkoma bankanna á húsnæðislánamarkað hefði ýtt við ríkisreknu bákni. Hið sama mátti merkja af máli hv. þm. Péturs Blöndals. Nú ætla ég ekki að deila um, hæstv. forseti, hvort kom á undan hænan eða eggið. Í öllu falli er ljóst að sú þróun sem orðið hefur á húsnæðislánamarkaðnum í sumar hefur ekki síst orðið vegna þeirra hugmynda sem liggja til grundvallar því frumvarpi sem við ræðum hér, breyttrar fjármögnunar Íbúðalánasjóðs með lækkun vaxta til hagsbóta fyrir fjölskyldurnar í landinu. Allt er það af hinu góða.

Hv. 3. þm. Norðaust., Kristján Möller, gerði að umtalsefni vinnureglur Íbúðalánasjóðs sem gera ráð fyrir því að ef kaupverð húsnæðis fer verulega fram úr fasteignamati hringi viðvörunarbjöllur og viðeigandi mál sé kannað. Ég tel það eðlilega varnaðarráðstöfun. Það er fráleitt svo að í hverju tilviki á landsbyggðinni séu fasteignasalar fengnir til þess að meta viðkomandi fasteignaviðskipti en það er eðlilegt að hjá Íbúðalánasjóði, eins og öðrum lánastofnunum, viðhafi menn ákveðna varúðarreglu ef fasteignaviðskiptin eða verðgildi kaupsamninganna fer langt fram úr því sem venjulega gerist á viðkomandi svæði.

Hv. þm. Hilmar Gunnlaugsson gerði regluna um 1. veðrétt að umtalsefni og raunar sömuleiðis hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Það er rétt að minna á að bankarnir gera sambærilega kröfu varðandi sín lán. Við búum við virka samkeppni á þessum markaði og það er ekki óeðlilegt að hún leiði til ákveðinna breytinga í samskiptum bankanna og Íbúðalánasjóðs. Það er líka ástæða til að undirstrika að Eftirlitsstofnun EFTA hefur bent á að í nýju húsnæðislánakerfi orkaði tvímælis að Íbúðalánasjóður færi aftar í veðröðina en aðrir lánveitendur. Með því væri í raun verið að veita óbeina ríkisábyrgð á lánum annarra en Íbúðalánasjóðs. Reglan um fyrsta veðrétt er sömuleiðis undirstrikun þess að Íbúðalánasjóði er ætlað að sinna lánveitingum vegna kaupa á minna og meðalstóru húsnæði en ekki hinum verðmeiri eignum, a.m.k. ekki þegar kemur að 90% lánshlutfalli.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi hér í máli mínu snert á flestu því sem fram hefur komið í umræðunni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um stimpilgjöldin. Ég tek undir með hv. þm. Böðvari Jónssyni hér í umræðunni að stimpilgjöldin séu aftar í forgangsröðinni en þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðað að hún muni ganga til þótt vissulega megi færa haldbær rök fyrir því að þar sé um skattlagningu að ræða sem ástæða væri til að skoða. Þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðað og varða m.a. lækkun tekjuskatts, hækkun barnabóta, eignarskattslækkun og þar fram eftir götum eru hins vegar framar í röðinni þegar kemur að því að ákveða hvernig við viljum ráðstafa þeim góða árangri sem hefur náðst við rekstur ríkissjóðs undir forustu þeirrar ríkisstjórnar sem hér fer með völd.