Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 15:06:09 (1020)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað að láta mér nægja andsvör en tel, miðað við það sem fram kom hjá ráðherra, að ég þurfi heldur lengri tíma þótt ég ætli ekki að teygja lopann í þessu máli. Ég vil þakka ráðherra fyrir svörin sem hann reyndi af bestu samvisku að svara en ég þarf ýmislegt að ítreka við hann eftir að hafa hlýtt á mál hans.

Varðandi viðbótarlánin þá gerir hæstv. ráðherra ekki mikið úr því að eftir þessa breytingu þurfa þeir sem hafa fengið viðbótarlán, eða hefðu fengið þau ef þetta frumvarp hefði ekki verið lagt fram og yrði óbreytt að lögum, að greiða fullt stimpilgjald sem þeir ekki þurftu að gera áður og greiða 1% lántökugjald. Ráðherrann bendir á að sparnaður viðkomandi við þessa breytingu sé verulegur en hæstv. ráðherra verður að líta til þess varðandi vaxtalækkunina úr 5,3% í 4,3%, að vextirnir hefðu lækkað þótt þetta frumvarp hefði ekki komið fram. Vextir á viðbótarlánunum hlutu að lækka niður í 4,3%.

Ég bendi á það að fyrir nokkrum mánuðum, sennilega á fyrri hluta þessa árs, voru vextir úr útboðum húsnæðisbréfa vegna viðbótarlána komnir niður í 4,28%. Ætlaði ráðherrann þá virkilega að halda þessum vöxtum í 5,3% eins og þeir voru, miðað við að vextir í útboði á húsnæðisbréfum voru 4,28%? Það er ekki hægt að telja það sem sérstakan sparnað hjá fólki við þessa breytingu.

Mér fannst ráðherrann ekki svara því um lántökugjaldið hvort hann væri tilbúinn að lækka það niður í hálft prósent t.d., úr einu prósenti í hálft prósent, til að vega upp á móti stimpilgjöldunum sem fólk þarf að fara að borga en greiddi ekki áður og það að fólk þarf að greiða 1% lántökugjald í staðinn fyrir hálft prósent áður, þ.e. þeir sem voru innan tiltekinna tekjumarka til að geta fengið viðbótarlán.

Ég ítreka því spurningu mína um viðbótarlánið og finnst ekki hægt að bera fyrir sig að verulegur sparnaður verði hjá fólki vegna vaxtalækkunarinnar. Vaxtalækkunin hlaut að verða engu að síður þó að þessi breyting hefði ekki orðið. Staðan á lánamarkaðnum er slík að vextir í útboði húsnæðisbréfa gáfu tilefni til þess að lækka vexti á viðbótarlánum miklu fyrr en gert var.

Mig langar að fara aðeins út í álit Seðlabankans. Ráðherra upplýsti að hann hefði leitað álits Seðlabankans og það hefði legið fyrir áður en staðan breyttist á fasteignamarkaðnum. Var ekki ástæða til að leita álits Seðlabankans á nýjan leik eftir þessa breyttu stöðu, eftir innkomu bankanna á lánamarkaðinn? Staðan er gjörbreytt og ætla má að álit Seðlabankans sé allt annars eðlis eftir þá breytingu.

Ég hef nefnt það, og ég heyri ekki að ráðherra mótmæli því, að það mundi ekkert breytast fyrir þensluna í þjóðfélaginu að hækka hámarksupphæðina meira en ráðherrann ætlar sér vegna þess að það eina sem gerist er að bankarnir fá ella meiri hlutdeild í fasteignaviðskiptunum. Þenslan verður ekkert meiri og ég vísa því á bug sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan, að það væri einhver tvískinnungur í málflutningi Samfylkingarinnar út af því að við vildum hækka hámarksfjárhæðirnar í húsnæðislánum. Hvað vakir fyrir okkur? Að standa vörð um stöðu Íbúðalánasjóðs vegna þess að hann þarf að vera til a.m.k. í einhvern tíma í viðbót þótt það sé ekki meginmarkmið, meðan bankarnir eru að sanna það að lág vaxtakjör í fasteignaviðskiptum séu til frambúðar?

Við erum ekki að tala um aukna þenslu á markaðnum, ég vil ítreka það út af orðum hæstv. forsætisráðherra, þótt við leggjum til að hækka hámarksfjárhæðina. Við viljum fyrst og fremst að passa upp á tilveru Íbúðalánasjóðs sem þarf að vera til til hagsbóta fyrir landsmenn meðan við sjáum hverju fram vindur í þessum málum. Ég óttast það mjög, og hygg að það eigi eftir að koma á daginn, að hlutur bankanna í fasteignaviðskiptum eigi eftir að vaxa meira vegna þess hve hægt er hér farið í sakirnar.

Hæstv. ráðherra nefndi að hann muni halda áfram að hækka hámarksfjárhæðina á kjörtímabilinu. Hann er búinn að upplýsa um áform sín um áramótin. En hver er framtíðin í þeim efnum? Hvaða áætlun liggur fyrir um hækkun á þeim hámarksfjárhæðum? Það er nauðsynlegt að við sem eigum að fjalla um þessi mál í félagsmálanefnd og í þinginu fáum að vita um áform ráðherra í þessu efni. Það skiptir verulegu máli við að leggja mat á stöðuna.

Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að hann segir að hann sé sáttur við að nema staðar við 11,5 millj. kr. núna og svo um 13 millj. kr. um áramótin: Telur hann að með breytingunum, þessum fjárhæðum, þessum hámarksfjárhæðum, sé Íbúðalánasjóður að fylgja þróun á markaði? Svar mitt við því er nei. Meðalverð á íbúðum var 17,5 millj. kr. nú í október og ekki hægt að fá fyrir þessar 13 millj. kr., sem eiga að koma um áramótin lán hjá Íbúðalánasjóði, nema fyrir góðri þriggja herbergja íbúð. Það er ekki að halda í við þróunina á markaði.

Ég er ekki að tala um það að Íbúðalánasjóður eigi að fara að lána fyrir stórum einbýlishúsum upp á 20–30 millj. kr. Ég er að tala um það að Íbúðalánasjóður geti þegar verið samkeppnisfær að því er varðar fjögurra herbergja íbúðir og kannski minni raðhús, geti kannski lánað 90% af eignum sem kosta um 18 millj. kr. Það eru að vísu engin raðhús en a.m.k. góðar íbúðir í fjölbýli. Hér er því ekki fylgt eftir þróuninni á markaði eins og mér fannst hæstv. ráðherra nefna áðan að væri markmiðið með frumvarpinu.

Ég vil líka spyrja ráðherrann út í gildistökuna, ég nefndi það einnig áðan: Er ráðherra fylgjandi því — af því að hér stendur formaður félagsmálanefndar — að við setjum okkur það vinnumarkmið í félagsmálanefnd að frumvarpið geti tekið gildi 1. desember? Allt skiptir þetta máli fyrir samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

Ég vil líka spyrja, af því að hæstv. ráðherra nefndi það ekki, en ég viðraði í máli mínu áðan áhyggjur mínar af því hvernig fasteignaverð er að blása upp og greiningardeildir bankanna spá enn meiri hækkun á næsta ári, 10–12% hækkun til viðbótar: Óttast ráðherra það ekki og hefur hann engar áhyggjur af því fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn, að auknir möguleikar á lánamarkaði, hærri lán hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði, hverfi bara í hækkun á fasteignaverði og því fylgi verri skuldastaða og aukin greiðslubyrði viðkomandi einstaklinga? Það er út af fyrir sig ekki eins slæmt fyrir þá sem eru að skipta um eignir. Þeirra eignir hækka þá samhliða, nema að vísu sérbýlin og einbýlishúsin en verð á þeim virðist núna á fljúgandi ferð.

Ungt fólk sem er að koma inn á markaðinn í fyrsta sinn og festir kaup á sinni fyrstu íbúð tekur hærri lán en það þurfti fyrir ári síðan til að kaupa samsvarandi íbúð. Hækkun á lánshlutfallinu og auknir lánamöguleikar hverfa því í hækkun á fasteignaverði hjá ungu fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Hefur ráðherrann engar áhyggjur af því?

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég hef áhyggjur af stöðu leiguíbúða og biðlistarnir hafa lítið grynnkað að því er varðar leiguíbúðir hjá sveitarfélögum og félagasamtökum. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Hvenær má vænta þess að við sjáum aðgerðir fyrir þá sem verst standa á húsnæðismarkaðnum, fólkið sem hefur lítið milli handanna og á enga möguleika aðra en að fá leiguíbúðir hjá sveitarfélögum eða félagasamtökum? Þar erum við að tala um námsmenn, einstæða foreldra, fólk sem þarf að lifa kannski af 100 þús. kr. á mánuði eða rétt þar um og fer með stærsta hlutann af tekjum sínum, kannski ¾ , í leigu á almenna markaðnum. Ég spyr: Hvenær má þetta fólk vænta úrlausna hjá hæstv. ráðherra? Munum við fljótlega sjá frumvarp um þau mál á þinginu sem við gætum afgreitt fljótt og vel til að bæta hag þeirra sem þurfa að vera á leigumarkaði og ráða hvorki við leiguna á almenna markaðnum né að eignast sjálft þak yfir höfuðið?