Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 15:21:10 (1022)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:21]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af einhverjum ástæðum svarar hæstv. ráðherra ekki öllum spurningunum sem ég lagði fyrir hann. Ég nefndi gildistökuna, breytinguna á henni, ég kallaði eftir skoðun ráðherrans á þeirri hækkun sem hefur orðið á fasteignaverði og því sem spáð er hér á næsta ári. Ég nefndi áhyggjur mínar varðandi ungt fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn, hvernig allir þessir auknu lánamöguleikar hverfa inn í hækkun á fasteignaverði. Ég nefni líka, virðulegi forseti, að ráðherrann talar ekkert um eða sýnir nein viðbrögð við því sem ég nefndi varðandi lántökugjaldið, hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir lækkun á lántökugjaldi á móti því að fólk sem áður fékk viðbótarlán þarf nú að fara að greiða fullt lántökugjald, 1%, og líka stimpilgjald.

Varðandi vaxtalækkunina á viðbótarlánunum þá er það svo, virðulegi forseti, að útboð húsnæðisbréfa vegna viðbótarlána voru komin niður í 4,28% áður en frumvarpið sem hæstv. ráðherra er að vísa í var lögfest. Á markaðnum voru vaxtakjörin með þeim hætti að hægt var að lækka viðbótarlánin miklu fyrr og það var alveg óháð þeim breytingum sem urðu á lögunum á sl. vori. Það liggur fyrir.

Mér finnst því ráðherra enn þá skulda upplýsingar um hvort hann sé tilbúinn að lækka lántökugjaldið sem ég held að mundi gera mjög mikið til þess að bæta fólki sem áður bjó við lægra lántökugjald og stimpilgjald þetta upp.

Ég vil segja að mér finnst forgangur ráðherra sem hann nefndi hér fyrr í máli sínu afar sérstakur. Hann telur að það eigi heldur að lækka skatta á hátekjufólki með 4% tekjuskattslækkun sem nýtist helst þeim sem betur hafa það, en að afnema stimpilgjöldin.