Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 15:23:24 (1023)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:23]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga ef félagsmálanefnd gengur svo vasklega til verks sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kallar hér eftir, að gildistaka þessara laga verði fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég væri því manna fegnastur.

Hvað varðar hækkun fasteignaverðsins þá er það rétt sem hv. þm. hefur rakið hér í máli sínu að því er spáð að fasteignaverð muni halda áfram að hækka. Það er hins vegar vert að árétta, hæstv. forseti, að fasteignaverð hér á höfuðborgarsvæðinu hefur farið mjög hækkandi á undanförnum missirum og árum án tillits til þeirra hugmynda sem uppi hafa verið um breytingar á húsnæðislánakerfinu. Sú þróun var byrjuð löngu áður en þær voru fyrst reifaðar og er í nokkru samræmi við það sem gerist á viðlíka svæðum í löndunum í kringum okkur.

Hvað lántökugjaldið varðar, hæstv. forseti, þá rakti ég það hér með skýrum hætti í máli mínu áðan. Á fyrsta ári í hinu nýja kerfi hækkar lántökugjaldið í eitt skipti um 70 þús. kr. Í 39 ár þar á eftir borgar sá sem tekur hámarkslánið 90 þús. kr. minna á ári. Þarna erum við annars vegar að tala um 70 þús. kr. í hærra gjald, hins vegar um 3,5 millj. kr. á föstu verðlagi í lægri greiðslubyrði. Ég tel að þessi samanburður, hæstv. forseti, svari spurningunni mjög skýrt.