Græðarar

Mánudaginn 08. nóvember 2004, kl. 16:15:00 (1120)


131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:15]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því frumvarpi sem heilbrigðisráðherra hefur nú mælt fyrir. Eins og umræðan í þingsalnum ber glöggt vitni um er þetta ekki nýtt mál í þinginu og heyrist á ræðumönnum sem hér hafa talað á undan mér að um þetta hefur verið fjallað töluvert í þinginu og sérstaklega í heilbrigðis- og trygginganefnd. Eins og kom fram í máli ræðumanna kemur þetta frumvarp fram í kjölfarið á þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 2002 og heilbrigðisnefnd fjallaði töluvert um á sínum tíma.

Þegar þetta mál var í heilbrigðisnefnd fengum við bæði tilteknar umsagnir inn í nefndina og fengum gesti á okkar fund frá Bandalagi íslenskra græðara og fleiri aðilum sem höfðu sterkar og góðar skoðanir á þessu. Þar kom m.a. fram að þetta er mjög fjölbreyttur og sundurleitur hópur sem hefur í almennri umræðu gengið eða setið undir því að stunda það sem við kölluðum í þingsályktunartillögunni óhefðbundnar lækningar.

Markmiðið eins og ég skil með frumvarpinu núna og í takt við þingsályktunartillöguna er að veita ákveðna viðurkenningu tilteknum hópi þeirra sem hafa stundað óhefðbundnar lækningar. Einhvern veginn segist mér svo hugur að þá flokkist þessi hópur svolítið niður. Það kom í ljós í meðferð heilbrigðis- og trygginganefndar að margir af þeim sem hafa verið að veita þessa þjónustu eru með margra ára háskólanám að baki en aðrir hafa jafnvel bara sótt ákveðin helgarnámskeið. Það er náttúrlega ljóst að með frumvarpinu, ef að lögum verður, er verið að tryggja ákveðna neytendavernd. Verið er að tryggja það að almenningur geti gert sér svolitla grein fyrir því hvað stendur á bak við þjónustutilboð frá hverjum og einum.

Það sem ég velti svolítið fyrir mér og langaði til að beina spurningu til ráðherra um er að við töluðum alltaf um þetta sem óhefðbundnar lækningar. Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu er í dönsku og norsku lögunum, sem nýbúið er að setja, talað um óhefðbundna meðferð sem er svona aðeins í takt við þá orðnotkun sem við höfum tileinkað okkur á Íslandi, en hins vegar er í þessu frumvarpi talað um heilsutengda þjónustu græðara. Spurning hvort ráðherra getur að einhverju leyti skýrt fyrir okkur af hverju þessi orðnotkun er valin.

Hins vegar vil ég taka undir það sem hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum að mér finnst heitið græðari óskaplega gott og ég held að full sátt sé um að nota það, líka meðal Bandalags íslenskra græðara og þeirra aðildarfélaga sem þar heyra undir. En ef ráðherra vildi aðeins skýra fyrir okkur hvers vegna þessi orðnotkun er valin í frumvarpinu væri það gott.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Möller er sín hvor sýnin á þetta, þ.e. í okkar vestrænu samfélögum og síðan víða í Asíu og Afríku. Við og á vettvangi WTO lítum á þetta sem svona jaðarþjónustu eða viðbótarþjónustu og umræðan hér áðan og andsvör hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur bera þess líka merki að við eigum svolítið erfitt með að fóta okkur í þessu, hvað það er sem við í rauninni viljum að heyri undir þessa almennu heilbrigðisþjónustu og hins vegar það hvað við teljum að eigi að falla undir þetta óhefðbundna.

Mér fannst orðaskipti þessara tveggja hv. þingmanna fyrst og fremst bera þess merki hvað við enn eigum erfitt með að fóta okkur í því hvað eigi að vera hvað.

Það kom líka fram hjá hv. þm. Ástu Möller að margir hjúkrunarfræðingar telja sig og örugglega læknar vera að veita þjónustu sem eftir sem áður telst óhefðbundin, ég nefni bara sem dæmi nálastungur og annað. Ég veit ekki annað en að læknar séu gjarnir á að beita henni, en síðan sé sérstakt félag þeirra sem einungis veita slíka þjónustu.

Það sem þetta snýst kannski að hluta til um er að við erum með eitthvað ákveðið sem heitir almennt heilbrigðiskerfi þar sem við erum búin að tryggja greiðsluþátttöku almannatrygginga en síðan erum við með heilsutengda þjónustu, eins og það heitir í frumvarpinu, sem stendur þar fyrir utan.

Þetta er held ég að hluta til kappsmál margra þeirra sem veita óhefðbundnar lækningar, heilsutengda þjónustu, að komast inn í þetta almenna heilbrigðiskerfi og að fleiri geti þá notið þeirrar þjónustu.

Málið ber þess merki, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra líka, að frumvarpið er unnið í sátt. Í nefndinni sem vann frumvarpið áttu sæti aðilar m.a. frá Bandalagi íslenskra græðara. Frumvarpið var líka sent til umsagnar víða. Ég geri ráð fyrir að þegar búð er að vísa frumvarpinu til heilbrigðis- og trygginganefndar munum við eftir sem áður senda það til umsagnar og fá líka á fund nefndarinnar gesti, bæði fulltrúa heilsutengdrar þjónustu, eins og það heitir í frumvarpinu, og jafnframt einhverja fulltrúa frá hinu almenna heilbrigðiskerfi eða talsmenn þess.

Mig langar sérstaklega að vekja athygli í þessu tilviki á vinnubrögðum sem ég tel vera til mikillar fyrirmyndar. Eins og frumvarpið ber með sér er í nokkrum tilvikum rætt um eða nefndar reglugerðarheimildir. Til að mynda segir hér að ráðherra skuli með reglugerð kveða á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að eiga aðild að skráningarkerfinu, þessu frjálsa. Einnig er talað um lágmark vátryggingarfjárhæðar sem ráðherra skuli ákvarða með reglugerð. Síðan er jafnframt gert ráð fyrir að heiti eins og alvarlegir sjúkdómar og aðgerðir sem veita meðferð sem fylgir alvarleg áhætta, það skuli skilgreint betur í reglugerð.

Síðan er um kynningar og auglýsingar, takmarkanir á því sem ræðumenn hér á undan nefndu líka.

Það sem ég vildi hrósa er að drög að reglugerðunum fylgja frumvarpinu. Við eigum þá hægara með að átta okkur á heildarmyndinni og jafnframt að ræða það við þá gesti og umsagnaraðila sem heilbrigðis- og trygginganefnd mun leita til.

Ég tel að þessi vinnubrögð séu mjög til fyrirmyndar þegar um er að ræða nokkuð víðtækar reglugerðarheimildir eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Mig langar að lokum, herra forseti, að fagna því að frumvarpið er fram komið. Grunnvinnan var unnin af fyrrverandi hv. þingmanni, Láru Margréti Ragnarsdóttur. Hún hélt síðan áfram í heilbrigðis- og trygginganefnd sem vann þetta mál vel og faglega, afgreiddi það frá sér og til þingsins. Það hefur síðan skilað sér í þessu frumvarpi sem enn er búið að leggja frekari vinnu í af hálfu ráðherra og er gleðilegt að það skyldi ekki dragast að koma frumvarpinu inn í þingið. Síðan geri ég ráð fyrir að þegar það er komið í heilbrigðis- og trygginganefnd fái það þar eins og önnur mál vandaða og góða yfirferð.