Græðarar

Mánudaginn 08. nóvember 2004, kl. 16:22:32 (1121)


131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:22]

Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri hv. þingmenn sem þegar hafa tekið til máls fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram, frumvarp til laga um græðara. Ég tel eins og fleiri að frumvarpið sé unnið með þeim hætti eins og ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri frumvörp unnin þar sem fram kemur þingsályktunartillaga, málið er síðan unnið í heilbrigðis- og trygginganefnd og unnið áfram í heilbrigðisráðuneytinu og eftir því sem best verður séð með vönduðum vinnubrögðum og margir hafa komið þar að.

Með frumvarpinu er verið að fylla upp í það tómarúm sem hefur verið varðandi þá fjölmörgu einstaklinga sem hafa stundað hér óhefðbundnar lækningar eins og við höfum kallað það eða flokkað þá fjölmörgu sem stunda ýmiss konar heilbrigðistengda þjónustu sem hefur verið í lagalegu tómarúmi. Það hefur verið til baga vegna þess að þeir einstaklingar sem hafa sótt þjónustu inn í þennan geira hafa ekki haft nokkra einustu möguleika á að vita hvort starfsemin sé viðurkennd eða ekki. Hér erum við að fá þennan ramma sem vonandi dugar til þess að þessi fyrrnefnda óhefðbundna starfsemi geti blómstrað áfram en með þeim gæðakröfum sem á þarf að halda.

Með frumvarpinu munu verða viðurkennd bæði náms- og starfsréttindi hverrar stéttar því þær eru fjölmargar. Ljóst verður hvað felst í starfi græðara og hvaða menntunar verður krafist og hvaða einstaklingar eru viðurkenndir sem græðarar og að þeir séu skráningarskyldir. Það sem skiptir líka máli er að sérhver stétt og sérhver einstaklingur mun hafa ákveðnar siðferðilegar skyldur og ekki síst þagnarskylduna.

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að þrátt fyrir heilbrigðisþjónustuna eins og við þekkjum hana í dag á Íslandi og ég tel að við stöndum nokkuð framarlega hvað varðar þekkingu og veitta almenna heilbrigðisþjónustu, sérstaklega á háskólasjúkrahúsunum, þá eru stöðugt fleiri einstaklingar sem leita út fyrir hina hefðbundnu heilbrigðisþjónustu, ekki síst einstaklingar sem eru haldnir langvinnum og alvarlegum sjúkdómum sem þrátt fyrir góða, vísindalega sannaða meðferð á sjúkrahúsunum telja að það vanti eitthvað umfram það og leita til ýmissa einstaklinga, inn á mismunandi svið, hvort sem það eru nú nálastungur, nudd, grasameðferð, heilun eða hvað það nú er sem fólk telur sig geta fengið betri bót, a.m.k. betri líðan þó það fái ekki bata. Ég tel því að mjög mikilvægt sé að viðurkenna þessa starfsemi, koma utan um hana ákveðnum böndum en þó ekki þannig að það komi í veg fyrir að hún geti blómstrað.

Ég tel einnig að með frumvarpinu felist ákveðin viðurkenning á heilsutengdri þjónustu græðara. Hún er samt sett aðeins skörinni lægra en sú heilbrigðisþjónusta sem við erum vön. Það er heldur ekki hægt að setja allt undir sama hatt því að orðið græðari nær yfir einstaklinga sem eru allt að því sjálfmenntaðir eða hafa lítið nám að baki og einnig þá sem hafa mjög langt og erfitt háskólanám að baki, þannig að orðið græðari spannar mjög vítt svið. Það eina sem er sameiginlegt er að þau falla ekki undir okkar hefðbundna eða vestræna módel.

Það er kannski til umhugsunar fyrir okkur að reyna að komast út úr þeirri núverandi skilgreiningu hvað er hefðbundið og óhefðbundið. Það sem talað er um sem hefðbundið er út frá menningarheimi okkar og okkar vestrænu skilgreiningu og þekkingu eins og við notum innan heilbrigðisþjónustunnar, sérstaklega læknisfræðinnar. Spurning hvort við náum ekki í framtíðinni að skilgreina frekar heilbrigðisþjónustuna út frá álfum eins og okkar, sem vestræna meðferð, og síðan afríska eða asíska eftir uppruna, því margar þessar fræðigreinar byggja á árþúsunda þekkingu og reynslu og að baki margra liggur, eins og ég sagði áðan, mjög langt háskólanám.

Ég tel að frumvarpið um græðara, ef það verður að lögum, verði fyrsta skrefið til þess að koma a.m.k. hluta þessarar starfsemi undir skilgreiningu á heilbrigðisþjónustu þannig að hún verði viðurkennd sem hluti af heilbrigðiskerfi okkar og að þeir einstaklingar sem hana sækja fái einnig stuðning og greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.