Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 10:52:05 (1368)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[10:52]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Vinnandi fólk grípur ekki til verkfallsvopnsins nema í ýtrustu neyð og það er með engu móti hægt að segja annað en að kennarar hafi gripið til þess vegna þess að neyð blasti við hjá þeim. Frá því í byrjun þessa árs höfðu kennarar reynt að ná samningum við viðsemjendur sína án þess að það hefði tekist og það var þess vegna fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt og í samræmi við þá hefð sem hér hefur skapast í hinu frjálsa og lýðræðislega samfélagi á Íslandi að þeir gripu til þessa vopns. Ég tel að í því góða samfélagi sem við höfum byggt upp hér á landi, verkalýðshreyfingin og hinir ýmsu stjórnmálaflokkar sem hafa á ýmsum stundum sögunnar tekið á með henni, hafi þetta oft á ögurstundu verið það vopn sem skipti sköpum og menn hafi alltaf beitt því hóflega. Verkalýðshreyfingin hefur alltaf farið með gát og beitt þessu vopni hóflega.

Ég tel að í frjálsu samfélagi sé það ákaflega viðurhlutamikið að beita lögum til þess að taka þennan rétt í burtu. Í grundvallaratriðum er ég og minn flokkur á móti því að menn beiti lagasetningu til þess að ljúka verkfalli. Ég hef fullan skilning á því þegar hæstv. forsætisráðherra segir að með hagsmuni barna og fjölskyldna í landinu hafi reynst nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Ég hef fullan skilning á því að með einhverjum hætti verði menn að reyna að leysa þennan hnút. Ég segi hins vegar að þessi ríkisstjórn ber töluverða ábyrgð á þeim hnúti sem búið er að binda á þessa deilu. Það er einfaldlega þannig að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, þyrnirósarsvefninn sem heltók hana langar stundir, leiddi til þess að málin komust í þessa stöðu.

Ég vil líka segja þó að ég taki undir með hæstv. forsætisráðherra að það sé nauðsynlegt að við, bæði framkvæmdarvaldið og löggjafinn, högum aðgerðum okkar þannig að reynt sé eftir megni að halda utan um stöðugleikann og treysta undirstöður, þá er það auðvitað hlálegt að heyra hæstv. forsætisráðherra tala um að þessa deilu sé ekki hægt að leysa með eðlilegum hætti, og þá er ég að tala um í frjálsum samningum, vegna þess að það sé mögulegt að það hleypi stöðugleikanum úr jafnvægi. Það blasir við að hlutlausar stofnanir eins og greiningardeildir tveggja banka gefa ekkert fyrir þær verðbólguspár sem hæstv. forsætisráðherra fylgir. Það eru einmitt verðbólguspár þessara óháðu hlutlausu hagstofnana, eins og bankanna sem starfa á frjálsum markaði, sem urðu til þess að nokkru leyti að miðlunartillagan var felld. Það kom einfaldlega fram þegar menn skoðuðu þær launahækkanir sem var að finna í miðlunartillögunni annars vegar og settu þær á kvarða þeirra verðbólguspáa sem fyrir lágu að kennarar mundu standa uppi með samning sem færði þeim engan aukinn kaupmátt. Til hvers var þá um hólmann barist? Þetta verða menn að hafa í huga. Ríkisstjórnin bjó til þessa stöðu.

Ég er alveg sannfærður um að það hefði verið hægt að leysa þetta með öðrum hætti ef menn hefðu unnið öðruvísi. Ég fagnaði því þegar hæstv. forsætisráðherra sagði hér fyrir tveimur dögum að nú yrði að leita allra leiða, og ég tók það svo að honum væri fullkomin alvara með að leita allra leiða, líka að fara þá leið sem hæstv. menntamálaráðherra kallaði hér ónefnum, sem ég man nú ekki hver voru, þ.e. að setja aukið fjármagn í þetta. Hæstv. menntamálaráðherra spottaði og hæddi þá stjórnarandstæðinga sem töldu í einlægni að ekki væri hægt að leysa þessa deilu nema að hjálpa sveitarfélögunum með einhverjum hætti til að bera kostnað af samningum sem kennarar teldu viðunandi.

Ég taldi þess vegna að hæstv. forsætisráðherra væri að segja að sú leið væri ekki útilokuð. En það kemur á daginn að hæstv. forsætisráðherra hefur frekar kosið að fara þessa valdbeitingarleið. Þegar ég segi hins vegar að ég telji að með öðrum vinnubrögðum og sérstaklega með annars konar hvatningu af hálfu ríkisstjórnarinnar hefði verið hægt að ná frjálsum samningum þá er ég að vísa til þess að kennarar hafa sagt á undanförnum dögum að það væri mögulegt að fara með málið í gerðardóm með frjálsu samkomulagi beggja aðila sem mundi þá byggjast a.m.k. að verulegu leyti á samningum framhaldsskólakennara sem viðmiði. Og það gladdi mig sannarlega þegar ég sá aðalsamninganefndarmann sveitarfélaganna, Birgi Björn Sigurjónsson, segja í Morgunblaðinu í gær að það væri ekki þvertekið fyrir þetta. Ég taldi sem sagt að ef ríkisstjórnin spilaði t.d. út því korti að hún mundi beita sér fyrir því að tekjuskiptingarnefndin sem er að véla um skiptingu fjármagns milli ríkis og sveitarfélaga lyki störfum hið fyrsta, væri e.t.v. kominn smurningurinn sem þyrfti í þetta gangvirki til þess að saman gengi.

Auðvitað horfi ég til þess að hæstv. forsætisráðherra las hér upp úr sinni eigin greinargerð það sem sagt er í 3. gr. frumvarpsins, að það skuli höfð hliðsjón m.a. af kjaraþróun sambærilegra hópa. Ég les þetta svo að þarna sé m.a. verið að segja við hinn væntanlega gerðardóm að hann eigi að hafa hliðsjón af kjaraþróun ekki síst hjá framhaldsskólakennurum. Og þá finnst mér, frú forseti, þegar maður lítur yfir þetta svið, að það hafi vantað óskaplega lítið til þess að þarna væri hægt að læsa saman tannhjólum og ná samningum. En mér finnst að það sem á hafi skort hafi verið skilningur ríkisvaldsins á því að þessir hlutir munu kosta peninga og við verðum bara að gera okkur grein fyrir því. Skólinn og menntakerfið er — ég held að við séum öll sammála um það — besta fjárfestingin til framtíðar. Við foreldrar lítum ekki á skólana sem geymslustað heldur sem stað þar sem verið er að bæta börnin okkar, skólinn er uppeldisstofnun, það er verið að gera þau að betri borgurum og gera þau hæf fyrir samfélagið og fyrir framtíðina. Um það erum við sammála. Því betra menntakerfi sem við búum við því betri einstaklinga fáum við og því betri framtíð fáum við. En við vitum líka að það mun kosta peninga.

Ég tel þess vegna, frú forseti, að ríkisstjórnin beri töluverða ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið hafi verið mjög ósanngjarnt í tekjuskiptingu sinni gagnvart sveitarfélögunum. Ég tel að það séu mörg atriði sem hægt er að vísa til sem rökstuðnings fyrir því að ríkisstjórnin ber þarna ábyrgð. Ég ætla bara í örstuttu máli að hlaupa á þremur.

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir fyrir nokkrum missirum leiddu til tekjutaps fyrir sveitarfélögin. Það er hægt að slá á það tekjutap upp á 1,3–1,4 milljarða. Ég rifja það upp að hluti stjórnarandstöðunnar, einstaka maður í stjórnarliðinu, allir þeir sem voru virkir á vettvangi sveitarfélaganna þegar þetta gerðist vöruðu við þessu og sögðu: Þetta mun þýða tekjutap fyrir sveitarfélögin. Og það erum við, löggjafinn að frumkvæði framkvæmdarvaldsins sem samþykkti þessi lög, sem berum ábyrgð. Við hefðum þurft á einhvern hátt að koma til móts við sveitarfélögin. Það stendur út af. Aukin verkefni sem flutt hafa verið til sveitarfélaganna án þess að fjármagn fylgi í svipuðum mæli hafa líka leitt til ákveðinnar gliðnunar.

Síðan í þriðja lagi og það sem mér finnst skipta máli og er kannski ekki beinlínis hægt að saka hæstv. ríkisstjórn um að eiga þátt í en hún ætti líka að koma þar til móts við sveitarfélögin, en það eru endurbætur á skólastarfinu. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að íslenski grunnskólinn hefur stórbatnað eftir að hann fór yfir til sveitarfélaganna. Þetta er að verða ákaflega góður hlekkur og liður í menntakerfi okkar og mér finnst að gæði — af því að ég hef átt kost á því að fylgjast með starfi grunnskólans síðustu árin — grunnskólans séu að batna, sérstaklega gæði skólans gagnvart þeim sem þurfa á liðsinni að halda og ýmiss konar nýbreytni eins og þá sem stundum hefur verið farið yfir, skóli án aðgreiningar, skiptir alveg gríðarlega miklu fyrir þá sem ekki geta farið í gegnum kerfið með þeim sama hraða og önnur börn. Þegar við höfum verið að sjá fregnir um að það sé 30% aukning í mannafla grunnskólans eftir þessa yfirfærslu leiða sumir getum að því að það sé dæmi um einhvers konar óráðsíu hjá sveitarfélögum. Nei, frú forseti. Það stafar af þessu aukna liðsinni. Aukin gæði, meiri jöfnuður og betri skóli kostar peninga. Þetta eru aukin samfélagsleg gæði sem samfélagið hlýtur að koma allt að til þess að greiða kostnaðinn, sveitarfélögin með sínum hætti en ríkisvaldið á líka að koma þarna að og virða og meta þetta og láta þess sjá stað í auknum fjárframlögum.

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp sem miðar að því að stöðva verkfall grunnskólakennara. En leysir það vandann? Það leysir tímabundinn vanda en leysir það vandann til frambúðar?

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra talar fyrir þessu máli sem illri nauðsyn. En er hann þá kominn í andstöðu við hæstv. menntamálaráðherra? Sem sagði fyrir örfáum dögum, með leyfi forseta, um yfirvofandi lagasetningu:

„Við höfum reynslu af slíkri lagasetningu og hún er slæm.“ Síðan bætir hæstv. menntamálaráðherra við: „Hún leysir lítinn vanda og skýtur honum einungis á frest.“ Það er hæstv. menntamálaráðherra sem vegur þennan möguleika og kemst að þeirri niðurstöðu að það sem ríkisstjórnin er að gera núna leysi ekki vandann. Það er hæstv. menntamálaráðherra sem lögum samkvæmt á að sjá um menntun grunnskólabarnanna sem segir: Vandinn fer ekki í burtu. Með þessum gerningi er einungis verið að skjóta honum á frest.

Frú forseti. Ungur þingmaður sem situr hjá okkur í dag og er nú starfandi sem formaður menntamálanefndar hefur líka fjallað um þetta. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir segir á heimasíðu sinni síðan í gær, með leyfi forseta:

„Afleiðingar lagasetningar geta orðið mjög slæmar. Kennarar verða óánægðir, segja jafnvel upp störfum og við viljum ekki missa góða kennara.“ Síðan segir starfandi formaður menntamálanefndar: „Mórallinn verður ömurlegur og bitnar án efa á nemendum.“

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir veit um hvað hún er að tala. Hún er talsmaður flokksins í þessum málum og hún hefur kynnt sér þau og í ræðu um daginn sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta, þegar hún ræddi þetta: „Í fyrsta lagi hefur heyrst í umræðunni að margir kennarar munu segja upp störfum ef samningar nást ekki. Við megum ekki við að missa góða kennara.“

Það er hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem talar fyrir hönd Framsóknarflokksins sem segir það beinlínis að ef við förum þessa leið munum við missa bestu kennarana. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Er það það sem við viljum? Að sjálfsögðu ekki.

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur skoðað söguna og hún sagði í ræðu sinni, með leyfi forseta: „Í öðru lagi sýnir reynslan frá árinu 1989 að það tók mörg ár að fá kennara aftur í skólana til starfa. Mórallinn verður slæmur og þetta hefur skaðleg áhrif á nemendur.“

Hæstv. forsætisráðherra kemur hér með þetta frumvarp og það eru menn hans, hæstv. menntamálaráðherra og hans ungi og upprennandi talsmaður í menntamálum sem fella þessa dóma. Það er ekki ég sem geri það. Það er ekki formaður Samfylkingarinnar. Það er hans eigið lið sem segir að þessi aðferð sé eins og að pissa í skóinn sinn. Hún fresti vandanum en mönnum kólnar snöggt aftur og þetta getur leitt til þess, segja þessir hv. þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar, að bestu kennararnir fari úr skólanum og það gæti tekið mörg ár að skólastarfið nái aftur sömu gæðum. Þetta er það sem við horfumst í augu við og þess vegna, frú forseti, lýsi ég ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir að koma á því ástandi sem hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt að leysi engan vanda, sem hv. starfandi formaður menntamálanefndar segir að búi til ömurlegan móral, segir að leiði til landauðnar í stéttinni. Þetta hefði hæstv. forsætisráðherra kannski átt að skoða áður en hann byrjaði þessa vegferð alla.

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að í grundvallaratriðum eigi ekki að leysa verkföll með lagasetningu. Ég tel að í grundvallaratriðum hafi ríkisstjórninni orðið á alvarleg mistök bæði í aðdraganda þessa máls og ekki síður þegar greidd voru atkvæði um miðlunartillöguna. Ég tel að ef ríkisstjórnin hefði sýnt sanngirni í samskiptum sínum við sveitarfélögin þyrftum við ekki að vera í þessari stöðu í dag. Við skulum ekki gleyma því að það sem hæstv. forsætisráðherra er að gefa undir fótinn með í frumvarpinu, samanburðurinn við framhaldsskólakennara, er nákvæmlega það sem hefur verið drifkrafturinn í þessari deilu. Það var ríkið sjálft sem bjó til þetta fordæmi. Það var ríkið sjálft sem gerði samninga við framhaldsskólakennara 1996 þegar grunnskólinn var fluttur í ágúst yfir til sveitarfélaganna. Þá var jöfn staða milli framhaldsskólakennara og grunnskólakennara og það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að áfellast kennara fyrir að vilja ná aftur þeirri stöðu. Það er ekki hægt.

Ég er þeirrar skoðunar að framhaldsskólakennari með tiltekna menntun — ég ætla að orða þetta öðruvísi, frú forseti. Grunnskólakennari með ákveðna menntun á að hafa sömu laun og framhaldsskólakennari með sömu menntun.

Þegar Þyrnirós ríkisstjórnarinnar vaknaði af svefni sínum, hvað blasti þá við henni? Hún horfði yfir menntakerfið og komst að niðurstöðu sem hún tjáði svo í sjónvarpsþætti í gær að mikill munur væri á stöðu grunnskólakennara og framhaldsskólakennara og þess vegna væri ekki hægt að vinna að því að þeir fengju sömu laun. Til að sýna hvað allt rekur sig hvað á annars horn hjá hæstv. ríkisstjórn vil ég upplýsa þingheim um að þetta er sami hæstv. menntamálaráðherra og ætlar að stytta framhaldsskólann — með hverju? Með því að færa hluta af honum niður í grunnskólann. Þá er ekki munur á grunnskólakennurum og framhaldsskólakennurum. Viðhorf af þessu tagi, frú forseti, skilningsskortur af þessu tagi hjá þeim ráðherra sem á að bera ábyrgð á menntakerfinu segir allt sem segja þarf um skilning ríkisstjórnarinnar á högum menntunar í landinu og sérstaklega á högum kennara.