Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 11:11:15 (1370)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:11]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra minn trúr, ég held ekki að nokkur maður hafi gaman af því að taka þátt í þessari lagasetningu. Það er fjarri mér að ætla að ríkisstjórnin telji að þetta sé gott mál, fjarri mér.

Að því er varðar lestur minn á heimasíðu hv. þingmanns er ég reglulegur lesandi hennar og fylgist mjög vel með ferðum hennar um landið og kjördæmi hennar og hugsunum. Þess vegna er ég svo hissa á þessari þróun mála vegna þess að ég tel að ef t.d. formaður Framsóknarflokksins fylgdist jafnvel með hugrenningum og hugmyndum talsmanns flokksins í menntamálum og ég hefði hann kannski fyrir lifandis löngu spyrnt við fótum og hugsað: Er ég á réttri leið? Ég tel bara út frá lestri heimasíðu og þeirra skoðana sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir tjáir þar hefðu framsóknarmenn sem lesa þá síðu reglulega fyrir löngu átt að komast að þeirri niðurstöðu að formaður Framsóknarflokksins og ríkisstjórnin öll væri á rangri leið.

Það er auðvitað sláandi að talsmaður Framsóknarflokksins sem ábyggilega á eftir að gegna háum embættum fyrir þann flokk einhvern tíma í framtíðinni á þessu sviði skuli segja um þessa lagasetningu að kennarar verði óánægðir, muni segja upp störfum, við munum missa góða kennara, mórallinn verði ömurlegur, lagasetningin bitni á nemendum, reynslan frá 1989 sýni að tekið hafi mörg ár að fá kennara aftur inn í skólann. Formaður Samfylkingarinnar hafði ekki einu sinni hugmyndaflug eða þekkingu til að komast svona snilldarlega að orði um afleiðingar þessarar lagasetningar. Ég les þetta beint upp úr skrifum hv. þingmanns sem svipti hulu frá augum mínum. Hugsanlega hefði sama hula svipst frá augum hæstv. forsætisráðherra hefði hann haft fyrir því að fylgjast með þróun þessa unga þingmanns síns. Ég tel að enginn hafi orðað þetta jafnsnilldarlega og talsmaður Framsóknarflokksins í menntamálum.