Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 11:13:23 (1371)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:13]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé kannski ekki alveg augnablikið til að vera með — ég ætla að vera varkár í orðalagi en mér finnst þetta ekki vera augnablikið til að fara hér með svona ákveðna hæðni. Ég held að það sé alveg ljóst að við erum á mjög erfiðu augnabliki í þingstörfum og til að upplýsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur þingflokkur Framsóknarflokksins margoft rætt stöðuna í þessari kjaradeilu og að sjálfsögðu vita allir af því hvernig umræðan er.

Ég verð að segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur aldeilis verið með lokuð augun ef hann hefur ekki gert sér grein fyrir því að þetta geti orðið hugsanlegar afleiðingar verkfalls. Ég held að það sé ekkert skemmtilegt fyrir kennara að fá á sig lög og að engir samningar hafi náðst og ég skil ósköp vel að einhverjir muni segja upp störfum. Eins og hv. þingmaður sagði áðan fara menn ekki út í verkfall nema staðan sé ekki góð. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en vil ítreka það hér að umræðan hefur svo sannarlega farið fram og ekkert nýtt sem kemur fram í máli hv. þingmanns.