Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 11:39:08 (1379)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:39]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni að í upphafi þessarar viku vorum við að ræða einmitt þetta alvarlega mál, kjaradeilu kennara og sveitarfélaga. Þar sagði ég m.a. í utandagskrárumræðu, með leyfi forseta:

„Lagasetning þar sem gripið er með beinum hætti inn í kjaradeilu hlýtur hins vegar ávallt að mínu mati að vera neyðarúrræði. Við höfum reynslu af slíkri lagasetningu og hún er slæm. Hún leysir lítinn vanda og skýtur honum einungis á frest, líkt og báðir deiluaðilar hafa þegar bent á. Lagasetning er því að mínu mati þrautalending.“

Þetta sagði ég á þriðjudaginn, og við þessi orð stend ég. Lagasetning er algjör þrautalending, hún er algjört neyðarúrræði þegar verið er að skipta sér af kjaradeilum milli kennara og sveitarfélaga eða annarra deiluaðila í kjaramálum í landinu. Við höfum haft vonda reynslu af afskiptum ríkisvaldsins þegar svo er.

Hvað hefur síðan gerst? Á miðvikudaginn var fundur í húsakynnum ríkissáttasemjara og eftir þann fund var öllum ljóst að kennarar og sveitarfélög mundu ekki ná saman á næstu vikum. Lögum samkvæmt boðar ríkissáttasemjari deiluaðila ekki á sinn fund fyrr en eftir tvær vikur og það er alveg ljóst að á þeim tíma munu deiluaðilar ekki ná saman, jafnvel ekki eftir fjórar og jafnvel ekki eftir sex vikur. Það er líka ljóst eftir samræður okkar ráðherra í ríkisstjórn við ágæta forustu launanefndar sveitarfélaga, Kennarasambandsins og Skólastjórafélagsins að í raun og veru er allt upp í loft í þessari kjaradeilu. Það er frekar þannig að deiluaðilar séu að fjarlægjast hvorir aðra en að nálgast.

Það er líka haft eftir ríkissáttasemjara að bilið sé mjög breitt og að í rauninni sé ekkert hægt að gera. Sjálfir hafa forustumenn kennara m.a. bent á að gerðardómsleiðin væri þeim hugnanleg á ákveðnum forsendum. Jafnframt heyrði ég m.a. formann grunnskólakennara segja í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun að þetta væri illskásta leiðin úr því sem komið væri. Okkur öllum sem erum í þessum sal er ljóst, fjölskyldunum en ekki síst deiluaðilum, að staðan er afar erfið. Að mínu mati er komin upp ákveðin neyð sem réttlætir þá leið sem við erum að fara í dag og það frumvarp sem við erum að ræða hér. Með því verður bundinn endi á þetta verkfall sem hefur lamað starfsemi íslenskra grunnskóla á undanförnum tveimur mánuðum. Þetta er eins og ég gat um áðan engan veginn ákjósanleg niðurstaða en að mínu mati er þetta illskásta leiðin í stöðunni. Þetta er neyðarúrræði, það er neyðarástand.

Menn hafa verið að reyna að benda á aðrar leiðir. Menn hafa talað um að setja meira fjármagn í þessa kjaradeilu. Fyrir það fyrsta er enginn samhljómur á milli þess sem þingmenn hafa sagt, til að mynda þingmenn Samfylkingarinnar í þessum sal og talsmenn Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarmálum. Fjárhagsmálefni ríkis og sveitarfélaga eru alltaf uppi á borðum. Þau eru alltaf til umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga. Þeim verður ekki blandað inn í einstakar kjaradeilur, það verður ekki gert þannig.

Ég vil líka minna á það að einn hv. þm. Samfylkingarinnar, öflugur talsmaður hennar í menntamálum, hefur m.a. sagt að samningur sá sem sveitarfélögin gerðu á sínum tíma við ríkið um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna hafi verið einn besti samningur sem sveitarfélögin hafa gert við ríkið. Það er skiljanlegt því að þetta er þjónusta sem er vel til þess fallin að heyra undir sveitarfélögin. Grunnskólinn hefur vaxið og dafnað í sátt og samvinnu við þá íbúa sveitarfélaganna sem þar eru hverju sinni og líka í samvinnu við ríkið. Ríkið hefur ekki staðið að lagabreytingum á grunnskólalöggjöfinni nema í samvinnu og sátt við sveitarfélögin og í samvinnu við Kennarasambandið.

Ég vil einnig geta þess, frú forseti, að ég hef velt því fyrir mér að ef það eitt gæti leyst vandamálið að setja fjármagn inn í kjaradeiluna, hvað þá með næstu kjaradeilu sem bíður okkar? Það eru leikskólakennarar. Þeir hafa eðlilega sagt — og maður skilur þá kröfu — að þeir vilji miða sig við þá samninga sem grunnskólakennarar koma til með að gera við sveitarfélögin. Ég hef ekki enn þá heyrt einn einasta stjórnarandstæðing benda á hvaða launþegar í landinu það eru sem mega síðan ekki miða sig við þennan samning. Það hefur ekki enn þá komið fram.

Eins og við þekkjum öll er neyðin í samfélaginu mjög mikil og kemur fram á mörgum stöðum. Mér skilst að til að mynda hafi hringingum í neyðarnúmer Rauða kross Íslands fjölgað úr 1.000 í 1.400 í október og það er ljóst að drjúgur hluti þessarar aukningar er m.a. vegna verkfallsins. Það er m.a. þess vegna sem við höfum ákveðið að leggja fram þetta frumvarp, við getum ekki lengur horft upp á það að 45 þúsund grunnskólabörn geti ekki gengið í skóla. Þetta verkfall hefur verið afar erfitt fyrir sveitarfélögin en ekki síst fyrir kennarana.

Það er líka mjög eðlilegt að kennarar hafi verið háværir í þessari deilu. Það er eðlilegt og það eiga allir að skilja, við öll hér í þessum sal. Við eigum líka að skilja að þeir ætlist til þess að þeir hafi mannsæmandi laun. Hvort sem það er á tyllidögum eða í þessum sal, oft, þegar við ræðum málefni menntamála, málefni skólakerfisins sem er svo mikilvægt fyrir okkur, er það lykilatriði að við séum með góða kennara. Þá skiptir máli að þeir séu með mannsæmandi laun.

Eftir að hafa fylgst náið með þessari deilu vil ég meina að við verðum að fara að hugsa upp á nýtt og huga að nýjum leiðum þegar kemur að samningamálum kennara, annars vegar með það að markmiði að aldrei verði aftur verkföll í skólum landsins og hins vegar að við getum fundið leiðir sem við getum öll sammælst um til að kennarar verði með mannsæmandi laun, þannig laun að við getum haldið besta fólkinu í skólunum við kennslu. Þetta er gríðarlega þýðingarmikið atriði. Við getum öll verið vitur eftir á en það er engu að síður tími til kominn að við hugsum um það hvaða afleiðingar þetta allt hefur í för með sér.

Ég sagði áðan og vitna nú aftur í orð mín frá upphafi vikunnar að sú leið sem við erum að fara hér í dag skýtur einungis vandanum á frest. Það er rétt. Við verðum öll að axla þá ábyrgð, ríki, sveitarfélög, foreldrar, kennarar, við öll sem komum að þessum málum. Við verðum að huga að því hvernig við ætlum að leysa málin til frambúðar.

Á árum áður lenti ég sjálf í því á skólagöngu minni að kennarar, og ekki bara kennarar heldur fleiri, fóru í verkfall. Ýmsar stéttir fóru í verkfall, það var segin saga og það var eðlilegt. Verkalýðurinn í þessu landi hefur barist fyrir því að fá verkfallsréttinn og því er ekki óeðlilegt að menn grípi til verkfallsvopnsins þegar engin önnur úrræði gefast. En að mínu mati, miðað við þá þróun og uppbyggingu á skólastarfi sem við höfum staðið fyrir á undanförnum árum, miðað við þá miklu þýðingu sem skólastarfið hefur í samfélaginu — og ég vil meina að skólastarfið hafi aldrei haft jafnmikla þýðingu fyrir samfélag okkar, fyrir fjölskyldurnar og fyrir einstaklingana í landinu og núna — verðum við að finna nýjar leiðir til að koma kjaramálum kennara í almennilegt horf. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að svo verði til frambúðar. Það er nauðsynlegt fyrir okkur öll.

Ég vona að við getum að þessu öllu saman loknu sest niður og talað saman einlægt og heiðarlega um það hvernig við ætlum að gera þetta, sammælst um að finna úrræði til að fá besta fólkið inn í skólana og halda því þar. Við þurfum á því að halda, við þurfum á okkar allra besta fólki að halda í skólakerfinu og til þess þarf laun.

Um leið og við segjum þetta erum við líka að fara fram á að ekki verði verkföll í skólunum, að ekki verði verkföll sem leiði til þess að börnin okkar sitji heima eða séu annars staðar í samfélaginu í reiðileysi. Mér finnst miður að hafa heyrt um þessa fjölgun á hringingum í neyðarnúmer Rauða kross Íslands.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri að svo stöddu. Eins og ég hef getið um hef ég þegar hafið undirbúning að því í ráðuneytinu hvernig við komum til móts við þá lagaskyldu sem er 170 dagar í skóla fyrir börnin. Við munum að sjálfsögðu gera það í samvinnu við sveitarfélögin og kennara. Við höfum í ráðuneytinu þegar haft samband við fræðsludeild Sambands íslenskra sveitarfélaga um það hvernig við munum huga að því og fylgja því eftir hvernig sveitarfélögin, sem þó eflaust gera það á einhvern mismunandi hátt, munu reyna að koma eins og þau geta til móts við börnin og uppfylla rétt þeirra til menntunar.

Meðal annars hefur ekki verið gripið inn í þessa deilu fyrr af því að við vitum, þó að oft sé erfitt að standa frammi fyrir slíku þegar kemur að jafnmikilvægum málaflokki og menntamálin eru, að umboðsmaður barna hefur ályktað sem svo að réttur kennara, reyndar réttur allra sem hafa rétt til að fara í verkfall, er mjög sterkur og mjög ríkur og við eigum að virða hann. Baráttan er áralöng sem hefur orðið til þess að rétturinn er viðurkenndur eftir okkar lýðræðislegu leikreglum í samfélaginu og viðurkenndur líka af alþjóðasamningum. Engu að síður er erfitt að sjá þann rétt vera ríkari en rétt barna okkar til skólagöngu. Þannig er það samt, þannig eru leikreglurnar sem við höfum komið okkur saman um og við verðum að virða þær.

Nú er svo komið að ekki verður lengur búið við það ástand sem hefur ríkt í samfélaginu undanfarnar sjö vikur. Það var bersýnilega ljóst af samræðum okkar ráðherra við deiluaðila í gær, eins og ég gat um áðan. Málið er í kirfilegum hnút og það verður að höggva á hann. Við verðum að koma börnunum okkar inn í skólann og við verðum síðan, eins og ég gat um áðan, að taka höndum saman og gera upp við okkur hvernig við ætlum að koma í veg fyrir svona aftur.

Við erum öll búin að tala um það hér, og ég ítreka það aftur, að við viljum sterkt og öflugt menntakerfi. Það er nauðsynlegt fyrir okkur öll, sérstaklega líka í hinni harðnandi samkeppni við alþjóðasamfélagið. Við sjáum að velferð allra eykst í samfélaginu þegar menntakerfið nær að blómstra. Það er einn af stóru þáttunum í því að kaupmáttur og hagvöxtur hefur verið þetta mikill á undanförnum árum að mínu mati, þessi almenni stöðugleiki í samfélaginu, af því að við búum við gott og stöndugt menntakerfi með gott starfsfólk.

Þess vegna vona ég að við getum eftir einhvern tíma sest niður og rætt þetta opinskátt. Ég býð að því borði því fólki sem hlut á að máli.