Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 11:59:17 (1385)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:59]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég kom sérstaklega inn á það í ræðu minni fyrr í vikunni að við munum að sjálfsögðu reyna að tryggja í samvinnu við fræðsluyfirvöld sveitarfélaganna og kennara hvernig við getum tryggt rétt barnanna til að fá þá kennslu sem þeim ber. Það er líka deginum ljósara að með hverjum deginum sem hefur liðið í verkfalli verður það erfiðara, og okkur verður æ erfiðara um vik að gera það.

Verkfall stendur enn yfir. Strax og þetta frumvarp verður orðið að lögum munum við fara yfir málin með sveitarfélögunum, hvernig við ætlum að uppfylla þessa skyldu. Þarna ber menntamálaráðuneytið ríka eftirlitsskyldu sem það mun að sjálfsögðu uppfylla.