Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 12:27:01 (1407)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:27]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því að það hafi verið góður samningur á alla lund þegar grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga. Ég tel að í því sambandi hafi mörg atriði ekki verið útkljáð og ekki fylgt fjármagn til þróunar þess skólastarfs sem eðlilegt var að ráðist yrði í.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. félagsmálaráðherra: Verður komið með ákveðna yfirlýsingu um ákveðið fjármagn til sveitarfélaganna nú á næstu dögum til að þau geti fjallað um kjarasamninga með eðlilegum hætti? Ég tel það grundvallarforsendu málsins.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að peningar eru ekki allt. Gildismatið gagnvart þessu starfi skiptir líka máli og þar finnst mér ríkisstjórnin ekki standa framarlega.

Það verður að koma fjármagn til sveitarfélaganna til að hægt sé (Forseti hringir.) að leysa þessi mál og svör um það verða ráðherrarnir að gefa.