Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 12:32:13 (1413)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:32]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Lagasetning á kjaradeilu leysir engan vanda. Það hefur margoft komið fram við þessa umræðu. Stjórnarandstaðan hefur lýst sig eindregið andsnúna þeim gjörningi sem hér fer fram. Sú alvarlega staða sem uppi er nú í sjöundu viku kjaradeilu kennara og sveitarfélaga er að stórum hluta á ábyrgð ríkisvaldsins. Það vita allir. Ríkisvaldið samdi við framhaldsskólakennara fyrir þremur árum og gaf þar af leiðandi ekki bara tóninn, heldur setti viðmið um hvað grunnskólakennarar hlytu og yrðu að miða við þegar samningar þeirra losnuðu. Svo einfalt er það mál og undan þeirri ábyrgð víkur ríkisvaldið sér ekki. Þeir fela sig ekki á bak við það að ríkisvaldið hafi á sínum tíma gert samninginn við sveitarfélögin um rekstur grunnskólanna vegna þess hvernig þeir gáfu tóninn á sínum tíma, vegna þess að ríkisvaldið skammtar verkefni, vegna þess að ríkisvaldið skammtar tekjustofnana og peningana verða þeir að mæta sveitarfélögunum í þessu máli.

Það er réttlætismál að ríkið geri þannig við sveitarfélögin að þau geti staðið undir lögbundnum verkefnum sínum og gert sanngjarna kjarasamninga við kennarana í landinu. Ríkið sjálft gerði sanngjarna kjarasamninga við framhaldsskólakennara fyrir nokkrum árum. Um það held ég að flestir séu sammála, a.m.k. hafa fáir andmælt því. Þess vegna verður að brúa það bil sem varð með þeim samningum milli grunnskóla- og framhaldsskólakennara, í þessum samningum núna.

Fyrst sú neyðarstaða er komin upp og sá hörmulegi gjörningur á sér stað að lög verða sett á kjaradeiluna verður útkoman úr þeim gjörningi, úr þeim gerðardómi þegar gerðardómur gengur, að vera sá að kjör þessara tveggja stétta, þessara bræðrastétta, verði sambærileg. Að sjálfsögðu að teknu tilliti til ólíks vinnutíma o.s.frv. Það eru tæknileg úrlausnarefni. Kjörin eiga að vera þau sömu.

Þetta vil ég segja hér í upphafi, virðulegi forseti, af því að þetta er algjört lykilatriði og algjört meginmál í þeirri deilu sem nú stendur yfir og í þeim alvarlega vanda sem íslenskt samfélag er út af þessum málum. Þess vegna er ábyrgð ríkisins á þessu máli algjör, ríkið gaf tóninn með samningunum við framhaldsskólakennarana, ríkið skammtar verkefnin, ríkið skammtar tekjustofnana. Undan þessu víkja ráðamenn samfélagsins sér ekki, og þeir geta það ekki með neinum hætti. Það er ósanngjarnt að reyna það, þeirra er ábyrgðin ásamt að sjálfsögðu forustumönnum sveitarfélaga í landinu. Saman eiga þessi tvö stjórnstig að leysa þennan vanda þannig að sómi sé að en ekki sú skömm uppi sem núna er í þessari deilu þegar ríkisstjórnin ætlar að setja lög á kjaradeiluna.

Virðulegi forseti. Næsta stórverkefni sem blasir við er að mæta afleiðingum verkfallsins á skólagöngu barnanna. Ein og hálf milljón skóladaga hefur tapast í landinu í þeirri verkfallslotu sem staðið hefur yfir. Það er skylda okkar að mæta þeim skaða með öllum tiltækum ráðum. Það er engin lausn að segja að biðin skuli bætt. Það er skylda okkar að bæta börnunum skaðann og mæta afleiðingum verkfalls með samræmdum aðgerðum. Hæstv. menntamálaráðherra svaraði því í engu í andsvari fyrr í morgun hvernig hún ætlaði að mæta skaðanum. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki gefið tóninn um hvernig þessu skyldi mætt, hvorki nú né í umræðunni fyrr í vikunni.

Því óska ég eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. menntamálaráðherra verði beðin um að vera við þessa umræðu núna og komi hér á eftir og skýri þingheimi frá því, og þeim sem með umræðunni fylgjast, þjóðinni, hvernig börnunum skuli bættur sá skaði sem hlotist hefur með því að tapast hefur ein og hálf milljón skóladaga í deilunni. Það er skylda okkar að bæta þeim þetta upp og hæstv. menntamálaráðherra verður að gefa okkur ádrátt um það hvernig hún ætli að bregðast við þeim vanda. Það er algjört lykilatriði, undan þeirri ábyrgð getur hún heldur ekki vikið sér. Það er alveg skýrt. Við verðum að fá svör við því í dag þegar við ræðum þetta frumvarp til laga vegna kennaradeilunnar og stöndum frammi fyrir því að sett verða lög á deiluna. Hvernig á að bæta börnunum skaðann? Þessu verður að svara.

Þá verðum við og að fá skýrt fram frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar sem sömdu og lögðu fram frumvarpið hvernig þeir túlka 3. gr. Þetta getur ekki verið skrifað út í loftið. Eitthvað liggur til viðmiðunar.

Hæstv. félagsmálaráðherra gaf bæði þeim sem hér stendur og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni nokkuð skýr svör um það áðan í andsvörum að hann liti svo á að framhaldsskólakennarar væru vissulega einn sá hópur sem miða skyldi við. Hæstv. menntamálaráðherra hefur hins vegar talað allt öðruvísi. Fyrir þeirri afstöðu sinni verður hún að gera skýrari grein.

Það verður að bæta kennurum kjör sín með þeim hætti að þeir standi jafnfætis framhaldsskólakennurum þegar allt kemur til alls. Það er mín einlæga og eindregna skoðun, og því höfum við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni haldið fram frá fyrsta degi. Við höfum einnig haldið því fram frá fyrsta degi deilunnar að ríkisvaldið verði með skýrum hætti að koma að málum, að það verði að liðka til fyrir þessum málum. Þetta á ekki að snúast um kryt milli stjórnsýslustiga, það er óuppgert við sveitarfélögin í landinu. Ríkisvaldið skuldar sveitarfélögunum vegna skattalagabreytinga, húsaleigubóta og fleiri slíkra hluta háar upphæðir peninga, 1–2 milljarða króna. Þá hefur nefndin um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga ekki lokið störfum, langt á eftir áætlun. Sú nefnd átti að sjálfsögðu að ljúka störfum fyrr á árinu þannig að þau mál lægju skýr fyrir og væru ekki að þvælast inn í þessa deilu og deiluaðilar gætu því rætt málin af meiri festu en gert var.

Þetta eru algjör lykilatriði.

Við eigum eftir að sjá hvaða afleiðingar verða af þessari lagasetningu hérna í þinginu um helgina ef svo fer sem horfir á næstu dögum. Það er gríðarleg undiralda meðal kennara, það er aðdáunarverð samstaða í stéttinni sem hefur staðið sem einn maður eins og við höfum séð í öllum viðbrögðum þeirra og umræðum á síðustu vikum og eins og við sáum í atkvæðagreiðslu þeirra um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Sú samstaða gæti skilað sér í mikla undiröldu þannig að við sæjum kennara ganga út úr skólastofunum í stórum stíl. Við höfum rætt um móralinn, hvaða áhrif þetta hefur haft á kennsluna og stemmninguna í skólunum, á allt skólastarf í landinu. En það er ekki bara að skólastarfið hafi beðið skaða af þessari löngu deilu þar sem ein og hálf milljón skóladaga hafa tapast á þessu skólamissiri, heldur líka að verði kennararnir barðir til baka án þess að þeir fái launabætur sem sæmandi geti talist og þeir sáttir við, þá er skaðinn í skólastarfinu að sjálfsögðu enn þá meiri, einfaldlega vegna þess að mórallinn í skólunum verður í takt við þetta. Þetta verður að koma í veg fyrir um leið og ráðamenn gera skýra grein fyrir afleiðingunum og hvernig þeir hyggist mæta afleiðingum verkfallsins. Samfélagið og ríkisstjórnin hefur haft af börnum landsins lögbundna kennslu og fræðslu sem ríkisvaldinu ber skýlaust skylda til að veita. Ríkisstjórnin brást þeirri skyldu sinni. Aðgerðirnar verða að liggja fyrir núna um helgina. Hæstv. ráðherra menntamála hlýtur að skýra okkur frá því hér í dag. Ég hef óskað eftir því að hún verði við þessa umræðu sem á eftir að standa hér fram eftir degi.

Að lokum vil ég segja: Ríkisvaldið gaf tóninn með kjarasamningum framhaldsskólakennara, ríkisvaldið skammtar sveitarfélögunum tekjustofna, ríkisvaldið semur um verkaskiptingu við sveitarfélögin — ábyrgðin er ríkisvaldsins. Ríkisvaldið ber, þegar allt kemur til alls, og þegar málin eru til lykta leidd, ábyrgð á fræðslumálum í landinu. Undan þeirri ábyrgð geta ráðamenn ekki vikið sér. Þeir verða að mæta henni af fullu afli. Við þurfum að sjá hér á næstu dögum hvernig það verður. Þess vegna verða þeir að skýra hvað felst í 3. gr. frumvarps til laga um viðmiðunarhópana og þess vegna verða þeir að skýra okkur, þingheimi og þjóð, frá því hvernig eigi að mæta afleiðingum verkfallsins á skólagöngu barnanna í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)