Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 13:04:11 (1416)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég sé sammála afstöðu ASÍ. Við því er auðvitað ekki einfalt svar. Ég er sammála því að það eigi að vinna gegn launamun í landinu. Ég er nógu skynsöm til að geta sagt mér það sjálf að ef við ætlum að minnka launamuninn í landinu, muninn á milli ríkra og fátækra, þá minnkum við ekki þann launamun öðruvísi en upp á við. Við lækkum ekki hærri launin til þess að mæta lágu laununum. Er ekki miklu eðlilegra að við sameinumst um að hækka lágu launin?

Ég hef haldið ræður um það hvernig á að hækka lægstu launin. Auðvitað er það gífurlega þýðingarmikið að lægstu launin verði hækkuð, en við erum ekki að fjalla um lægstu launin í þessari kjaradeilu núna. Við erum að tala um laun grunnskólakennara, stéttarinnar sem ber ábyrgð á menntun þjóðarinnar. Þess vegna er ekki hægt að hv. þingmaður sé að þvæla um það í þessu andsvari að hér skipti mestu máli að ræða fullyrðingar ASÍ. [Hróp á þingpöllum.] Það skiptir máli að einskorða okkur við það sem hér er uppi á borðum, kjaradeilu grunnskólakennara við sveitarfélögin. Hún verður ekki leyst nema til komi aukið fjármagn frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Hv. þingmaður veit auðvitað vel að sveitarfélögin eru misvel sett og hann getur þess réttilega að sum þeirra noti ekki skattprósentuna sína, útsvarsprósentuna til fulls, en hann veit líka að það er ekki hægt að rjúfa samstöðu sveitarfélaganna í miðju samningsferli. Sveitarfélögin gengu meðvitað sameinuð að samningaborðinu og þau verða að halda því áfram sameinuð. Það er ekki hægt að þau sveitarfélög sem bolmagn hafa rjúfi sig út, kljúfi sig frá, semji við sína kennara og skilji síðan fátækustu sveitarfélögin eftir. Það væri heldur ekkert réttlæti í því.