Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 13:10:06 (1419)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:10]

Pétur Bjarnason (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að gera orð hæstv. menntamálaráðherra að mínum þar sem hún sagði í vikunni og endurtók í dag, að setja lög á verkfall frestar vandanum en leysir hann ekki. Um það erum við hjartanlega sammála og eins og komið hefur fram í dag erum við í Frjálslynda flokknum algjörlega á móti lagasetningu á vinnudeilur. Þær ætti að útkljá með allt öðrum hætti. Hins vegar hefur komið fram núna, bæði í umræðunni og aðdraganda þess frumvarps sem hér liggur fyrir, að það er algjört máttleysi hjá þeim sem fara með menntamálin, annars vegar sveitarstjórna gagnvart grunnskólakennurum og hins vegar ríkisstjórnarinnar, til þess að finna leiðir til að leysa þetta verkfall. Þess vegna höfum við ákveðið, eins og líka hefur komið fram hér, að við munum þrátt fyrir að við samþykkjum aldrei lög af þessu tagi ekki leggjast gegn því að ríkisstjórnin grípi til þessara ráða í því ófremdarástandi sem nú er komið upp.

Mér fannst kveða við nýjan tón hjá hæstv. menntamálaráðherra frá því við ræddum saman í vikunni um þetta sama vandamál. Þá fór ég yfir stöðu mála í sambandi við ástandið í skólunum, hjá kennurum og grunnskólanemendum. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að tíunda það aftur, því það þekkja bæði þingmenn og þjóðin öll, svo mjög hefur verið fjallað um málið.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði áðan, og ég tók eftir að kennarar hér á pöllunum og vafalaust þeir sem horfa og hlusta lögðu mjög við eyrun: Aldrei aftur verkfall, halda hæfasta fólkinu í skólunum, finna leiðir til þess að tryggja kjör grunnskólakennara. Þetta eru yfirlýsingar sem menn taka vafalaust undir, en menn munu krefja ráðherra svara við því að staðið verði við það. Það þarf að finna nýtt gildismat fyrir þessi störf. Það er sömuleiðis yfirlýsing sem allir eru sammála.

Um frumvarpið sem hér liggur fyrir ætla ég ekki að hafa mjög langa ræðu, herra forseti, en langar að fara aðeins yfir nokkur atriði þess sem hér eru nefnd. Sérstaklega staldrar maður við 2. gr. frumvarpsins þar sem segir að hafi aðilar ekki gert með sér kjarasamning fyrir 15. desember skuli skipa gerðardóm. Ef nauðsyn er talin til að fara þá leið þá heyrist mér að því hafi verið haldið fram af þeim sem ræddu við deiluaðila núna að deilan sé komin í slíkan hnút að það sé ekki nokkur von, þess sé alls ekki að vænta að þeir nái saman á næstu dögum eða vikum, að það sé frekar á hinn veginn að dregið hafi sundur með aðilum, og ef fara á þessa illu leið held ég að stíga eigi skrefið til fulls og gera þetta strax. Dettur mönnum í hug að þegar verkfalli lýkur og menn fara til kennslu, muni það milda t.d. sveitarstjórnarmenn til þess að leysa verkfallið? Það er nánast og reyndar algjörlega útilokað. Þannig að þessi mánuður er ekki til nokkurs hlutar nema til þess að lengja í þeirri snöru sem búið er að setja grunnskólakerfið og kennara landsins í.

Ég velti líka vöngum yfir hvort gerðardómurinn þurfi allan þennan tíma. Ef gripið yrði til þess að skipa hann fyrr lyki hann a.m.k. störfum fyrr en í marslok eftir tæpa fimm mánuði, í marslok 2005. Þá verður líka, eins og hér hefur komið fram, rúmt ár sem kennarar hafa verið án samnings. Samningurinn á að gilda frá 15. desember 2004 sem þýðir að mínu mati að gengið er á rétt annars aðilans miklu fremur en hins. Mér fyndist réttlætismál að öllu þessu ferli yrði flýtt og gildistaka samningsins yrði fyrr en 15. desember. Ég tel að það sé algjör nauðsyn og réttlætismál.

Ég hlýt svo að staldra við 3. gr. þar sem segir að gerðardómurinn eigi að hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði, að því leyti sem við á.

Einnig á hann, með leyfi forseta, að:

„... hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð.“

Við skulum líta á þessi atriði aðeins: „menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð.“ Þá kem ég að einu sem hæstv. menntamálaráðherra ræddi um áðan, um vinnutíma og kjör, þar sem rætt var um einsetinn skóla. Ég man ekki betur en að þegar einsetinn skóli var tekinn upp hafi verið rætt um að nú skertust verulega möguleikar kennara, sem töldu kjör sín slæm fyrir og hafa reyndar lengst af verið, á að vinna sér upp slæm kjör með yfirvinnu vegna þess að skólatíminn væri styttri í einsetnum skólum.

Mér finnst því hæstv. menntamálaráðherra hafa snúið hlutunum algjörlega á hvolf. Sú umræða fór einmitt fram við einsetninguna, að launa þyrfti kennara betur af því að þeir hefðu ekki möguleika eins og lengst af var talið sjálfsagt að kennarar ynnu öll sumarfríin sín til þess að bæta sér upp kjörin á veturna. Það var talið sjálfsagt að þeir ynnu svo og svo mikla yfirvinnu til þess að bæta laun sem voru allt of lág. Þarna hefur því einhverju verið snúið á hvolf.

En ef við lítum betur á þetta: „menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð.“ Hverja er verið að miða við? Einhverja starfsmenn sveitarfélaga? Finnum við einhverja starfsmenn sveitarfélaga aðra en grunnskólakennara sem hafa þetta? Ef það væru einhverjir væru það leikskólakennarar og af því að ýjað hefur verið að kjörum þeirra sérstaklega, að þau ættu að sjálfsögðu — var tónninn — að vera miklu lægri vil ég taka fram að leikskólinn, sem er ekki gömul stofnun á Íslandi, líklega um 30 ára í þeirri mynd sem hann er núna vítt um landið, hefur þróast hvað mest af öllum menntastofnunum í landinu. Mér finnst ekkert óeðlilegt og ég tel það nokkuð rökrétt að leikaskólakennarar muni gera vaxandi kröfur eins og grunnskólakennarar því það eru stöðugt gerðar meiri kröfur til þessara tveggja stétta um meiri hæfni í starfi, um meiri sérhæfingu og meiri ábyrgð eftir því sem þjóðfélagið, eins og fram kom í ræðu áðan, breytist í þá veru að meira og meira af hlutverki heimilanna flyst yfir til þessara stofnana, ekki síður leikskóla en grunnskóla. Mér finnst því ekki að tala eigi niður til þeirrar stéttar frekar en grunnskólakennara í þessum efnum.

Við hljótum að líta svo á að yfirlýsingin nái næst til framhaldsskólakennara. Framhaldsskólakennarar eru einmitt með mjög sambærilega menntun, störf og vinnutíma og ábyrgð að verulegu leyti. En gerðardómurinn á að gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað. Þetta er ekki lítið hlutverk sem honum er ætlað, hann á að sjá um að þjóðfélagið raskist ekki vegna þess að samið er við eina stétt launþega í landinu.

Það hefur mikið verið talað um að ASÍ og fleiri launþegasamtök hafi verið á tánum vegna þess að fylgst verði með því að grunnskólakennarar fái ekki þær réttar-, laga- og kjarabætur sem þeir eiga kost á. Eins og oft hefur komið fram voru árið 1996 kjör framhaldsskólakennara og grunnskólakennara sambærileg. Hvar var ASÍ eða launþegasamtökin — sem ég tel reyndar ósannað að séu með þessi viðhorf — þegar framhaldsskólakennarar náðu kjörum sínum með velvilja og stuðningi ríkisins? Sem ég met mikils að þeir hafi þó metið gildi starfsmanna sinna svo. En það verður ekki undan því vikist að samræma kjör þessara stétta og gera mun betur við kennarastéttina í heild en gert hefur verið undanfarin ár og áratugi.

Mér finnst jákvætt í þessu plaggi að heimilt er beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt allan tímann. Það styður það sem ég sagði áðan, að engin þörf er á að setja gerðardóm með meira en mánaðarfyrirvara fram í tímann vegna þess að hvenær sem er, ef samningsvilji, einhver löngun eða möguleikar skapast hjá deiluaðilum á þeim tíma geta þeir komið samkvæmt ákvæðum plaggsins inn í deiluna og gerðardómur getur pakkað saman og farið heim.

Til hvers að bíða í mánuð? Það er algjörlega fráleitt og ég vona að tekið verði á málinu í nefnd sem er svo sjálfsagt og skýrir sig sjálft í efnisatriðum textans.

Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að setja á langa ræðu en mig langar að ljúka máli mínu með örstuttri hugleiðingu. Ástæðan er sú að það eru rétt rúm 40 ár síðan ég lauk kennaranámi, það var árið 1964. Þá háttaði svo til að fréttir bárust af því rétt um það leyti sem við vorum að útskrifast — reyndar ætluðu mörg okkar að fara í eitthvað allt annað, margir ætluðu að fara á sjóinn þar sem pening væri að hafa — en það bárust fréttir af nýjum samningum, nú væri þetta allt saman að lagast. Það var samið um það leyti, kjörin löguðust eitthvað aðeins en við náðum þessu ekki, eins og ég gat um áðan, með fastakaupinu okkar. Fastakaupið var þess eðlis að það gat enginn lifað á því. Megnið af starfsævi minni hef ég starfað innan skólakerfisins í ýmsum störfum þar og lengst af meðan ég var við kennslu þurfti ég bæði að sinna yfirvinnu og vinna á sumrin til þess að bæta upp tekjur.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvert gildismat þeirrar þjóðar er, sem í þau 40 ár sem ég nefndi og hafði þá um áratugi metið starfið svo að það var meðal allra lægstu launa. Höfum við virkilega ekki komist lengra fram á veginn en þetta að enn, 40 árum síðar og kannski öðrum 40 þar fyrir, er stéttin að berjast fyrir kjörum sínum, fyrir því að fá mannsæmandi laun? Ekki til þess að vera eins og það sem nú ber hæst í íslensku þjóðlífi, ungir menn í viðskiptalífi. Þeir eru ekki á kjörum eins og grunnskólakennarar. Þar erum við að tala um launakjör sem nema milljónum á mánuði. Er þjóðin með það gildismat að hún meti fjármagnið, peningana og umfjöllun um þá meira en það sem ætti að varða framtíð hennar, þ.e. uppfræðslu ungu kynslóðarinnar?