Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 14:38:27 (1429)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:38]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. sagði að ríkið ætti að koma að kjarasamningum. Ríkið kemur að kjarasamningum vegna þess að kjarasamningar hækka skuldbindingar í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ríkið kemur þvílíkt að kjarasamningum að það borgar sennilega meira fyrir kjarasamningana en sveitarfélögin vegna hækkunarinnar. Ríkið mun því væntanlega greiða um 10 milljarða vegna sáttatillögu sáttasemjara sem var felld, miðlunartillögunnar. Þannig kemur ríkið að.

Ég ætlaði að spyrja, frú forseti, hv. þingmann hvort hún væri til í það að ríkið kæmi að deilunni með þeim hætti að það lofaði að borga kennurum mismuninn á 15% sem þeim yrðu veitt og 35% sem þeir krefjast gegn því að þeir kennarar sem það veldu féllu frá sérstökum lífeyrisrétti sínum og nytu lífeyrisréttar eins og annað fólk í þjóðfélaginu, eins og fólk sem er í stéttarfélögum hjá ASÍ og aðrir í þjóðfélaginu (Gripið fram í: Og þingmenn?) þannig að þeir miði við samanburðarhæf kjör.

Frú forseti. Út af þessu frammíkalli vil ég segja að ég hef lagt til í tvígang að þingmenn féllu frá sínum lífeyrisrétti.