Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 14:40:54 (1431)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:40]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er afskaplega ánægður með þetta svar. Hv. þingmaður segir að það sem skipti máli sé það sem fólkið fær útborgað í dag. Ef ríkið kæmi að kjarasamningunum með þeim hætti sem ég hef lagt til, að það greiddi mismuninn á því sem sveitarfélögin hafa boðið 15% og 35% sem kennarar hafa krafist og þurfa að fá, þá væru það launin sem fólkið fengi útborguð í dag. Það væri þá lausn og ég legg til að menn skoði hana í alvöru, að greiða kennurum 35% launahækkun eins og þeir hafa krafist, að ríkið borgi mismuninn á 15% sem sveitarfélögin greiða og 35%, en þeir kennarar sem veldu þetta féllu frá sérstökum lífeyrisrétti og yrðu tryggðir hjá lífeyrissjóði án ábyrgðar ríkissjóðs, t.d. Lífeyrissjóði verkfræðinga.