Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Föstudaginn 12. nóvember 2004, kl. 15:21:13 (1435)


131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[15:21]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Frjálslyndi flokkurinn er alfarið á móti lagasetningu á kjaradeilur. Hún frestar einungis deilunum en leysir þær ekki. Dæmin hafa sannað það ítrekað. Það eru ekki einungis við í Frjálslynda flokknum sem erum á móti lagasetningum á kjaradeilur, m.a. á þessa kjaradeilu. Sömu skoðun má t.d. lesa á mjög góðri heimasíðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur. Í gær ritaði hún pistil þar sem hún lýsti því yfir að hún væri alfarið á móti lagasetningu á þessa deilu. Ég verð að segja að hún rökstuddi það mjög vel. Ég tel að það sem hún færði fram eigi vel heima í þessari umræðu. Það eru alveg fullgild rök. Á heimasíðu hv. þingmanns kemur fram, með leyfi frú forseta:

„Nú er það auðvitað svo að lagasetning er algjört neyðarúrræði. Ég sagði í utandagskrárumræðu í gær að mér hugnist ekki lagasetning, það er rétt. ... Afleiðingar lagasetningar geta orðið mjög slæmar. Kennarar verða óánægðir, segja jafnvel upp störfum og við viljum ekki missa góða kennara. Mórallinn verður ömurlegur og bitnar án efa á nemendum.“

Ég get tekið heils hugar undir þessi orð. Þetta er hættan. Þessu verða stjórnvöld, sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra, að átta sig á því að það er hætta á að missa mjög hæft starfsfólk úr kennslu. Hæstv. menntamálaráðherra hefur gefið mjög villandi yfirlýsingar og furðulegt að manneskja sem gegnir svo mikilli ábyrgðarstöðu skuli með þessum hætti, á viðkvæmum tíma, degi fyrir fyrirhugaða lagasetningu, gefa villandi upplýsingar um kjör kennara í sjónvarpi. Það er fáheyrt að hæstv. menntamálaráðherra skuli ganga þannig fram á svo viðkvæmum tímapunkti.

Áður en lengra er haldið varðandi skólamálin er rétt að fara aðeins yfir stöðu hins samningsaðilans, þ.e. sveitarfélaganna. Sveitarfélögin voru rekin með halla. Staða þeirra er ekki góð. Það er í raun skiljanlegt að þau eigi erfitt með að uppfylla kröfur kennara. Það er deginum ljósara. Það var 2,7 milljarða kr. halli á sveitarfélögunum á síðasta ári. Nú hefur einnig komið fram í ágætri fyrirspurn í þinginu að jafnvel hafi meiri hluti fjármuna sveitarfélaga farið í þennan málaflokk. Allt upp í níu af hverjum tíu krónum sem sveitarfélögin hafa til ráðstöfunar hafa runnið til menntamála eða í grunnskólann. Ríkisstjórnin verður að fara að gera sér grein fyrir því að skoða verður hlut sveitarfélaganna í tekjuskiptingunni.

Það þýðir ekki að segja bara að samið hafi verið um skiptinguna einhvern tímann árið 1996, eða hvenær sem það var. Það hefur ýmislegt breyst frá 1996. Ríkisstjórnin sem nú situr við völd hefur fært auknar skyldur og kvaðir á sömu sveitarfélög en vill síðan ekki láta fylgja fjármuni eða tekjustofna til að uppfylla þessar kvaðir. Við sem störfum á hinu háa Alþingi vitum að þegar fjallað er um lagafrumvörp þá fáum við umsögn frá fjármálaráðuneytinu um hvað viðkomandi lög þýði í útgjöldum fyrir ríkið, fyrir ríkisvaldið. Sömu sögu er ekki að segja um kvaðir á sveitarfélögin vegna laga og reglugerða. Þessu þarf að breyta ef menn ætla að ná utan um fjárútlát hins opinbera. Stundum hentar hæstvirtri ríkisstjórn að horfa aðeins á sinn hluta en varpa ábyrgð og skyldum á sveitarfélögin án þess að þau fái tekjur á móti. Það er náttúrlega óþolandi.

Það hefur ýmislegt breyst frá því sveitarfélögunum voru fengin þessi verkefni. Umfang ráðgjafa- og sérfræðiþjónustu hefur aukist. Það er óumdeilt og auk þess hefur margt breyst í grunnskólunum. Kennsla hefur aukist og þar hefur bæst við rekstur mötuneyta. Við erum ekki endilega að tala um sambærilega hluti þá og nú. Það er eitt af því sem ríkisstjórnin ætti að grein fyrir, skoða tekjuskiptinguna og hvaða tekjur sveitarfélögin þurfa til að leysa þetta verkefni. Rekstur dagvistunar í grunnskólanum og félagsstarf hefur aukist. Þetta verða menn einfaldlega að viðurkenna og fara yfir með opnum hug í staðinn fyrir að neita að horfast í augu við hinar auknu kvaðir og neita að reikna kostnaðinn út. Það er mjög alvarlegt.

Hvað sem því líður ætla ég að taka undir með hv. þm. Pétri Bjarnasyni varðandi það að þetta lagafrumvarp er ákaflega gallað. Það er lágmarkið að af því verði sniðnir ákveðnir gallar í störfum nefndarinnar. Þar á meðal er það sem kemur fram í 2. gr. um að fresta vinnu við gerðardóm, ef það á á annað borð að fara í þessa lagasetningu, til 15. desember. Í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hafi aðilar skv. 1. gr. ekki gert með sér kjarasamning fyrir 15. desember 2004 skal Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm.“

Hann á síðan ekki að ljúka störfum fyrr en 31. mars. Það er náttúrlega með ólíkindum að taka svo langan tíma í það, sérstaklega vegna þess að það er mikill kurr í kennurum varðandi þessa lagasetningu. Í raun tel ég það skólastarfinu mikla nauðsyn að senda jákvæðari skilaboð frá ráðamönnum í garð kennara til að slá á óánægjuraddir í þeirra hópi. Þannig yrði minni hætta á því sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir benti á, að kennarar einfaldlega segi upp. Ég tel eitt af forgangsverkefnum okkar núna að lægja óánægjuraddir kennara og sýna það virkilega að mönnum sé alvara með að vilja bæta kjör þeirra með frumvarpinu.