Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Laugardaginn 13. nóvember 2004, kl. 11:58:56 (1440)


131. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:58]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar sem finna má á þskj. 350.

Minni hlutinn er andvígur frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lög á kjaradeilu kennara og skólastjórnenda. Lagasetning þessi leysir engan vanda, heldur skýtur honum einungis á frest auk þess sem báðir samningsaðilar hafa lýst yfir algjörri andstöðu við þessa lagasetningu. Nái frumvarpið fram að ganga magnast óánægja innan kennarastéttarinnar og kann að leiða til atgervisflótta úr stéttinni. Skólastarf í landinu verður í uppnámi, í meira uppnámi en það hefur verið, virðulegi forseti, enda munu kennarar mæta til starfa í algjörri óvissu um framtíðarkjör sín. Frú forseti. Lagasetning á vinnudeilur getur ekki aðeins alltaf orkað tvímælis, eins og hún vissulega gerir, heldur er þessi lagasetning þess eðlis að því miður mun hún leiða til enn meira uppnáms í málinu en verið hefur.

Framsögumaður meiri hluta minntist hér á tímasetningarnar sem meiri hluti allsherjarnefndar gerir ákveðnar breytingar á. Minni hlutinn telur að tímasetningarnar eins og þær voru upphaflega lagðar fram í frumvarpinu hafi verið óásættanlegar og þá er ég að vísa til skipunar gerðardómsins og þess tíma sem honum er ætlaður til starfa. Við teljum þá breytingu sem meiri hlutinn gerir hvað varðar það að gerðardómnum sé gefinn skemmri tími til að koma til starfa — hann á að taka til starfa 20. nóvember í stað 15. desember — jákvæða og nauðsynlega því að það var algjörlega óásættanlegt að miða við að hann tæki ekki til starfa fyrr en 15. desember.

Síðan gerir meiri hlutinn þá breytingu að ætla gerðardómi mánuði skemmri tími núna en var samkvæmt frumvarpinu. Við teljum reyndar að leggja hefði mátt til enn meiri styttingu á þeim tíma sem gerðardómurinn hefur. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, úr því að þessi leið er farin að þá sé reynt að klára málið á sem skemmstum tíma. Það er auk þess samdóma álit deiluaðila að mun skemmri tími dugi til að komast að því hvort lagasetning hafi yfirleitt breytt samningsgrundvellinum. Þessir aðilar hafa talað saman lengi og það liggur nokkuð ljóst fyrir hvar ágreiningurinn er. Varðandi breytingartillögur meiri hlutans telur minni hlutinn að þessar tillögur séu skref í rétta átt.

Hið sama má líka segja um þá breytingu meiri hlutans að ákvörðun gerðardóms skuli taka gildi við gildistöku laganna. Að okkar mati er nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði þannig því að á þeim tímapunkti eru kennarar sviptir rétti sínum til að leggja niður vinnu sem er annars eina vopn þeirra í kjarabaráttunni.

Ég vil líka taka það fram í þessu sambandi að það er ekkert í frumvarpinu sem bannar gerðardómnum að taka ákvörðun um eingreiðslu til kennara, eins og gert var ráð fyrir í miðlunartillögu ríkissáttasemjara, og við viljum benda á að það yrði óneitanlega til þess fallið að bæta kennurum upp þann tíma sem þeir hafa verið samningslausir.

Af umfjöllun allsherjarnefndar að dæma, eins og skýrt kom fram í máli fulltrúa kennara sem komu á fund nefndarinnar, virðist algjörlega útilokað að viðunandi kjarasamningar geti náðst á grundvelli þeirra forsendna sem gerðardómnum er ætlað að starfa eftir. Þá er ég að vísa til 3. gr. frumvarpsins. Gerðardómnum eru settar mjög þröngar skorður og þær munu ekki auka líkurnar á því að farsæl lausn finnist á þessu erfiða deilumáli.

Minni hlutinn vekur t.d. athygli á því að í forsendum er ekki minnst á markmið um að draga úr launamun kynjanna. Væri ekki eðlilegt, virðulegi forseti, að hafa slíka forsendu í þeirri grein í ljósi þess að 75% kennara í grunnskólum eru konur? Þetta er kvennastétt og þetta er eitt markmið sem þyrfti líka að hafa til hliðsjónar. Þegar farin er sú leið að setja gerðardóm í svona erfiða deilu er náttúrlega mikilvægt að hann taki mið af þeim forsendum sem báðir aðilar hafa lagt fram í kröfum sínum. Síðan er það þá gerðardómsins að reyna að leggja mat á það allt. Þarna er hins vegar verið að setja það miklar skorður að kennarar hafa lýst því yfir að algjörlega sé útilokað að viðunandi niðurstaða finnist fyrir þá á grundvelli þessara forsendna. Það orkar alltaf tvímælis, virðulegi forseti, að nota lagasetningu um þvingaðan gerðardóm í málum eins og þessu. Ef sú leið er samt farin, ef hún er talin nauðsynleg er líka mikilvægt að reyna eftir mætti að draga úr neikvæðum afleiðingum hennar.

Þannig bentu t.d. samtökin Heimili og skóli og Samfok á að lagasetning kæmi til greina en með þeim fyrirvara að reynt væri eftir mætti að draga úr neikvæðum afleiðingum hennar. Samtökin segja það ekki gert með þessu frumvarpi, þau segja forsendur 1. mgr. 3. gr. vera svo stífar að útilokað sé að kennarar geti unað við þær. Þessir aðilar benda á að markmiðið sé ekki bara að börnin komist aftur í skólann heldur þurfi skólastarfið líka að vera innihaldsríkt. Verði frumvarpið að lögum telja þessi samtök afar ólíklegt að sú verði raunin. Af þeim sem komu fyrir allsherjarnefnd voru fáir — satt best að segja bara enginn, held ég — sem töldu líklegt að farsæl lausn næðist á grundvelli þessa frumvarps. Það hlýtur jú að vera markmiðið, virðulegi forseti.

Það er líka mat okkar í minni hlutanum að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á því hve alvarleg staðan er. Hún hefur sjálf gert samninga við framhaldsskólakennara sem fullkomlega eðlilegt er að grunnskólakennarar noti sem viðmiðun. Þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna í ágúst 1996 voru byrjunarlaun kennara þau sömu í framhaldsskólum og grunnskólum. Eftir síðustu samninga ríkisins eru byrjendalaun grunnskólakennara mun lægri og munurinn á heildarlaunum er orðinn verulegur. Þarna kann að vera að skipulagsbreytingar blandist eitthvað inn í, að vinnutími framhaldsskólakennara sé lengri, en eigi að síður er þetta bil orðið gríðarlegt. Ríkisstjórnin hefur skapað þetta viðmið og hún getur ekki vikist undan ábyrgðinni.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin ekki tryggt sveitarfélögunum fullnægjandi tekjustofna til að standa undir þeirri ábyrgð sem Alþingi og ríkisstjórnin hafa lagt þeim á herðar. Í þessu felst ef til vill stærsti hluti ábyrgðar ríkisstjórnarinnar og í því að hafa ekki lokið vinnu tekjuskiptinganefndar ríkis og sveitarfélaga. Til viðbótar hefur ríkisstjórnin gert breytingar á skattalögum sem hafa takmarkað tekjuöflun sveitarfélaganna.

Í þriðja lagi hafa kröfur til grunnskólans breyst verulega frá því að hann var færður til sveitarfélaganna. Grunnskólar eru nú einsetnir og fleiri róttækar og dýrar breytingar hafa verið gerðar á skólastarfi. Sveitarfélögin eiga reyndar lof skilið fyrir að hafa svarað auknum kröfum með því að bæta þjónustuna en allir bera hins vegar samfélagslega ábyrgð á þróun grunnskólans. Í því felst að einnig ríkisvaldið ber ábyrgð á kostnaðaraukanum sem hlýst af auknum gæðum grunnskólans. Þetta kallar á aukinn skilning á sanngjarnri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Tíu árgangar Íslendinga bera skaðann af þessu verkfalli. Hann verður seint að fullu bættur og stjórnvöld hafa engar áætlanir uppi um að bregðast við honum. Það hefur vissulega verið grafalvarlegt ástand í samfélaginu þar sem 45 þús. grunnskólabörn hafa verið án kennslu í tæpa tvo mánuði. Neikvæð áhrif af slíku ástandi geta verið gríðarleg og langvarandi. Hins vegar leysir þetta frumvarp, verði það að lögum, engan vanda, það virðist þvert á móti gera hann enn meiri og deiluna illleysanlegri. Því vísar minni hlutinn allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni í þessu máli og leggst gegn lagasetningunni.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins verður friðarskylda lögð á deiluaðila frá gildistöku laganna og út gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Skv. 1. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir að gerðardómurinn ákveði sjálfur gildistíma ákvarðana sinna. Er komið örlítið inn á þetta atriði í áliti meiri hlutans og var rakið hér af framsögumanni hans. Það að gerðardómurinn ákveði sjálfur gildistíma ákvarðana sinna felur í sér að honum er í raun framselt vald til að ákveða upp á eigin spýtur hve lengi grunnskólakennarar skuli vera sviptir verkfallsrétti. Þetta fyrirkomulag telur minni hlutinn vera óvarlegt enda nýtur verkfallsrétturinn verndar félagafrelsisákvæðis 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og ákvæðis 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Strangar kröfur eru gerðar til lagasetningar sem banna verkföll.

Í dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002, í svokölluðu sjómannamáli sem fjallaði um réttmæti lagasetningar á verkfall sjómanna, komst Hæstiréttur svo að orði um sambærilegt ákvæði í þeim lögum að það svigrúm sem gerðardómnum var gefið þá hefði verið óheppilega mikið. Á það hefur verið bent að við lagasetningu sem þessa sé rétt og það beri að afmarka hóflegan hámarksgildistíma ákvarðana gerðardómsins í lögunum sjálfum. Það telur minni hlutinn að hefði verið réttara að gera.

Í lokamálslið frumvarpsins er gert ráð fyrir að aðilum verði áfram heimilt að semja um breytingar eftir að gerðardómurinn hefur komist að niðurstöðu en þeir megi hins vegar ekki knýja þær fram með vinnustöðvun. Þetta telur minni hlutinn vera óhóflega skerðingu þeirra mannréttinda sem í verkfallsréttinum eru fólgin, sbr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en samningsrétturinn er vissulega lítils virði ef ekki má fylgja honum eftir með verkföllum sem er sú leið sem hefur verið viðurkennd til þess.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það enn og aftur að þessi lagasetning, og eins og hún er sett hér fram, setur þessa viðkvæmu og erfiðu deilu í miklu verri stöðu en hún var. Því miður gerir hún það. Ég hef rakið í áliti mínu á hverju ég byggi og við í minni hlutanum vísum ábyrgð á lagasetningunni og framsetningu hennar algjörlega til ríkisstjórnarinnar. Við erum andvíg henni.

Undir þetta álit skrifa auk mín hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurjón Þórðarson og Guðrún Ögmundsdóttir. Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykk áliti þessu. [Klapp á þingpöllum.]