Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Laugardaginn 13. nóvember 2004, kl. 12:10:02 (1442)


131. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:10]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Frjálslyndi flokkurinn er alfarið á móti lagasetningum á vinnudeilur. Ég sat fundi allsherjarnefndar, á löngum fundum þar sem boðaðir voru gestir og farið vel yfir það lagafrumvarp sem liggur hér til umræðu. Ég verð að segja eins og er að ég tel stóra hættu á því að við séum einungis að skjóta þessari vinnudeilu á frest, að við séum ekki að leysa hana hér og nú. Þess vegna ríður á að unnið sé í framhaldinu að því að koma á sæmilegri sátt í grunnskólunum.

Hjá öllum deiluaðilum sem komu á fundi nefndarinnar kom fram að þeir voru ósáttir við lagasetninguna. Til dæmis kemur það fram í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hún byrjar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í upphafi er rétt að taka það sérstaklega fram að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aldrei óskað eftir því að kjaradeila launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna grunnskólans verði leyst með lagasetningu. Sambandið telur slíkt inngrip í kjaradeiluna afar slæmt og ekki til þess fallið að vera framtíðarlausn á þeim vanda sem upp er kominn.“

Það er íhugunarefni þegar annar viðsemjandinn segir þetta — og við vitum öll hver hugur Kennarasambandsins til þessarar lagasetningar er þannig að allir aðilar málsins eru á einu máli. Meira að segja kemur hér fram í umsögn samninganefndar launanefndar sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Samninganefnd launanefndar sveitarfélaga lýsir því yfir að hún hefur ekki á neinu stigi þessa máls óskað eftir því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga.“

Annað kom fram líka á fundinum. Það var orðið nokkuð ljóst að ef ekki yrði gripið inn í mundi þessi deila að öllum líkindum standa fram yfir áramót. Samt sem áður ber ríkisstjórnin meginábyrgð á deilunni og þá skal fyrst nefna að taka þarf á tekjuskiptingu sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa fengið aukin verkefni, auknar kröfur og skyldur frá ríkinu en ekki hafa fylgt fjármunir í sama mæli. Auðvitað þarf það að fylgjast að, auknir fjármunir og síðan auknar skyldur því að náttúrlega þarf fjármuni til að uppfylla skyldur sveitarfélaganna.

Síðan hefur ekki síst ítrekað komið fram, m.a. í fyrirpspurn hér á þingi, að hjá mörgum litlum sveitarfélögum, fámennum sveitarfélögum, fara allt að níu af hverjum 10 krónum í rekstur grunnskólans. Það má segja að þar sé kominn annar vandi sem þurfi að líta til, það er fjárhagsvandi minni sveitarfélaga. Ég verð að segja að það er ekki einfaldlega nóg að sameina sveitarfélög, heldur þarf að taka á byggðaröskuninni.

Svo má nefna að ýmsar misráðnar yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra hafa verið síst fallnar til að greiða úr deilunni. Enn fremur má segja að komið hafi fram að ríkisstjórnin, þ.e. ríkið, hefur gert betur við þá aðila sem hún hefur samið sérstaklega við, aðila sem eru viðmiðunarhópur grunnskólakennara. Það er náttúrlega ákveðinn vandi í þessu máli.

Ég held samt sem áður að það sé mjög mikilvægt núna að allir flokkar reyni að skapa sátt um grunnskólann, horfa fram á veginn og líta til þess hvernig megi koma á sæmilegri sátt. Flestir flokkar sem hér starfa á Alþingi — við verðum að ræða um hlutina eins og þeir eru — bera ákveðna ábyrgð á ástandinu. Það er ekki einungis ríkisstjórnin. Það verður að segjast eins og er að stjórnarandstaðan, Vinstri grænir og Samfylkingin, er ráðandi afl í sveitarfélögunum sem eru annar viðsemjandinn. Þannig er það í langstærsta sveitarfélaginu, í Reykjavíkurborg, og þess vegna verða þeir að vissu leyti að axla ábyrgð á því hver staðan er.

Ég tel brýnast að horfa til mánudagsins eins og staðan er nú. Nú liggur ljóst fyrir að kennarar verða skyldaðir til að koma til vinnu á mánudaginn og mér finnst brýnt að sveitarfélögin í landinu skjóti á fundi og reyni að koma til móts við reiði kennara vegna þess að þeir eru náttúrlega mjög ósáttir við það eftir langt verkfall að sjá ekki neinar kjarabætur. Það verður bara að horfast í augu við það. Ég tel að sveitarfélögin ættu jafnvel að skjóta á fundi núna í dag eða á morgun og reyna að lægja óánægjuöldur kennara. Mér finnst það mjög mikilvægt ef það markmið laganna að tryggja frið um grunnskólann á að nást.