Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum

Laugardaginn 13. nóvember 2004, kl. 12:38:52 (1447)


131. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:38]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Samfylkingin mótmælir þessari lagasetningu harðlega. Við segjum nei, nei og aftur nei.

Hér er verið að fara með ofbeldi gagnvart kennurum, hér er ríkisstjórnin að reyna að moka sinn eigin flór sem hún sjálf hefur óhreinkað með aðgerðaleysi sínu. Þessi ríkisstjórn hefði getað leyst þetta mál miklu fyrr. Þessi ríkisstjórn hefði getað skapað aðstæður sem hefðu gert sveitarfélögunum kleift að koma með sanngjörnum hætti til móts við kennara. En það var aðgerðaleysi og þyrnirósarsvefn þessarar ríkisstjórnar sem leiddi til þess að sveitarfélögunum var ekki kleift að leysa deiluna. Því lýsum við allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni.

Það var líka ríkisstjórnin og lausatök hennar á hagstjórninni sem leiddi til þess að þegar kennarar stóðu frammi fyrir miðlunartillögu blasti það við þeim að launahækkanirnar sem tillagan hefði fært þeim hefðu étist upp af verðbólguþróuninni. Ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni. Það er þess vegna sem við lýsum ábyrgð á hendur ríkisstjórninni.

Frú forseti. Þessi lög leysa því miður ekki vandann. Það hefur komið fram hjá talsmanni Framsóknarflokksins í menntamálum og hæstv. menntamálaráðherra að það er líklegt að þessi lög kunni að skjóta vandanum á frest, en þau munu leiða til þess að mórallinn í stéttinni hrynur. Við fáum kennarastétt sem er ekki ánægð með kjör sín, við fáum verri skóla. Því er þessi aðferð skaðleg fyrir menntakerfið í landinu.