Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 16:09:06 (1852)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:09]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, með síðari breytingum, frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri, og frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands. Hér eftir ætla ég að nefna þau einfaldlega frumvörpin.

Frumvörp þessi eru lögð fram í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2005 þar sem kynnt eru áform um að hækka skrásetningargjöld í ríkisháskólum úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Er þetta lagt til vegna óska ríkisháskólanna og við það miðað að hækkun skrásetningargjaldanna renni óskipt til þeirra. Ekki er gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta þessarar hækkunar komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum.

Eins og bent er á í greinargerð með frumvörpunum er skráningargjaldi ríkisháskólanna ætlað að mæta tilteknum kostnaði af þjónustu við stúdenta á námstímanum. Hér er einungis um að ræða kostnað ótengdan kennslu og er um skýrt skilgreinda kostnaðarliði að ræða. Mun ég víkja nánar að þeim liðum síðar í ræðu minni.

Það er mikilvægt að taka skýrt fram að með þessari hækkun skrásetningargjalda er ekki verið að fjölga þeim kostnaðarliðum sem falla undir þau gjöld. Einungis er lögð til breyting á fjárhæð gjaldsins í samræmi við hækkun þess kostnaðar sem gjaldinu er ætlað að ná til og síðan er skýrlega kveðið á um til hvaða tímabils fjárhæðin nær.

Í fyrsta sinn er skýrlega gerð grein fyrir þessum kostnaði lið fyrir lið, samanber fylgiskjölin sem fylgja með frumvörpunum og koma frá ríkisskólunum sjálfum, unnin úr bókhaldi þeirra.

Í greinargerð þess frumvarps sem varð að lögum 29/1996, um breyting á lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, og geymdi ákvæði um fjárhæð skráningargjaldsins eins og við þekkjum það í dag kom fram að umboðsmaður Alþingis taldi á þeim tíma að þágildandi gjaldtökuheimild hefði verið of þröng þar sem líta yrði á skrásetningargjaldið sem þjónustugjald sem yrði að eiga sér beina stoð í lögum. Óheimilt væri að taka hærra þjónustugjald en almennt næmi kostnaði við að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í gjaldtökuheimildinni í umræddu tilviki, skrásetningu, hugtakið skrásetningargjald væri of þröngt til að fella mætti undir það ýmsa kostnaðarliði sem mæta þyrfti í rekstri háskólans en grundvallarþýðingu hefði að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir yrðu undir skrásetningargjaldið þegar metið væri hversu hátt þetta þjónustugjald mætti vera. Skrásetningargjaldið væri bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og stæði undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar mætti sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum væri veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildarskrifstofa, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjafar, bókasafns, aðgang að tölvum og prenturum háskólans.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3805/2003 sem varðaði gjaldtöku vegna inntökuprófa í læknadeild Háskóla Íslands er bent á að af gildandi lögum um Háskóla Íslands eða lögskýringargögnum verði ekki ráðið að skráningargjaldið lúti beinlínis sömu lögmálum og þjónustugjald. Þannig komi fram í athugasemdum við frumvarpið er varð að lögum nr. 41/1999 að gjaldið komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Eins og áður er áréttað er gjaldið bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og á að standa undir hluta kostnaðar við háskólastarfið og gerð er grein fyrir þeim þjónustuþáttum sem skráningargjaldinu er ætlað að ná til og ég var búin að nefna. Bendir umboðsmaður á að löggjafinn hafi ákveðið að nemendur greiði við skráningu til náms sérstakt gjald sem sæti breytingum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Í fylgiskjali I með frumvarpi þessu er að finna yfirlit frá Háskóla Íslands yfir þá þjónustu sem gjaldinu er ætlað að ná til.

Sambærilegt fylgiskjal fylgir frumvörpunum um Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.

Ég tel, hæstv. forseti, að með þessu sé gerð grein fyrir kostnaðinum með afar skýrum hætti og forsendum hans.

Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpanna er ákvæði gildandi laga um skrásetningargjaldið skýrt að því marki að ljóst er til hverra það nær og fjárhæðin er einnig ljós. Bent er á að þegar fjárhæð gjalds er fastákveðin með þessum hætti og gjaldskylda er að öðru leyti skýr sé að öðru jöfnu ekki ástæða til að gera greinarmun á því hvort um skatt eða þjónustugjald er að ræða. Á móti kemur að gera verður kröfu til þess að skýrar komi fram í lögunum sjálfum hversu oft gjaldið er kræft og á hvaða tímabilum, þar sem lögin heimila sérstakt álag á gjaldið utan auglýstra skrásetningartímabila.

Því gerir 1. gr. frumvarpsins ráð fyrir því að skýrt verði kveðið á um það í 3. mgr. 13. gr. laganna að skrásetningargjaldið nái til heils skólaárs. Skólaárið er frá 1. júlí til jafnlengdar næsta árs og skiptist í tvö kennslumissiri, haustmissiri frá 20. ágúst til 21. desember og vormissiri frá 7. janúar til 15. maí sem hefst í ágúst og lýkur í júní. Það leiðir til þess að hefji nemendur nám á vormissiri greiða þeir einungis helming skrásetningargjaldsins. Er þetta gert með sambærilegum hætti í frumvörpunum um breytingu á lögum um Háskólann á Akureyri og KHÍ.

Varðandi gildistökuákvæði er lagt til að þessi frumvörp, verði þau að lögum, öðlist gildi 1. janúar 2005 í samræmi við gildistökudag fjárlaga fyrir árið 2005.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir efni þessara frumvarpa um háskólana. Ég legg til að frumvörpunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntamálanefndar og 2. umr.