Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 16:15:57 (1853)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:15]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hér er ekki um neitt annað en feluleik að ræða. Það er verið að fela að leggja eigi á skólagjöld. Mér finnst réttara að menn komi til dyranna eins og þeir eru klæddir og segi frá því hvað verið er að gera. Hér er verið að leggja á skólagjöld. Allur rökstuðningur með gjaldtökunni er á mjög hæpnum forsendum. Það kemur fram hér að skráning stúdenta í námskeið sé 20% af einhverjum kostnaði. Hvers vegna 20%? Hvers vegna ekki 25%? Hvernig stendur á því að allar tölurnar eru í kringum 45 þús. kr.? Það er verið er að setja á skólagjöld og ekkert annað og menn eiga bara að tala um hlutina eins og þeir eru og hætta þessu rugli.

Ég er alveg hissa á því að Framsóknarflokkurinn, sem hefur komið fram í kosningum og sagt að ekki eigi að leggja á skólagjöld í ríkisreknum háskólum, skuli standa að þessu frumvarpi, því þeir ganga þvert gegn yfirlýstri stefnu sinni. Það er með ólíkindum að verið sé að bjóða upp á slíka umræðu hér.

Svona má lengi telja þegar lesið er í gegnum kostnaðarliðina. Það kom hér fram að það sé skýrt hvernig þetta er reiknað út. Ég get ekki séð það. Það er alls ekki skýrt hvernig þessi kostnaður er fundinn út. Hér segir: Aðgangur að tölvum – önnur gjöld reiknuð 50% af almennum rekstri Reiknistofnunar. Ég veit ekki hvers vegna þau eru 50%. Hvers vegna ekki 60%? Það kemur ekkert fram í þessari greinargerð. Það er með ólíkindum að verið sé að bjóða upp á þessa umræðu og sérstaklega af Framsóknarflokknum. Það væri áhugavert að fá að heyra hér hvað fulltrúa flokksins, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, finnst um frumvarpið.