Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 17:54:40 (1870)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:54]

Þórarinn E. Sveinsson (F):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að koma upp og fá að bera blak af mönnum mínum sem ekki eru í salnum. Það er eitt sem varaþingmaður þarf að læra mjög fljótt, að vera ekki í salnum en fylgjast samt með umræðunni. Ég held að ég geti fullvissað áhyggjufulla þingmenn um að bæði hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem eins og fram hefur komið eru ekki á staðnum, fylgjast með umræðunni og munu koma að henni á eftir sem hingað til ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins.

Ég held að ég taki það bara sem hrós að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon — sem gengur einmitt í salinn núna — hefur tvisvar sinnum ekki tekið eftir því þegar ég hef verið í salnum. Ég hélt að það færi meira fyrir mér en það og get fullvissað hann um að allan þann tíma sem hann talaði sátu hér vel á annað hundrað kíló af framsóknarmönnum í salnum og fylgdust með ræðu hans. Alla vega var nógu mikið magn af framsóknarmönnum í salnum, þó hann ásamt fleiri þingmönnum léti ræðurnar um skólamálin snúast mest um fjarveru framsóknarmanna. Það er ágætt, til þess eru breiðu bökin að bera umræðuna og ef menn vilja láta umræðuna snúast um fjarveru okkar framsóknarmanna er það bara ágætt. En nóg um það, ég nenni ekki að svara því meira.

Ég tel að hér sé til umræðu breyting á eldri lögum, framreikningur á innritunargjöldum eða skráningargjöldum en alls ekki umræða um skólagjöld, þó ég geti vel skilið að menn segi að þetta sé grátt svæði og viti ekki hvar mörkin liggja, þau eru óskýr og eðlilegt að menn velti því fyrir sér. En núna erum við eingöngu að tala um framreikning á innritunargjöldum. Hér er lagt fram ágætlega rökstutt mál og ég skil ekki orð sumra þingmanna sem fallið hafa í salnum um hversu illa þetta sé unnið. Ég hef unnið t.d. í Háskólanum á Akureyri og er með ágætisháskólanám á bakinu og ég ætla alla vega ekki að taka þátt í því að gerast einhver „besservisser“ hér og tala um hvað útreikningurinn sé asnalega unninn. Menn geta verið ósammála honum, það er allt annað, en mér er ekki sæmandi að tala um slæleg vinnubrögð og að illa sé að málum staðið í því sem skólarnir skila frá sér. Menn geta verið ósammála, það er allt í lagi, en vissulega er rökstuðningur fyrir útreikningunum. Hér er verið að ræða um skráningargjöld og ég get fullvissað menn um að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur afgreitt málið sem slíkt.

Umræðan um skólagjöld er svo allt önnur umræða og þannig séð ánægjulegt að sú umræða er komin inn í þingsali. Sú umræða er á fleygiferð í samfélaginu og ég þakka ágætum hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að lesa upp úr stefnuskrá framsóknarmanna og umræðum á síðasta flokksþingi þar sem hann vitnaði í grein hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þar var umræða um skólagjöld, hvernig og hvort við eigum að standa að skólamálunum í landinu.

Það vita allir að eitt af grundvallarsjónarmiðum Framsóknarflokksins er að standa vörð um skólakerfið og heilbrigðiskerfið. Það á að vera jafnræði og jafnt aðgengi fyrir alla að báðum kerfunum, það vita allir. Þess vegna er þetta raunar útúrsnúningur í umræðunni.

Ef verið væri að ræða skólagjöld sneri málið öðruvísi við. Ég reikna með því og vona að sú umræða fari fram í öllum þingflokkum og í hv. menntamálanefnd. Ég held að nauðsynlegt sé að taka þá umræðu vegna þess að skólarnir, eins og svo margt annað á síðustu árum, hafa verið á fleygiferð, í mikilli þróun og örri sókn. Nýir námsmöguleikar hafa komið til, bæði á einkaskólastigi og á ríkisskólastiginu. Það er fullt af námi og fullt af þekkingu sem við getum aflað okkur dagsdaglega án þess að ríkisskólarnir komi að því. Menn fara á alls konar námskeið, þess vegna dagsnámskeið, sem þeir borga miklu hærri gjöld fyrir en innritunargjöldin sem hér eru til umræðu.

Þessi umræða er mjög nauðsynleg og þetta er, eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, nákvæmlega angi af stærra máli, miklu stærra máli. Ég er alveg sammála honum í því að menntun er mannréttindi og á að vera jöfn fyrir alla. Hins vegar erum við að mennta fólk úti um allt samfélag á mjög mismunandi hátt, og það er ekki víst að þar sé alls staðar jafnræði. Tökum t.d. heilbrigðiskerfið. Við erum með mjög gott heilbrigðiskerfi, og mjög dýrt. Við erum með mikinn kostnað inni í því sem hlýst af því að mennta fólkið okkar. Mikil kennsla fer fram inni í heilbrigðiskerfinu. Er það heilbrigðiskostnaður eða er það menntunarkostnaður?

Við getum tekið fullt af sérnámi sem er mjög dýrt. Þar ríkir ekki jafnrétti til náms. Ríkir t.d. jafnrétti til að læra flug? Er það jafnrétti? Margt svona sérnám kostar og það borgar einstaklingurinn. Mér finnst alveg hægt að ræða það og er tilbúinn að gera það í mínum þingflokki, hvort sem mér endist varamannsaldur til þar eða ekki, en annars í mínum kreðsum sem og annars staðar í samfélaginu. Ég er alveg tilbúinn að ræða það hvort taka eigi upp einhvers konar gjald fyrir framhaldsnám á efri háskólastigum. Ég er ekki alveg viss um að við eigum að horfa upp á samfélag þar sem allt nám endar í master eða doktor. Ég er ekki viss um að við eigum að hvetja alla til að fara í það. Mjög margir þeirra sem eru að fara í masters- og doktorsnám núna eru einstaklingar sem eru búnir að vera einhver ár í vinnu úti í samfélaginu. Það eru menn sem hafa unnið í 5, 10, 15 ár eða meira, fara í endurmenntun og taka þá masterinn ofan á námið sitt, gamla námið sitt. Mér finnst alveg mega ljá því sjónarmiði umræðu og ég get alveg haft þá skoðun að það sé nám sem eigi að horfa allt öðruvísi á en grunnnámið.

Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir hvað hann las vel upp úr flokkssamþykktum Framsóknar frá síðasta þingi. Það er alveg hárrétt eins og frem kemur í greininni eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þessu var hafnað á síðasta flokksþingi en það er nýtt flokksþing í vor og í millitíðinni hefur heilmikið gerst í skólamálum. Sem betur fer hefur það oftar en ekki verið þannig að við þurfum að laga okkur að breyttu landi og breyttu umhverfi. Hver hefði t.d. getað spáð því fyrir örfáum árum að fjármálastofnanir Íslands færu í þá útrás sem þær hafa farið í? Eða hver hefði getað spáð því að einstök fyrirtæki sem hafa upphaf sitt í verslun á Íslandi gætu farið í þá gífurlegu útrás sem raun ber vitni?

Að mörgu leyti hefði á sama hátt enginn getað spáð því fyrir örfáum árum að skólarnir mundu þróast á þann hátt sem þeir hafa gert, eiga að gera og munu gera. Ég tel það bara til tekna fyrir Framsóknarflokkinn að taka þessi mál upp á flokksþingi í hvert einasta skipti og vera tilbúinn að skipta um skoðun. Það er engin skömm að því að skipta um skoðun ef það er gert að undangenginni umræðu. Nú er ég ekkert að segja að það verði. Ég er alls ekki að segja að það verði. Þetta var umræðan á síðasta þingi og þetta er það sem út af fyrir sig stendur, enda eru menn ekki að tala um skólagjöld heldur innritunargjöld.

Ég tek undir að það hefur verið aðalsmerki okkar framsóknarmanna og Framsóknarflokksins að standa vörð um jafnrétti til skólanáms og allt annað er raunar útúrsnúningur af hálfu hv. þingmanna. Ef þeim finnst þetta gaman — það er svolítið skondið, þetta eru ágætar ræður og gaman að hlusta á þá — getum við framsóknarmenn alveg tekið á móti því, ef þeir njóta þess vel. Ég get fullvissað hv. þm. Kristján L. Möller um að við munum mæta honum af fullum þunga í fótboltavörninni á þessum nótum þegar þar að kemur. Ég ítreka að hér er umræðan um innritunargjöld, ekki skólagjöld, en það er mjög gott að menn taki þá umræðu (Gripið fram í: Allir í vörninni?) þegar þar að kemur. Við þurfum að byggja þetta upp frá vörninni.