Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 18:09:35 (1877)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber það mikla virðingu fyrir framsóknarmönnum að ég held að þeir hljóti að hafa vitað hvað þeir voru að samþykkja á flokksþingi sínu. Ég árétta að ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa einhverja minnstu hugmynd um það hvenær þetta gjald verður það hátt að það breytist í skólagjöld. Það gefur augaleið. Framsóknarmenn hljóta að gera þær kröfur til sjálfra sín að samþykktir þeirra séu það gagnsæjar að það fólk sem les þær hafi einhverja minnstu hugmynd um það hvort innritunargjaldið sé 40 þús. kr. — er það 100 þús. kr., er það 500 þús.? Hvenær verður sá skurðarpunktur að mati framsóknarmanna að gjaldið breytist í skólagjöld? Þetta er kjarni málsins.

Það er alveg sama hvað hv. þm. endurtekur það oft að hann líti á þetta sem innritunargjald. Spurningin stendur eftir: Hvenær áttu framsóknarmenn við það að skólagjöld væru orðin skólagjöld? Er það 30 þús., 50 þús., 100 þús., 500 þús.? Gefðu okkur einhverja hugmynd, virðulegur þingmaður. Það væri gott að lifa með því.