Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 18:50:01 (1892)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:50]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, umræðan var um margt ágæt í dag og upplýsandi og kannski frekar afhjúpandi. Hún afhjúpaði mjög rækilega blekkingarleikinn sem hæstv. ráðherra er í. Hér stendur ekki steinn yfir steini. Hér er einfaldlega verið að innheimta skólagjöld á nemendur í grunnnámi í ríkisháskólunum. Engu skiptir heimatilbúin skilgreining og tilbúin á árum fyrri um það hvort kennsla eða annar rekstur háskólanna flokkist undir skráningargjöld eða skólagjöld. Hér er um hrein og klár skólagjöld að ræða, og þau er verið að hækka um 40%.

Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra í lok umræðunnar: Ætlar hún að beita sér fyrir því að lánað verði fyrir gjöldunum? Hvar liggja mörkin á milli hreinna skólagjalda og einhverra gjalda sem hún kallar skráningargjöld eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom inn á? Hver bað um hækkunina, hvaða stofnanir ríkisháskólanna þriggja báðu um hækkunina? Það hefur hvergi komið fram og þess sér til að mynda hvergi stað í bókunum háskólaráðs og háskólafundar.