Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 18:51:08 (1893)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:51]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var á einum af samráðsfundum mínum með háskólayfirvöldum, háskólarektor við Háskóla Íslands, sem þessi beiðni kom fram skýrt og klárt að fá að hækka innritunargjöldin úr 32.500 í 45.000 kr. út af því að við höfum þetta fyrirkomulag.

Við erum með tvenns konar samninga við Háskóla Íslands. Ég vona að menn fari nú að skilja þetta, einu sinni í lok umræðunnar. Hér erum við með kennslusamning annars vegar og síðan rannsóknarsamning hins vegar. Það er heimild í lögum sem m.a. hv. þingmenn gamla Alþýðuflokksins komu að, að koma á skráningargjöldum á sínum tíma í krónutölu. Þá gat hann samþykkt skráningargjöldin, Alþýðuflokkurinn gamli. Þá samþykkti hann þetta fyrirkomulag sem við byggjum á enn þann dag í dag. Síðan fagna þeir ekki sérstaklega að við erum að draga fram kostnaðinn til að sýna svart á hvítu hver hann raunverulega er en vera ekki með slumpháttinn.