Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 18:53:28 (1895)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:53]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers konar vanvirðing er þetta af hálfu hv. þingmanna gagnvart yfirvöldum háskólanna hér á landi? Það er alveg skýrt og klárt að þeir fóru fram á þetta, ríkisháskólarnir, (MÁ: Hverjir?) (Gripið fram í.) og það ekki út af einhverju út í loftið heldur út af því að þeir vilja fá þann kostnað til baka sem þeir leggja út fyrir vegna innritunarinnar, vegna skráningarinnar, en ekki þurfa að taka hann af þeim fjármunum sem koma til þeirra samkvæmt kennslu- og rannsóknarsamningi.

Þess vegna segi ég enn og aftur: Það á að vera fagnaðarefni að við erum að draga fram sérstaklega þennan kostnað sem hefur verið 32.500 kr. fram til þessa og er hækkaður núna upp í 45.000 að beiðni skólanna, að beiðni til að mynda háskólarektors Háskóla Íslands, hækka gjaldið upp í þessa fjárhæð til að mæta aukinni þjónustu, auknum kostnaði vegna skráningarinnar inn í háskólana.