Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 18:58:43 (1900)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:58]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að einn hv. þingmaður hefði af vana hoggið nærri sjálfseignarstofnunum. Ég tók þessi orð hæstv. ráðherra til mín og ég ætla bara að leiðrétta það ef þau hafa verið mér ætluð.

Ég hef aldrei gagnrýnt sjálfseignarstofnanirnar út frá öðru en því að hæstv. ráðherra má ekki í skólapólitík sinni láta ríkisháskólana gjalda fyrir flóruna í sjálfstæðu háskólunum. Það er það sem ekki má gerast. Það verður að standa vörð um þjóðarskólann, það verður að standa vörð um opinberu háskólana svo að þeir þurfi ekki að borga fyrir aukin tækifæri háskólanema í vinsælum greinum. Hæstv. ráðherra verður að gera sér grein fyrir því að sjálfseignarstofnanirnar eru eingöngu í vinsælu greinunum, í lögfræðinni, í viðskiptagreinunum. Þeir eru ekki í guðfræðinni, íslenskunni, félagsvísindunum almennt, þannig að ég vísa því bara til föðurhúsanna að ég sé eitthvað að höggva í sjálfseignarstofnanirnar.