Háskóli Íslands

Mánudaginn 22. nóvember 2004, kl. 19:03:12 (1904)


131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:03]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætlaði upphaflega í andsvar við hæstv. menntamálaráðherra en sá fram á að fá ekki nema mínútu til þess og hef aðeins lengra mál þannig að ég notfæri mér því rétt minn til síðari ræðu hér.

Ég ætla ekki að fara aftur yfir allt málið heldur bregðast aðeins við því sem ráðherrann sagði hér, aðallega í andsvörum sínum en líka í ræðunni sem var að vísu að mestu um annað en þau frumvörp sem hér eru flutt.

Í fyrsta lagi er það sérstaklega sá þáttur málsins sem snertir fylgiskjölin um þann kostnað sem um er að ræða, þennan tiltekna kostnað sem ráðherrann hefur rætt nokkuð um. Ráðherrann hefur nú gumað af því og beðið um sérstakar þakkir fyrir að hafa dregið fram kostnaðinn, eins og komist var að orði, að hafa fengið hann á hreint, eins og komist var að orði, að hafa látið sýna hver hann raunverulega er, eins og komist var að orði, og að það sjáist að hann endurspeglar eftir fremsta megni raunkostnaðinn.

Þetta eru afar merkileg ummæli hjá hæstv. ráðherra vegna þess að eins og rakið hefur verið komast háskólarnir af einhverjum dularfullum ástæðum að mjög svipaðri niðurstöðu. Munurinn á útkomunni hjá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands eru þrjú þúsund tvöhundruð og eitthvað krónur á þessum tiltekna kostnaði og þó er um að ræða skóla sem eru gjörólíkir að stærð og umfangi og mætti ætla fyrir fram að ef um væri að ræða einhvern tiltekinn kostnað að þá sé talan ólík. Ef um væri að ræða þjónustugjöld, sem ekki hefur fengist svar við hér nema frá hv. þm. Þórarni Sveinssyni sem er ákaflega heiðarlegur í málflutningi sínum og hefur talað hér um hófleg innritunargjöld, þ.e. ekki þjónustugjöld heldur skatt — ef um væri að ræða þjónustugjöld þá væri eðlilegt að nemandinn greiddi mismunandi upphæð eftir nákvæmum útreikningum sem fram kæmu frá hverjum skóla um sig.

Mig langar að nefna — auðvitað væri hægt að lesa þetta upp allt saman og athuga af hverju þetta er ekki eins, af hverju minnst er á þessa skrifstofu á þessum stað og hina skrifstofuna á hinum staðnum, hvernig stendur á því, eins og rakið var áðan, að Háskóli Íslands mun í frumskjali sínu hafa reiknað út kostnað fyrir þjónustu sem ekki hefur verið af hendi reidd, reiknað sér gjöld af því sem hann hefur aldrei gert neitt í, en því mun hafa verið breytt, hvort sem það er af völdum háskólans eða af völdum hæstv. menntamálaráðherra eða skrifstofu hennar, menntamálaráðuneytinu — mig langar bara að tæpa hér á einum hlut í þessum útreikningum sem eiga að sýna eins og ég sagði áðan, með leyfi forseta, hver kostnaðurinn raunverulega er sem á að endurspegla eftir fremsta megni raunkostnaðinn og það er þetta:

Í fylgiskjalinu frá Kennaraháskólanum er niðurstöðutalan 45.181 kr. sem kostnaður á nemanda. Sá kostnaður er á verðlagi ársins 2004.

Í Háskólanum á Akureyri er hins vegar reiknaður út kostnaður á nemanda eftir verðlagi ársins 2004 og sá kostnaður er 44.648 kr. Síðan nær það af einhverjum ástæðum sennilega ekki nógu hátt, nær ekki þeim 45 þús. kr. sem um er að ræða, og þess vegna er reiknuð á hann 3% verðlagshækkun þannig að kostnaður Háskólans á Akureyri verður, bravó, allt í einu meira en 45 þús. kr. eða 45.987 kr.

Í Háskóla Íslands, Universitas Islandiae, sem leggur fram fylgiskjal I með frumvarpi um sjálfan sig hér, er hins vegar farið þannig að að heildargjöld í þúsundum króna 2003 eru reiknuð 42.317, en síðan er komist að því að gjaldið 2005 sé 48.494. Þarna er því hækkað um eitthvað töluvert mikið meira en 3% jafnvel þó að við reiknuðum með 3% frá 2003–2004 og 3% hækkun frá 2004–2005.

Þetta litla dæmi um verðlagsútreikningana sýnir auðvitað alveg ágætlega um hvers konar pappíra er hér að ræða. Auðvitað hlýtur sá grunur að læðast að hverjum manni sem þetta sér og um þetta fjallar að skipunin hafi verið — hvernig sem hún kom fram, í kaffispjalli við háskólarektorinn eða einhvers konar öðru spjalli einhverra undirmanna — að nú ætti gjaldið sem sé að vera 45 þús. kr. eða sem næst því a.m.k. og útreikningarnir ættu ekki að vera lægri.

Þetta er ekki háskólunum til virðingar, eins og ég rakti áðan og stend fullkomlega við, og heldur ekki menntamálaráðuneytinu til sæmdar eða skrifstofu hæstv. menntamálaráðherra að haga sér svona, þannig að þegar menntamálaráðherra telur að þetta endurspegli eftir fremsta megni raunkostnaðinn þá er ekki hægt að taka þau orð, að hún hafi dregið fram kostnaðinn og fengið hann á hreint, sýnt hver hann raunverulega er, öðruvísi en sem óráðstal hæstv. ráðherra, vegna þess að svo augljóst er það af fylgiskjölunum að hér er verið að reikna upp í upphæð sem búið var að finna út fyrir fram. Þess vegna sagði ég áðan að það er ekki akademískt að fá niðurstöðuna fyrst og leiða síðan rök að niðurstöðunni, heldur á niðurstaðan að fást út af rökleiðslunni sjálfri. Því eru þetta pappírar sem ekki er hægt að taka mark á, forseti góður.

Ég vil svo segja í lokin að mér þótti illa svarað merkilegri spurningu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um lánshæfið vegna þess að þessi 140 millj. kr. skattur á háskólanema, sem þetta er og engin leið er í raun og veru að neita, er ekki aðeins þannig að mönnum sé þá gert sem hann greiða að vinna meira fyrir honum, eins og okkur hinum þegar hækkaðir eru á okkur skattar með einhverjum hætti, heldur getur hér verið um að ræða hreina kjaraskerðingu vegna þeirra reglna lánasjóðsins sem gera ráð fyrir því að lán dragist frá mönnum við ákveðið tekjumark. Þannig að fyrir suma af þeim sem þurfa að taka þátt í þessum 140 millj. kr. skattgreiðslum til stofnana sem hæstv. menntamálaráðherra ræður er um að ræða beina kjaraskerðingu. Þetta gæti menntmálaráðherra raunar lagað, hún var nú að flytja frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gæti hugsanlega beitt áhrifum sínum í menntamálanefnd til að bæta því við að hér væri sem sé um lánshæft gjald að ræða eða þá að leyfður væri hreinn frádráttur á tekjum aðeins vegna þessa gjalds. En hæstv. menntamálaráðherra kaus að svara hv. þingmanni með almennri ræðu um lánasjóðinnn og sem betur fer er margt hægt að ræða í ræðustól Alþingis því annars mundi hæstv. menntamálaráðherra lenda í hreinum vandræðum hér í andsvörum og beinum spurningum.

Þetta vildi ég segja til þess að það sé alveg á hreinu hvað við er átt, sérstaklega um þau fylgiskjöl sem ráðherra telur endurspegla eftir fremsta megni raunkostnaðinn. Þau orð sín hefði hún kannski átt að láta eiga sig hér, svo augljóst er það að þau eru ekki raunveruleg meining ráðherrans.