Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 13:57:15 (1915)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:57]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er það algjörlega ljóst að hátekjuskattslækkunin er ekki í þessu frumvarpi en hún er partur af stefnu ríkisstjórnarinnar og framkvæmd hennar í skattamálum. Ég hef margsagt það í þessum ræðustól að ég tel miklu meiri þörf á að laga til í skattkerfinu fyrir þá sem lægri hafa tekjurnar, þá sem eru niðri á 100 þús. kr., niðri á 150 þús. kr., á bótunum, ellilífeyrisþega, öryrkja, atvinnuleysingja, en að lækka skatt á fólki sem er með tekjur yfir 450 þús. kr. hjá einstaklingi og 900 þús. kr. hjá hjónum. Það eru hins vegar áherslur ríkisstjórnarinnar. Svo kemur þessi útfærsla til viðbótar sem gefur í krónutölu milljón krónu manninum tífalt meira í skattalækkun en lágtekjumanninum. Þetta eru útfærslurnar sem verið er að boða á næsta ári.

Í þessu frumvarpi felst hins vegar lagfæring að ýmsu leyti sem kemur til framkvæmda á árunum 2006 og 2007 og ég mun ræða hér síðar í dag, t.d. barnabætur og fleira, og ég tek auðvitað undir varðandi barnabæturnar.

En þessi tekjuskattsbreyting er hvorki til þess að jafna kjörin í landinu né hafa jákvæð áhrif á það hvernig mál þróast hér á vinnumarkaði á næstu mánuðum.