Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 14:52:06 (1928)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:52]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er skiljanlegt að ég sé æstur því að ég hef sjaldan séð eins fallegt frumvarp, það kemur manni í uppnám og maður náttúrlega æsist yfir því. (Gripið fram í: Æsist yfir því.)

Varðandi niðurskurðinn þá hefur ríkissjóður verið rekinn með afgangi og hann er rekinn með afgangi þrátt fyrir þessar skattalækkanir. Mér þætti gaman að sjá upplitið á hagfræðisérfræðingunum þegar hv. þingmaður lýsir því yfir að lækkun á virðisaukaskatti sé þensluletjandi. Það verður nú aldeilis gaman að sjá það.

Hv. þingmaður talar um tekjujöfnun. Ég lít aldrei þannig á að fólk sé fætt fátækt eða verði fátækt alla tíð. Ég vil nefnilega breyta því og ég vil að þeir sem eru fátækir geti orðið ríkir, geti aukið tekjur sínar og þetta frumvarp stuðlar að því að brjóta niður múra fátæktargildranna.