Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 14:53:05 (1929)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:53]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur hingað og reynir að snúa út úr eins og hann getur. Ég sagði að því er varðaði þensluletjandi þátt lækkunar matarskatts að það væri staðreynd að tillögur okkar munu, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar, leiða til þess að neysluvísitala lækkar um 0,8% sem væri sá þáttur í þeim tillögum sem væri a.m.k. þensluletjandi.

Ég heyri alla leið hingað að hv. þingmaður hristir höfuðið en þetta er samt sem áður þannig, herra forseti. Þetta er bara útreiknað.

Ég er þeirrar skoðunar, ólíkt hv. þingmanni, að skattkerfið eigi að nota til jöfnunar. Það hefur margsinnis komið fram í þessum umræðum eða alla vega í þessum sölum frá hv. þingmanni að hann er ekki þeirrar skoðunar. En ég og helmingur Sjálfstæðisflokksins er þeirrar skoðunar að nota eigi skattkerfisbreytingar til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Ég veit að hv. þingmaður er ekki þeirrar skoðunar. Þetta er samt sem áður grundvöllur þeirrar sannfæringar sem ég starfa eftir í stjórnmálum. Ég er, ólíkt hv. þingmanni, jafnaðarmaður.