Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 14:56:38 (1932)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:56]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 1. þingmaður Reykv. n. gat þess ekki að í þessari landsfundarályktun var það tekið fram sem fyrsta atriði að stefna bæri að lækkun tekjuskatts einstaklinga í áföngum sem er akkúrat kjarninn í frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Annað atriði sem kemur fram í þessu frumvarpi er að styðja betur við barnafjölskyldur með auknum barnabótum og áhrif þessara aðgerða stuðla að því að lækka jaðarskatta, nákvæmlega eins og sett var fram í þeirri landsfundarályktun sem lá til grundvallar kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar.

Það er rétt að Samfylkingin fylgdi okkur sjálfstæðismönnum á eftir í því að tala um virðisaukaskattinn fyrir síðustu kosningar þó að því væri neitað harðlega í fyrri hluta kosningabaráttunnar. Samfylkingin fór út um víðan völl reyndar í þessari umræðu og fór m.a. út í það að tala um fjölþrepaskattkerfi í tekjuskattskerfinu sem síðan varð ekki úthald í að halda alveg fram á kjördag. Menn svona reifuðu þá hugmynd í kringum páska en bökkuðu viku seinna þannig að það er nú lítil staðfesta í þessum flokki að manni sýnist.