Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 15:02:45 (1937)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:02]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er sómi og heiður að því að rökræða barnabætur við hv. þingmenn Framsóknarflokksins.

Ef ég leyfi mér þann munað að láta hugann reika kemur upp í hann orðið barnakort. Hvað varð um barnakort Framsóknarflokksins? Ja, það er von að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kjósi að vera niðursokkin í að lesa blöð. Ég man eftir öllum ræðunum sem hv. þm. flutti hér um barnakort.

Annar frasi kemur upp í hugann: Ótekjutengdar barnabætur með öllum börnum til 16 ára aldurs. Hvaða flokkur var það sem setti fram þessi hugtök og þessi lykilorð í pólitískri umræðu um barnabætur? (Gripið fram í: Er ekki búið að innleiða …?) Framsóknarflokkurinn, segir hv. þingmaður.

Enn þann dag í dag bíða íslenskar barnafjölskyldur eftir barnakortunum og eftir því að ótekjutengdar barnabætur fylgi öllum börnum til 16 ára aldurs, eins og var lofað hjá þeim flokki sem hafði fólkið í fyrirrúmi.