Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 15:44:32 (1939)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:44]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat um það í fyrra andsvari við annan hv. þm. að ég hefði verið spurður að því af hverju stjórnarandstaðan þyrfti endilega að vera á móti öllum góðum málum. Ég skildi það ekki gagnvart hv. þm. Samfylkingarinnar en ég skil það vel gagnvart hv. þm. Vinstri grænna vegna þess að þeir eru bara á móti skattalækkunum. Þeir líta á það sem gjafir þegar ríkið rífur minna af tekjum fólks í skatta, það eru gjafir til fólksins þegar minnka á það sem ríkið rífur frá skattborgurunum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji virkilega að ríkið eigi tekjur manna og hvort hann vilji stuðla að því að það sé sífellt tekið meira og meira af fólki í skatta þannig að hvatinn til að vinna og hvatinn til að hafa hærri tekjur hverfi.