Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 15:45:32 (1940)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum ekki endilega alltaf á móti skattalækkunum. Það er misskilningur, en auðvitað mega menn halda því fram mín vegna. Við gerum hins vegar greinarmun á því hvernig þær skattbreytingar eru. Við höfum lagt skattstefnu okkar fyrir og ég tel að menn geti ekki fundið mikil dæmi þess að við séum ekki sjálfum okkur samkvæm þar. Ég leyfi mér að bjóða hv. þm. og öðrum upp á að fara í gegnum málflutning okkar alveg frá því flokkurinn sem ég tala fyrir var stofnaður, í gegnum alla síðustu kosningabaráttu og það sem við segjum í dag. Ég held að það sé fullt samræmi þar. Við höfum aldrei farið í neina launkofa með það að ef við viljum halda uppi öflugu samábyrgu velferðarkerfi og búa vel að þeim sem þurfa á stuðningi samfélagsins að halda þarf til þess tekjur.

Varðandi orðanotkun getum við svo sem skemmt okkur við að ræða það. Ég talaði um jólagjafir vegna þess að þetta væri að koma til framkvæmda um áramótin og átti þar sérstaklega við hátekjuskattinn.