Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 15:51:17 (1945)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:51]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sannarlega að reyna að koma í veg fyrir að samneyslan aukist sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er hin pólitíska stefna okkar. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum barist gegn hátekjuskattinum vegna þess að hann er letjandi skattur. Verið er að hegna þeim sem vilja vinna mikið og þéna mikið. Þess vegna höfum við barist gegn honum alla tíð og erum þess vegna að sjá fyrir endann á því á næstu árum að hann hverfi. Það er opinber stefna okkar og opinber vilji. Við berjumst fyrir því í skattamálum að stefna okkar fái framgang.

Það er engin ástæða fyrir því að taka uppsveifluna og koma þar með á útgjöldum í staðinn. Reynsla allra er sú að ef við pössum ekki í uppsveiflunni að tekjurnar verði of miklar verða útgjöldin jafnmikil og þá standa menn í vandræðum hvenær sem sveiflan kemur niður. Þetta er hin ömurlega útkoma sem allar Evrópuþjóðir hafa lent í hvað eftir annað. Við erum að koma í veg fyrir þetta með skattbreytingunum.