Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 16:22:27 (1956)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:22]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höldum áfarm að ræða þetta gleðilega frumvarp sem er tímamótafrumvarp að mínu mati og virkilega ánægjulegt. En eins og fyrri daginn er stjórnarandstaðan enn á móti þessu góða máli af einhverjum furðulegum ástæðum.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sem eitt sinn var í forsvari fyrir stéttarfélag sjómanna og barðist fyrir því að þeir fengju laun í samræmi við vinnuframlag sitt því þeir lögðu hart að sér, hvort það geti verið að hann sé á móti því að lækka tekjuskatt á þetta fólk, að hann sé á móti því að fella niður eignarskatt á maka, ekkjur, hvort það geti verið að hann sé á móti því að lækka tekjuskatt á sjómenn á Vestfjörðum, verkafólk í frystihúsum og verkstjóra sem eru að vinna og leggja hart að sér við að afla meiri tekna.

Svo var mjög undarlegt, frú forseti, sem hv. þingmaður sagði: „Hátekjumaðurinn fær miklu fleiri krónur í sinn vasa.“ Bíddu, á ekki hátekjumaðurinn tekjurnar sínar? Þykist hv. þingmaður eiga tekjur hátekjumannsins og finnst honum að hann sé að mjatla einhverjum fleiri krónum í vasa hans? Er komin virkilega sú hugsun í gang hjá stjórnarandstöðunni að ríkið eigi tekjur fólks? Það hefur líka komið hérna fram áður að verið sé að færa mönnum gjafir, að verið sé að færa mönnum gjafir, þeirra eigin tekjur. Getur þetta verið?