Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 16:28:41 (1960)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:28]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Eitt af því sem skiptir miklu máli í sérhverju þjóðfélagi er að mikil staðfesta ríki í skattstefnu, að skattstefnan til lengri tíma litið sé örugg og að almenningur geti treyst því hvernig skattar verði innheimtir til lengri tíma litið.

Ég tel að umræðan sem hér hefur farið fram í dag sé á margan hátt mjög athyglisverð. Ég er nú búinn að fylgjast með umræðu um skattamál á Alþingi í um 30 ár og hef verið að reyna að rifja það upp í huganum hvort samhljómur sé í málflutningi stjórnarandstöðunnar í dag og þeirra fjármálaráðherra sem hafa setið fyrir þessa sömu flokka eða a.m.k. forvera núverandi flokka í skattamálum.

Það er ekkert óskaplega langt síðan staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp, 1988. Fyrir þann tíma voru margir frádráttarliðir í skattkerfinu og mikill einhugur ríkti í íslenskum stjórnmálum um að hreinsa þá út og stórlækka skattprósentuna og einfalda skattkerfið. Menn komu sér saman um skattprósentu sem rann til ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, rétt um 35% og mikil áhersla var lögð á að skattprósentan yrði ekki hærri. Vegna hvers var lögð áhersla á það? Vegna þess að menn vildu hafa skattkerfi sem hvetti til atvinnuþátttöku, væri þess valdandi að það væri eftirsóknarvert að vinna og afla tekna og menn vildu líka setja skattkerfi sem væri það einfalt og skattprósentan ekki það há, að skattsvik yrðu sem minnst.

Stjórnarandstaðan hefur afskaplega lítið talað um það í dag hvort ekki sé ástæða til að reyna að draga úr skattsvikum. Ég minnist þess samt að stundum hafi verið talað mikið um það og það liggur ljóst fyrir, og hefur verið svo jafnlengi sem skattkerfi hefur verið notað, að eftir því sem skattprósentan er lægri þeim mun minna verður um skattsvik, minni tilhneiging til þeirra. Mjög há skattprósenta verður til þess að auka skattsvik.

Það hefur líka verið talað mikið um hátekjuskatt og ég vil minna hv. þingmenn á að þessi skattur var á sínum tíma tekinn upp sem sérstakur tímabundinn skattur. Hann var tekinn upp þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var í ríkisstjórn 1993 og það var í fyrsta skipti sem slíkur hátekjuskattur var tekinn upp. Hann var aldrei nefndur eftir því, ef ég man rétt, af fjármálaráðherra Alþýðuflokksins á sínum tíma eða fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins. Hann var tekinn upp í samstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks vegna mikils samdráttar sem þá var í þjóðfélaginu en lögð var áhersla á að hann væri tímabundinn og að leggja ætti hann niður strax og efnahagsástandið leyfði. Í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var hann síðan hækkaður í 7%, og nú höfum við tekið ákvörðun um að fella hann út í samræmi við upprunalegar ákvarðanir í þessum málum. Nú halda menn því fram að hér sé verið að taka alveg sérstakar ákvarðanir um að hygla hátekjufólki. Það var einfaldlega ekki gert ráð fyrir þessum skatti í staðgreiðslukerfinu enda er hann eftir á greiddur. Það var gert ráð fyrir að staðgreiðslukerfið væri einfalt, gegnsætt með einni prósentu og nú erum við að taka ákvörðun sem á margan hátt lá fyrir þegar þessi skattur var tekinn upp, að hann væri tímabundinn og ætti að hverfa úr íslensku skattkerfi, m.a. til að auka atvinnuþátttöku og draga úr skattsvikum. Og þá ekki síður til að minnka þann mun sem er á milli tekjuskatts einstaklinga og tekjuskatts fyrirtækja.

Aðalatriðið í þessu máli er að nú er möguleiki á því að lækka skatta, möguleiki sem við höfum ekki séð í þeim mæli sem við sjáum nú. Vegna hvers skyldi það vera? Vegna þess að staða efnahagsmála hér á landi er mjög traust hvað svo sem stjórnarandstaðan segir. Hagvöxtur er mun meiri en annars staðar, atvinnuleysi miklu minna, kaupmáttur heimilanna hefur aukist meira hér á landi en þekkist á nokkru öðru byggðu bóli eða um 40% frá 1995. Samkvæmt öllum spám um efnahagsmál sjáum við fram á að í lok kjörtímabilsins, 2007, muni hann hafa aukist um 55% á 12 ára tímabili.

Afkoma hins opinbera og einkum afkoma ríkisins hefur verið betri en víðast hvar annars staðar í Vestur-Evrópu. Við erum ekki að glíma við þann gífurlega halla á ríkissjóði sem ýmsar þjóðir í kringum okkur eru að glíma við. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað úr 35% af landsframleiðslu 1995 í 19% samkvæmt áætlun fyrir árið 2004 og 17% fyrir árið 2005, eða um helming á þessu tímabili. Allt þetta ber vott um trausta stjórn efnahagsmála enda hafa ýmsir erlendir aðilar, bæði matsfyrirtæki og alþjóðlegar efnahagsstofnanir, keppst um að gefa hagstjórn hér á landi og íslensku efnahagslífi góða einkunn upp á síðkastið.

Það er mjög mikilvægt að hér komi skýrt fram, eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, en mér finnst stjórnarandstaðan ekki vilja viðurkenna að svo sé, að ábyrg og traust efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar undanfarin ár og þá ekki síst styrk staða ríkissjóðs, eru alger lykilatriði í því svigrúmi sem hefur skapast til að lækka skatta á heimilunum í landinu án þess að stofna efnahagsstöðugleikanum í hættu. Áherslur ríkisstjórnarinnar, bæði í fjárlagafrumvarpinu og í langtímaáætlun í ríkisfjármálum, gera fyrst og fremst ráð fyrir því að mikið aðhald verði í opinberum framkvæmdum — af því að hér hefur mikið verið rætt um aðhald. Auðvitað þarf alltaf aðhald og mun alltaf þurfa svo lengi sem við lifum, bæði í heimilisrekstri, rekstri sveitarfélaga og í rekstri ríkisins.

Nú eru nokkrir hv. þingmenn, og þá sérstaklega hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, farnir að breyta orðinu aðhald í niðurskurð. Það er farið að kalla allt niðurskurð í þessu landi. Ef þarf að veita eitthvert aðhald eða ekki er hægt að uppfylla einhverjar beiðnir eða óskir þá er það kallaður niðurskurður. Það hefur t.d. komið skýrt fram að verið er að veita meira fjármagn bæði til heilbrigðismála og menntamála. Samt er stjórnarandstaðan alltaf að tala um niðurskurð á Alþingi. Það er afskaplega sjaldgæft að úr munni stjórnarandstöðunnar komi að fjármagn sé veitt í nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í: Barnabætur.) Í barnabæturnar. Mér heyrðist hv. þingmaður segja áðan að verið væri að skila til baka hluta af einhverjum 10 milljörðum, sem hann hafði reiknað út væntanlega samkvæmt opnu bókhaldi sem er mjög vinsælt í þeim flokki, en ég botna að vísu ekki í, að verið væri að skila hluta af ránsfeng. Eru skattar fyrri ára ránsfengur, hv. þingmenn? Það er afskaplega undarlegt hvernig stjórnarandstaðan umgengst umræður um skattamál, að kalla skatta ránsfeng. Ég hélt fyrst þegar ég heyrði hv. þingmann tala um þetta að hann væri að tala um skattsvikarana í landinu og loksins hefði athygli hans beinst að þeim, en svo var ekki. Hann var að tala um eðlilega skatta ríkisins.

Þessi stefnumörkun, að beina athyglinni að því að draga mest úr opinberum framkvæmdum, er í algeru samræmi við ábendingar bæði innlendra og erlendra hagfræðinga, bæði frá OECD og frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hafa sérstaklega mælt með slíkum framkvæmdum, að draga úr opinberum framkvæmdum til að hamla gegn þensluáhrifum stóriðjuframkvæmdanna. Það liggur hins vegar fyrir að áfram er gert ráð fyrir auknum útgjöldum, eins og ég sagði áðan, til að halda uppi almennri og umfangsmikilli þjónustu bæði á sviði velferðar- og menntamála. Og það er engin ástæða til að ræða hér að lækkun skatta muni sérstaklega leiða til skertrar félagslegrar þjónustu en auðvitað þarf að vera þar aðhald. Hvenær hefur ekki þurft að hafa aðhald í ríkisrekstrinum? (Gripið fram í.) Þetta vita hv. þingmenn og er alveg furðulegt að þeir skuli ræða þessi mál með þessum hætti.

Lykilorðið í þessu öllu er vissulega að ríkisstjórnin undir forustu hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt sér fyrir aðhaldi, nauðsynlegu aðhaldi og með því hefur tekist að efla velferðarþjónustuna hér á landi. Að hætta þessu aðhaldi væri besta leiðin til að skerða þjónustuna til langframa, af því að við vitum að útgjöldin hafa ávallt tilhneigingu til að aðlagast tekjunum, ekki bara hjá ríkissjóði heldur hjá heimilum, fyrirtækjum og alls staðar. Þess vegna er útgjaldastjórnun meginatriði í heilbrigðum búskap hvort sem það er í búskap ríkisins eða annars staðar.

Það hafa margir rætt það, bæði í þessari umræðu og í aðdraganda hennar undanfarna daga, að tímasetning þessara aðgerða sé sérstaklega slæm og hún gæti stuðlað að aukinni þenslu og verðbólgu á tímum mikillar stóriðjuuppbyggingar.

Hér hefur m.a. verið nefnt að viðskiptahallinn sé mikill og skattalækkanir muni kynda undir hann. Að mínu mati gætir hér grundvallarmisskilnings á stöðu efnahagsmála og áhrifa stóriðjuframkvæmdanna. Allar efnahagsspár gera ráð fyrir að viðskiptahallinn muni snarlækka um leið og framkvæmdunum lýkur og verði á árinu 2008 komin niður í rúmlega 4% á landsframleiðslu og lætur nærri að það sé það sem stundum hefur verið kallað jafnvægishalli þjóðarbúsins undanfarna hálfa öld. (SJS: Meinarðu að það sé í lagi?) Það er það sem einkum stafar af erlendum fjárfestingum og tilheyrandi uppbyggingu í kjölfarið. Við erum ung þjóð og höfum þurft að byggja hratt upp og erum enn að byggja upp ýmislegt sem þjóðir í kringum okkar hafa gert fyrir löngu. Það er ekkert nýtt að við höfum þurft að taka mikið af lánum til að skapa möguleika fyrir atvinnu og verðmætasköpun í landinu, byggja upp atvinnufyrirtæki, samgöngur, menntakerfi og auðvitað höfum við ekki, þessi unga þjóð, getað gert þetta allt saman án þess að taka lán. En það er líka mikilvægt að hafa í huga að skuldasöfnun þjóðarbúsins að undanförnu stafar alfarið af aukinni skuldasöfnun fyrirtækja og heimila. Ríkið hefur hins vegar verið að borga niður skuldir í stórum stíl. Fyrirtækin sem hafa verið að safna skuldum eiga hins vegar miklar eignir á móti. Sum þessara fyrirtækja hafa fjárfest mikið erlendis, verið í svokallaðri útrás.

Það er rétt að skuldir heimilanna hafa vaxið. Eignir heimilanna hafa líka verið að aukast. Það er orðið auðveldara fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð og koma þaki yfir höfuðið, þannig að á móti skuldum heimilanna standa líka eignir. Þetta er ekki allt saman neikvætt og ómögulegt, eins og stjórnarandstaðan heldur fram. Er það ekki jákvætt að ungt fólk geti eignast íbúðarhúsnæði? Er það neikvætt?

Ríkisstjórnin hefur við undirbúning þessara aðgerða leitast við að taka mið af margvíslegum sjónarmiðum, bæði innlendra aðila og erlendra. Þannig er gert ráð fyrir að meginþungi þessarar skattalækkunar komi fram á árinu 2007 þegar stóriðjuframkvæmdunum er að mestu lokið, eins og við sjáum þær fyrir í dag. Sú staðreynd kemur í veg fyrir niðursveiflu í efnahagslífinu á þeim tíma og tryggir áframhaldandi kaupmáttaraukningu almennings. Þetta er besta leiðin til að koma kaupmáttaraukningunni til skila. Ég hef heyrt hv. þm. Steingrím J. Sigfússon halda því fram að það sé alveg skelfilegt að koma kaupmáttaraukningu til skila með þessum hætti. Hann hefur hins vegar hvatt til þess að launahækkanir verði mjög miklar og umfram getu þjóðarbúsins. Það er undarlegur málflutningur þegar hann hefur hvatt til þess að allir fari að dæmi þess sem hefur t.d. gerst hjá kennurum þannig að launahækkanir verði sem mestar í landinu, hvað svo sem líður efnahagsástandi. Er eitthvert samræmi í þeim málflutningi? Þetta stendur allt saman á haus.

Sú leið að koma kaupmáttaraukningunni til skila með þessum hætti er einnig í samræmi við ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD. (Gripið fram í.) Í þessu samhengi er enn fremur rétt að benda á að þessar aðgerðir eru kynntar með mjög góðum fyrirvara. Það er ekki neikvætt, heldur jákvætt í efnahagslegu tilliti. Það skapar meira öryggi og vissu um efnahagsþróunina sem fram undan er og stuðlar þannig að stöðugleika. Um þetta eru allir hagfræðingar sammála, líka hagfræðingar Seðlabankans, hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar í skattamálum er afskaplega mótsagnakenndur svo ekki sé meira sagt. Því er annars vegar haldið fram, og ég hef hlustað á það í þessari umræðu, að þetta geti valdið þenslu en samtímis er því haldið fram að heppilegra hefði verið að verja þessum sömu fjárhæðum til þess að auka kaupmátt lægstlaunuðu stéttanna. Gott og vel. En málflutningurinn stenst ekki. Þensluáhrifin eru auðvitað þau sömu, hvort sem um er að ræða lækkað skatthlutfall eða hækkun persónuafsláttar, svo framarlega sem sömu fjárhæðir eru á ferðinni. Hið sama gildir að sjálfsögðu um lækkun virðisaukaskatts af matvælum. (SJS: Það eru aðrir hópar sem fá …) Þetta liggur náttúrlega alveg augljóslega fyrir, hv. þingmaður.

Aðalatriðið er kannski það að óhætt er að fullyrða að þessar aðgerðir eru tekjujafnandi þegar á heildina er litið. Það kemur fram í útreikningum sem byggja á skattframtölum ársins 2003. Þannig hækka skattleysismörk um ríflega 20%, úr 71 þús. kr. í 86 þús. kr. Ég vil minna hv. þm. Össur Skarphéðinsson á það — hann var að rifja það upp sem hann sagði í kosningabaráttunni sem var að vísu (Gripið fram í.) mjög mismunandi, hvað hann sagði. Einn daginn átti að taka upp fjölþrepaskattkerfi (Gripið fram í: Nei, nei.) en undir lokin var þetta farið aðeins að skýrast — að hann skrifar, hv. þingmaður, þann 12. apríl 2003 að það verði fyrsta verk Samfylkingarinnar eftir kosningar að leggja fram frumvarp um tafarlausa hækkun á skattleysismörkum, fyrsta verk. Það var ekki fyrsta verkið að heimsækja Bush og segja upp stuðningi í sambandi við Írak, heldur fyrsta verk, tafarlaust, að hækka skattleysismörk. Og um hvað? 10 þús. kr. sem hefði þá kostað 10 milljarða, tafarlaust, 10 milljarða. Nú segir hv. þm. að hann sé alveg hættur við þetta, þetta hafi verið svona, ja, kannski ekki rétt af honum að segja þetta, enda hafi hann ekki séð efnahagsástandið fyrir og nú sé komin miklu meiri þensla og þess vegna gangi þetta ekki upp. Var sem sagt ekkert að marka það sem hv. þm. sagði í aðdraganda kosninganna? Að vísu kemur ekki fram hvernig átti að hækka skattleysismörkin. Nú er verið að hækka þau, að vísu ekki fyrr en 2007, ekki tafarlaust, en um 15 þús. kr. Það er miklu hægar farið í sakirnar (Gripið fram í: Þú klúðraðir …) en það finnst hv. þingmanni alveg ómögulegt. Það er ekki nóg með að hann hafi breytt frá fjölþrepaskattkerfi yfir í það að hækka skattleysismörk rétt fyrir kosningar, núna eftir kosningarnar segir hann að það hafi allt verið tóm vitleysa sem hann sagði rétt fyrir kosningarnar. Hvort það var stefna númer tvö eða þrjú veit ég ekki en a.m.k. er þetta svona.

Í frumvarpinu liggur alveg fyrir að mikil hækkun barnabóta kemur öllum barnafjölskyldum til góða. Það hafa flestir viðurkennt í þessari umræðu, og mest hinum tekjulægri. Það hafa þingmenn líka viðurkennt. Þá liggur fyrir að afnám eignarskatts kemur sér mjög vel fyrir eldra fólk og ellilífeyrisþega. Það vill svo til að sextugir og eldri greiða u.þ.b. helminginn af eignarskattinum í landinu, kannski liðlega það, sem segir okkur að eignarskatturinn leggst fyrst og fremst á þá sem eiga íbúðarhúsnæði tiltölulega skuldlaust. Eignarskatturinn leggst af mun meiri þunga á þá hópa í skattkerfinu sem hafa tiltölulega litlar tekjur sem er algerlega á skjön við það sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram. Ég vænti þess að þeir geti kynnt sér það betur þegar málið kemur til umfjöllunar í nefnd.

Hér hefur komið vel fram með ýmsum dæmum hvaða áhrif þetta frumvarp hefur á ráðstöfunartekjur almennings. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Það liggur alveg ljóst fyrir að það hefur mest áhrif á barnafólk og ég tek eftir því að í stefnu Samfylkingarinnar, sem ég þarf að lesa með gleraugum svo að ég fari rétt með, letrið er svo smátt, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Annars vegar hyggst Samfylkingin minnka skattbyrði og draga verulega úr jaðarskerðingum hjá millitekjufólki, sérstaklega barnafólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið.“

Þetta er ein besta setning sem ég hef séð í kosningastefnuskrá enda er ég innilega sammála henni. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega þetta sem við erum að gera. Það vill bara svo til að ef sérstaklega á að ná til millitekjufólks verður það ekki gert eingöngu í gegnum persónuafsláttinn. Það verður að gera það líka í gegnum skattprósentuna. Þess vegna förum við þá leið að lækka skattprósentuna og hækka persónuafsláttinn. Annars náum við ekki til millitekjufólksins. Það er einmitt verið að draga úr jaðaráhrifunum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir í þessari sömu grein í Morgunblaðinu sem var prýðileg, með leyfi forseta:

„Rauði þráðurinn í okkar stefnu er að draga úr tekjutengingum.“

Það er það sem verið er að gera, draga úr tekjutengingum í sambandi við barnabæturnar sem voru ansi miklar. Með þriðja barni var tekjutenging og skerðing 18%, samkvæmt þessu frumvarpi komin niður í 8%, og skerðingin var síðan 4% með hverju barni þar fyrir ofan. (SJS: Hverjir tekjutengdu barnabætur að fullu á Íslandi?) Ja, það er sjálfsagt að upplýsa það, hv. þingmaður. Tekjutengdar barnabætur voru teknar upp fyrir löngu. Þær voru teknar upp um leið og staðgreiðslukerfið. Ég man ekki betur en að hv. þingmaður styddi það. Ég man ekki betur en að hann væri þá einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnar, a.m.k. mjög fljótlega upp úr því. Ég man ekki eftir því að í þeirri ríkisstjórn hafi t.d. nokkurn tíma verið talað um hátekjuskatt sem mér heyrist vera orðinn algerlega heilagur í munni hv. þingmanns. Það kom upp tekjuskerðing varðandi barnabæturnar strax í upphafi staðgreiðslukerfisins. Síðan hafa verið haldnar margar lærðar ræður á Alþingi um að draga úr jaðaráhrifum. Hvað þýðir það að draga úr jaðaráhrifum? Þýðir það ekki að draga úr tekjutengingum og mætti jafnvel orða það þannig að minnka jöfnuð? Hvað ætli hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem á eftir að tala hér á eftir hafi haldið margar ræður um það að draga úr jaðaráhrifum? Ég man eftir mjög mörgum ræðum frá henni um það mál. Ég hef líka hlustað á margar ræður, bæði frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og öðrum, um að auka jöfnuð. Það vill bara svo til að eftir því sem við göngum lengra í þessum efnum drögum við úr atvinnuþátttöku fólks og aukum möguleika á skattsvikum. Þess vegna hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að ganga til baka í þeim efnum og við höfum verið að gera það, enda höfum við í vaxandi mæli áttað okkur á því að það er ekki nóg að taka eingöngu tillit til tekna fólks heldur til greiðslubyrði. Það vill svo til að unga fólkið sem er að kaupa íbúðarhúsnæði notar milli 10 og 20% af tekjum sínum til að borga af húsnæðislánum. Þetta sama fólk notar 4,75% af tekjum sínum til að borga af námslánum. Ef við ætlum að létta greiðslubyrði þessa fólks sem hefur þessa miklu greiðslubyrði af þessum orsökum verðum við að ná til þess og þar með að ná til millitekjufólksins. Það eru einmitt þær leiðir sem eru farnar í þessu frumvarpi, alveg í samræmi við það sem skrifað var í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir kosningar, en nú hefur þetta allt saman breyst, því miður.

Virðulegur forseti. Að lokum út af barnabótunum. Barnabætur hafa verið hækkaðar um 4,5 milljarða kr. frá árinu 2000, sem er tvöföldun. Útreikningar um skerðingu út og suður standast ekki. Sérhver ákvörðun um hækkun barnabóta er að sjálfsögðu hækkun þeirra með sama hætti og sérhver ákvörðun um hækkun persónuafsláttar er ákvörðun um skattalækkun. Ég bið háttvirta þingmenn að minnast þess að það er ekkert sjálfkrafa verðbreytingakerfi í skattkerfinu. Það á ekki aðeins við um Ísland heldur um löndin allt í kringum okkur.

Stjórnarandstaðan hefur tekið upp á því að reikna þetta allt út frá landsframleiðslu einn daginn, launavísitölu hinn daginn og verðlagi þriðja daginn. Þetta er ekki svona. (Gripið fram í.) Það kemur að vísu alltaf mismunandi enda notist þið aldrei við sama kerfið eða sömu tölurnar í málflutningi ykkar.

Sannleikurinn að því er varðar barnabæturnar er að árið 1994 voru skerðingarmörk aðeins 570 þús. kr. vegna tekna fyrir einstætt foreldri. Þá var 18% skerðing vegna þriðja barns sem nú er verið að leggja til að færa í 8% og skerðingarmörkin eru 1.116 þús. kr., sem er tvöfalt hærra en árið 1994. Svo geta menn leikið sér að því að reikna þetta út samkvæmt landsframleiðslu, verðlagi o.s.frv.

Aðalatriðið er að ef núverandi stjórnarandstaða hefði verið í ríkisstjórn og haft með forustu landsins að gera þá hefði aldrei orðið slík aukning landsframleiðslu. Ég ætla ekki að rekja það frekar en auðvitað liggur ljóst fyrir að ein meginástæðan er aukin umsvif í atvinnulífinu, þá sérstaklega virkjana- og stóriðjuframkvæmdir, sem hafa orðið þess valdandi að verðmætasköpunin hefur vaxið jafnmikið og raun ber vitni og er ein sú allra mesta og sennilega sú mesta sem þekkist meðal vestrænna þjóða á síðustu áratugum.