Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 17:03:27 (1961)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:03]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gleðiefni að við Íslendingar höfum svigrúm til að lækka skattbyrði almennings. Um það er ekki deilt heldur um hve mikið er skynsamlegt að lækka skatta og hvernig. Samfylkingin hefur lagt áherslu á að helminga virðisaukaskatt á matvöru. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn einnig gert. Það er þess vegna ljóst að á Alþingi er bullandi meiri hluti fyrir því að lækka skatta á matvöru um helming. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvers vegna Framsóknarflokkurinn stendur þversum gegn því að lækka skatta á matvörum, sem kemur öllum til góða og lækkar vísitöluna um 0,8%, sem væri ákaflega mikilvægt innlegg nú þegar verðbólgu- og þensluhættan er hve mest.

Hvers vegna leggst Framsóknarflokkurinn gegn lækkun á matarskatti? Hvers vegna beitir hann sér fyrir skattaaðgerðum sem skila þeim fjórðungi skattgreiðenda sem hæstar hafa tekjur og mestar eignir helmingnum af öllu því sem endurútdeilt er í þessum aðgerðum? Hvers vegna beitir Framsóknarflokkurinn sér fyrir slíkum ójafnaðaraðgerðum en lætur íslenska neytendur halda áfram að búa við eitthvert hæsta matvöruverð í Evrópu?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að hann fer fyrir efnahagsmálum þjóðarinnar, hvort hann setji enga fyrirvara við frumvarp þetta, hvort það séu engir fyrirvarar við skattalækkanirnar með hliðsjón af efnahagsþróuninni, t.d. þannig að þær verði að endurskoða ef menn haldi ekki verðbólgumarkmiðin sem þeir hafa sett sér. Hvað ef verðbólgan fer af stað á næstu missirum? Koma þá þessar ákvarðanir til endurskoðunar, hæstv. forsætisráðherra?

Að síðustu, fyrst að svo mikið er til af peningum í ríkissjóði, er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann þá ætli að koma til skila þeim 500 millj. kr. (Forseti hringir.) sem hann hefur svikið Öryrkjabandalag Íslands um í þeim samningi sem hann sjálfur persónulega, með hæstv. heilbrigðisráðherra, gerði við Öryrkjabandalagið skömmu fyrir síðustu kosningar.