Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 17:58:52 (1971)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í umræðunni hvað Samfylkingin vill setja í forgang og þá hugsar hún sérstaklega til lágtekjuhópanna og meðaltekjuhópanna. Samfylkingin vill fara þá leið að lækka virðisaukaskatt um helming. Við teljum að það skili sér best til allra heimila í landinu.

Þetta hefur líka mjög jákvæð áhrif á neysluvísitöluna, lækkar hana um 0,8%, og veitir ekki af í þeirri spennu sem ríkir í þjóðfélaginu og hættu á verðbólgu.

Við viljum líka, eins og ég margítrekaði í máli mínu, hækka barnabæturnar strax. Það kemur sér langbest fyrir barnafólkið og þá erum við að hugsa um barnafólk t.d. í námi, fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið, þetta er allt fólk með meðaltekjur. Við teljum að það eigi að vera í forgangi að fara þessar leiðir.

Við teljum að það eigi ekki að vera í forgangi að lækka tekjuskattinn og varðandi fjölþrepaskattkerfið er ég ekki að tala fyrir því. En mér finnst menn ýta því mjög skarpt út af borðinu og vilja ekki einu sinni horfa til þess hvað það mundi þýða að taka upp lægri skattprósentu fyrir fólk með lágar tekjur. Alþýðusamband Íslands hefur talað mjög fyrir því máli og ég man ekki betur en það hafi verið sett í síðustu kjarasamninga, einnig af hálfu ríkisvaldsins, að sú leið yrði skoðuð, fjölþrepaskattkerfið með ASÍ. Ég hefði gjarnan viljað sjá þá útreikninga og hvernig það kemur út fyrir einstaka tekjuhópa áður en ég segi: Nei, aldrei að taka upp fjölþrepaskattkerfið. En það er ekki í neinum forgangi hjá mér og ég tala ekki fyrir því. Ég vil horfa á staðreyndir í málinu og hverju það skilar fyrir tekjulægstu hópanna sem þarf sannarlega að fara að skoða.