Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 18:09:09 (1977)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert hissa á málflutningi hv. þingmanns. Svona talar hann alltaf þegar hann kemst í ræðustól. Hann talar fyrir þá efnameiri í þjóðfélaginu en ekki fyrir fólk með lágar tekjur og meðaltekjur. Það er alveg sama hvaða mál er á ferðinni, alltaf sami málflutningurinn.

Þessi leið sem þingmaðurinn er að fara núna ásamt Sjálfstæðisflokknum og öðrum stjórnarliðum er auðvitað til háborinnar skammar. Það hefur verið dregið fram að milljón króna maðurinn mun fá (PHB: Og konan.) — milljón króna maðurinn og konan — með 1 millj. kr. í tekjur á mánuði, munu fá 980 þús. kr. skattalækkun úr þessu öllu saman. Það er gjöf hv. þm. Péturs Blöndals til efnafólksins, 980 þús. kr. í skattalækkun.

En hvað ætlar hann að gefa konunni, sem hann segist hafa áhyggjur af, sem er með lág laun? Hann ætlar að gefa henni 1.000–2.000 kr. í skattalækkun á mánuði. Þeir einstaklingar, láglaunafólkið í þjóðfélaginu, hafa nánast það sama í árstekjur, um 1.200 þús. kr., og hátekjumaðurinn með milljón á mánuði fær í skattalækkun hjá þessari ríkisstjórn, um 980 þús. kr. Þetta er öll sanngirnin og ég segi við fólkið, sem er kannski að hlusta á okkur: Er ekki kominn tími til að þessi ríkisstjórn fari frá?

Það er ekki einu sinni svo að hv. þingmaður geti lagst í vörn fyrir heimilin sem eru komin í skuldir og basl, m.a. vegna þess hvernig þið hafið farið með lífeyrisþegana, hvernig þið hafið farið með atvinnulausa og hvernig þið hafið farið með lágtekjufólkið í tíð ykkar, hv. þingmaður. Það er til hreinnar skammar. Ég vildi svo sannarlega ekki vera í ykkar sporum með það veganesti sem þið skilið inn í næstu kosningabaráttu. Það verður gaman að takast á við Pétur Blöndal þá.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna háttvirtan þingmann á að ávarpa forseta en ekki aðra þingmenn úti í sal.)