Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 18:29:33 (1979)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:29]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans þó að hún hafi einkennst nokkuð af því að draga hér upp svart/hvíta mynd af þeim sem vilja lækka skatta og hinum sem vilja það ekki. Auðvitað veit hv. þingmaður betur, enda hefur hann lesið kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar eins og fram kom í máli hans — hún var að vísu ekki samþykkt á landsfundi flokksins í apríl árið 2003, heldur á vorþingi hennar — en er engu að síður kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar og stendur fyllilega fyrir sínu.

Við núverandi aðstæður leggur Samfylkingin einfaldlega áherslu á aðrar skattbreytingar en Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að beita sér fyrir. Það er matarskatturinn og barnabæturnar. Það verður líka að minna á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur með sama hætti gert samþykktir um matarskattinn og árið 2001 um stimpilgjöldin en það bólar ekkert á aðgerðum eða efndum á þeim yfirlýsingum í þeim efnum. Við segjum einfaldlega, hv. þingmaður, að það sé skynsamlegt við þessar aðstæður, vegna þess að verðbólgan er komin í 3,8%, að grípa til þeirra skattaráðstafana sem helst munu vinna á móti verðlagshækkunum, lækka matarskattinn og þar með vísitölu neysluverðs um 0,8%, og reyna þannig að halda aftur af þenslunni hérna næstu tvö árin. Það er skynsamlegasta aðgerðin sem við getum farið í núna og síðan getum við skoðað lækkun á tekjuskatti.

Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum það ekki í raun og sannleika sjálfum vera skynsamlegust afstaða eins og sakir standa nú í samfélaginu?