Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 18:31:23 (1980)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:31]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað hv. þm. Helga Hjörvar mjög skýrt: Nei. Ég tel að við séum að fara í skattalækkanirnar á réttum forsendum. Með því er ég ekki að segja að ég sé ósammála í grundvallaratriðum þeim sjónarmiðum sem sett hafa verið fram um lækkun virðisaukaskatts á matvæli og fleiri vörur sem eru í neðra þrepi. Sjálfstæðisflokkurinn sagði það skýrt fyrir síðustu kosningar að það væri eitt af stefnumálum flokksins. Menn þekkja það, og það hefur komið fram við þessa umræðu, að það mál er alls ekki út af borðinu heldur er enn í viðræðum milli stjórnarflokkanna. Það er alveg skýrt.

Hvað varðar þær skattatillögur sem hér liggja á borðinu er auðvitað um það að ræða að verið er að fara nokkuð varlega í þessar skattalækkanir. Ég játa það sem mikill stuðningsmaður skattalækkana að gjarnan vildi ég fara hraðar í þær og stíga stærri skref. Hins vegar stíga menn varlega til jarðar einfaldlega vegna þess að það eru ákveðin þenslumerki í þjóðfélaginu. Ég held að menn eigi ekkert að vera hræddir við þetta, eins og ég rakti áðan, og ég held að menn megi ekki heldur ganga út frá því sem vísu að peningar sem teknir eru til ríkisins í formi skatta geti ekki líka leitt til þenslu. Eins og við þekkjum er það ekki alltaf þannig að jafnvel þó að ábyrg fjármálastjórn sé eins og við höfum séð hér á landi á undanförnum árum verði ekki þrýstingurinn á útgjaldaauka mjög mikill þegar tekjurnar aukast. Það er því miður ekki alltaf svo að þegar ríkið fær meiri tekjur séu þeir peningar einhvern veginn teknir úr umferð í hagkerfinu og hætti að hafa þensluáhrif. Það er ekki svo. Það er ekki þannig að einstaklingar eyði öllu í vitleysu og ríkið verji öllu skynsamlega. Þannig er ekki lífið. Það er ekki svo einfalt.