Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 18:35:40 (1982)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:35]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Helgi Hjörvar erum sammála um að fram undan sé hagvaxtarskeið sem muni leiða til þess að tekjur í þjóðfélaginu aukist og þar af leiðandi muni meiri tekjur skila sér til ríkisins í formi tekjuskatta, virðisaukaskatts og annarra gjalda. Við erum sammála um það. (Gripið fram í.)

Nú er hins vegar kannski ágreiningurinn milli okkar hv. þm. Helga Hjörvars sá að ég tel eðlilegt að einstaklingar haldi stærri hluta þessara viðbótartekna hjá sér en hv. þm. Helgi Hjörvar sem telur að ríkið eigi að taka til sín sem mest af þessum bata sem verður í efnahagslífinu. Þarna er ákveðinn grundvallarmunur á sjónarmiðum sem kannski birtist í því að núna, þegar fyrirsjáanlegt er að ríkið ætlar að lækka skatta sína við þessar aðstæður, koma félagar hv. þm. Helga Hjörvars í R-listanum og ætla að ná til sín þeim peningum í formi útsvarshækkana og stórhækkunar á fasteignagjöldum í Reykjavík.