Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 18:41:33 (1985)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:41]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson er þó alveg heiðarlegur í því að viðurkenna að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki komið fram kosningaloforðum sínum, væntanlega vegna tregðu samstarfsflokksins. Framsóknarflokkurinn var með það í kosningabaráttu sinni að skattalækkanir ættu ekki að koma fram fyrr en í lok kjörtímabils. Ég minnist þess ekki að sá málflutningur hafi verið uppi af hálfu þeirra frambjóðenda sem ég var með á framboðsfundum og buðu sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Hv. þingmaður var svolítið seinheppinn í ræðu sinni þegar hann talaði um kosningaloforð og hve illa Samfylkingin stæði við kosningaloforð sín, þau hefðu breyst fram og til baka í kosningabaráttunni. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fyrstur flokka komið fram með loforð um að lækka virðisaukaskatt. Samfylkingin hefði síðan siglt í kjölfarið. Hann fór um þetta mörgum orðum og því er eðlilegt að spyrja hv. þingmann: Hvað líður efnd þessa loforðs um virðisaukaskattinn? Þetta loforð var mjög hátt á lofti hjá Sjálfstæðisflokknum í kosningabaráttunni og ég veit að margir kjósendur flokksins áttu von á því að ef flokkurinn kæmist í ríkisstjórn yrði það eitt hið fyrsta sem flokkurinn mundi efna. Því hljótum við að spyrja eins og varðandi þá töf sem varð á að efna loforð um tekjuskattslækkun: Á hverju stendur með vaskinn? Getur hv. þm. staðfest það hér enn og aftur að Framsóknarflokkurinn vilji ekki lækka virðisaukaskatt á matvæli, það sé Framsóknarflokkurinn sem standi alveg þversum fyrir því máli?

Hv. þingmaður sagði undir lok máls síns að hollt væri fyrir kjósendur og almenning að skoða hvernig staðið væri að því að efna kosningaloforð. Ég vil bara gera þau lokaorð hans að mínum. Ég held að það sé hollt fyrir kjósendur og almenning að skoða í fullri alvöru hvernig Sjálfstæðisflokkurinn stendur við kosningaloforð sín.