Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 18:43:42 (1986)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:43]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má hv. þm. Jón Gunnarsson vita að ég mun fagna þeirri skoðun kjósenda þegar þar að kemur.

Varðandi virðisaukaskattinn ætla ég ekki að segja meira um hann en ég hef þegar sagt. Það er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að endurskoða virðisaukaskattskerfið almenningi til hagsbóta sem allir vita að þýðir lækkun. Það er í sáttmálanum.

Það er líka vitað og hefur komið fram að milli ríkisstjórnarflokkanna eiga sér nú stað viðræður um hvernig það verði gert og hvenær tímasett. Menn höfðu alltaf þann eðlilega fyrirvara á skattalækkunarloforðum Sjálfstæðisflokksins, hvort sem þau sneru að tekjuskatti eða virðisaukaskatti, að þau væru áformuð á kjörtímabilinu, ekki á fyrsta ári kjörtímabils eða öðru ári kjörtímabils heldur á kjörtímabilinu. Við gengum alveg hreint til verks með það og gáfum ekkert annað til kynna.

Varðandi afstöðu Samfylkingarinnar til virðisaukaskattsins kemur mér á óvart að hv. þm. Jón Gunnarsson virðist ekki muna hvernig sú atburðarás var. Í mars var því lýst yfir að Samfylkingin ætlaði ekki að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Í byrjun apríl var vorþing Samfylkingarinnar þar sem m.a. var fjallað um skattamál og ekki minnst á virðisaukaskattinn. Svo allt í einu á síðustu metrunum í kosningabaráttunni tók Samfylkingin sig til og bætti honum í loforðasafnið. Það var ekki fyrr en aðrir flokkar voru komnir fram með áherslur sínar sem Samfylkingin elti þá í þessu, eins og ég nefndi raunar fyrr í dag varðandi persónuafsláttinn, Samfylkingin minntist ekkert á þennan persónuafslátt fyrr en Frjálslyndi flokkurinn var búinn að gera hann að meginatriði í skattamálastefnu sinni. Samfylkingin reyndi að tína það til úr stefnumálum annarra flokka sem hún hélt að væri til vinsælda fallið, raða því einhvern veginn saman og úr varð óskiljanleg þvæla.