Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 18:45:57 (1987)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:45]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Umræðan í dag hefur í raun og veru leitt í ljós þann grundvallarmun sem er á ríkisstjórnarflokkunum annars vegar og stjórnarandstöðunni hins vegar, þ.e. kannski þeim kjarna stjórnmálanna að annars vegar erum við til hægri í pólitík og hins vegar erum við til vinstri. Ég segi fyrir mig og fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að mér hafa ekki hugnast þær hugmyndir sem ríkisstjórnin byggir á í skattalækkunarfrumvarpi sínu. Mér hugnuðust ekki loforðin í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar og mér hugnast ekki hin útfærða tillaga sem nú liggur fyrir.

Ástæða þess er einföld og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fór yfir það í ræðu sinni áðan að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill aðra forgangsröðun í skattkerfinu. Við viljum sjá að þeir sem hafa minna eða bera minna úr býtum eigi möguleika á mannsæmandi lífi og skattkerfið okkar eigum við að nota til jöfnunar á kjörum. Þess vegna mótmælum við þeirri stefnu sem birtist í þessu plaggi að þeir ríku skuli fá mest út úr þessum skattalækkunum og að okkar mati er beinlínis verið að hygla þeim sem meira hafa fyrir.

Um helgina fundaði flokksráð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, virðulegi forseti, og mótmælti þá harðlega þessu frumvarpi sem þá var fram komið og taldi það hygla óþarflega hátekju- og stóreignamönnum. Við gagnrýnum sömuleiðis ríkisstjórnina fyrir það að enn skuli ekki sjá breytingu í stefnu ríkisstjórnarinnar hvað það varðar að lágtekjufólk er enn skattlagt, jafnvel fólk sem dregur fram lífið af atvinnuleysisbótum er skattlagt og það eru ekki í augsýn neinar breytingar á því í frumvarpinu.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að skattastefna ríkisstjórnarinnar kemur til með að rýra tekjur ríkissjóðs um milli 20 og 30 milljarða á ári. Hún kemur líka til með að rýra tekjur sveitarfélaganna og auðvitað er veruleg hætta á því að hún komi til með að leiða til niðurskurðar og ekki síst aukinnar gjaldtöku í þjóðfélaginu, og það er auðvitað það sem stjórnarflokkarnir stefna að leynt og ljóst. Þeir stefna að aukinni gjaldtöku fyrir velferðarþjónustuna. Því mótmælir Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Við erum þeirrar skoðunar að skattkerfið eigi að nota til jöfnunar og við eigum að sjá til þess að fjármagna velferðarkerfið úr okkar sameiginlegu sjóðum. Þeir sem mest eiga að fá úr velferðarkerfinu okkar eru auðvitað þeir sem minnst bera úr býtum tekjulega séð. Þess vegna er stórhættulegt að horfa fram á tekjulækkun ríkissjóðs um 20–30 milljarða á ári en það er það sem þessar tillögur ganga út á.

Það má segja að með skattalækkunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar komi þær kjarabætur sem fólk hefur verið að semja um, bæði kennarar nýverið og eins eldri samningar á hinum almenna vinnumarkaði og hjá opinberum aðilum, til með að étast upp og ég sé ekki annað en að verðbólguspáin sýni okkur það svart á hvítu að þær kjarabætur sem fólk er mögulega að ná fram í samningum núna komi til með að verða étnar upp í verðbólgubáli og því þensluástandi sem hér ríkir.

Ég vildi sannarlega að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði rétt fyrir sér í því að eitthvað af þessu verði til þess að hvetja til sparnaðar hjá fólki, en ekki setjum við það í löggjöfina að það sem fólk kemur til með að hafa umfram það sem annars hefði verið fari í sparnað, ekki getum við skilyrt það svo. Satt að segja deili ég þeim áhyggjum hv. þm. Péturs H. Blöndals hversu lítið virðist fara í sparnað af þeirri tekjuaukningu sem virðist hafa orðið í samfélaginu. Það er sannarlega ástæða til að hafa áhyggjur af því. En við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti, hverjir það eru sem hafa verið að auka tekjur sínar. Það er stóreignafólk og hátekjufólkið sem hefur komist í álnir á síðustu árum og síðustu missirum, fólk sem býr undir verndarvæng núverandi ríkisstjórnar. Það er ekki fólkið sem ber minna úr býtum sem hefur verið að komast í álnir, svo sannarlega ekki.

Eins og ég sagði, fólki er íþyngt með þjónustugjöldum, auknum þjónustugjöldum og sjúklingasköttum. Við vorum allan daginn í gær að ræða hækkun á skráningargjöldum í opinbera háskóla, hvað er það annað en aukin skattheimta ríkisins? Verið er að seilast í vasa námsmanna til þess að taka 140 millj. inn í opinbera háskólakerfið, 140 millj. í vasa námsmanna inn í kerfi sem annars kostar okkur á fjárlögum u.þ.b. 8 milljarða. Ríkisstjórnin seilist því langt í þessum efnum í aukningu þjónustugjalda og aukinni óbeinni skattheimtu og segir svo á sama tíma að hún sé að reyna að minnka jaðaráhrifin í skattkerfinu. Ég sé ekki betur en að hér sé talsverður tvískinnungur á ferðinni, virðulegi forseti, og þessi skattastefna sé þegar öllu er á botninn hvolft bein kjaraskerðing fyrir almennt launafólk. Það er auðvitað réttmætt að taka undir þá gagnrýni sem hér hefur verið viðhöfð að á sama tíma gengur hvorki né rekur í viðræðum ríkisvaldsins við sveitarfélögin um skiptingu tekjustofna.

Hæstv. forseti. Ég get fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fagnað hér ákveðnum þætti þessara breytinga, þ.e. breytingunum á barnabótunum. Ég tek líka undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi það að auðvitað ætti forgangsröðunin í þessu máli að vera önnur en hún í raun og veru er. Það ætti auðvitað að byrja á breytingunni á barnabótunum. Það ætti að sýna í verki að hér sé yfir höfuð einhver vilji til þess að reyna að bæta í alvöru úr hjá láglaunafólki og tekjulægstu einstaklingunum og barnafólkið er auðvitað ekki vel sett, láglaunafólk með börn er ekki vel sett í okkar samfélagi. Ríkisstjórnin mundi sýna einhvers konar jákvæðan vilja ef hún væri til í að breyta hér forgangsröðun og setja barnabæturnar og breytinguna á þeim í forgang.

Ég verð jafnframt að taka undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er óeðlilegt að þær barnabætur sem verið er að leggja til hér eða barnabætur sem við höfum búið við síðustu árin eru sáralítið annað en láglaunauppbót. Ég verð að segja fyrir sjálfa mig sem naut barnabóta sem millitekjumanneskja áður en ég gerðist þingmaður og fór á laun sem eru ákvörðuð af Kjaradómi, ég verð að viðurkenna að ég fann aldrei fyrir þessum barnabótum sem mér voru greiddar eða okkur fjölskyldunni. Þær skiptu aldrei neinu máli í mínu heimilisbókhaldi. Ég var millitekjumanneskja og fékk þess vegna ekki barnabótaauka en ég veit líka hvað þær komu sér vel fyrir það fólk sem ekki þurfti að lúta tekjuskerðingu hvað þetta varðar. Og ég held að við verðum að horfast í augu við þann veruleika að barnabæturnar hafa ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir, þær hafa ekki skipt neinum sköpum eða a.m.k. í fæstum tilfellum skipt nokkrum sköpum hjá fólki. Þær hafa kannski skipt sköpum hjá allra tekjulægsta fólkinu en það er svo sáralítið í heildarmyndinni.

Ég held að við verðum því að reyna að fara að sjá til þess að barnabæturnar séu það sem þeim er í grunninn ætlað að vera, kjarabót, tekjuuppbót til fólks sem er að koma upp börnum og koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt til verulegar úrbætur í málefnum barnafólks hvað þetta varðar. Við höfum lagt til að leikskólinn verði gerður gjaldfrjáls, að farið verði í það sameiginlega á vegum ríkis og sveitarfélaga að gera slíkt átak að leikskólinn geti orðið gjaldfrjáls fyrir öll börn. Slíkt væri sannarlega kjarabót sem fólk fyndi fyrir.

Hæstv. forseti. Forsætisráðherra kom í ræðustól áðan og hélt ræðu um skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar og ég verð að viðurkenna að þó að ég sé ekki búin að fylgjast með umræðu um skattamál í 30 ár eins og hæstv. forsætisráðherra tel ég mig hafa einhverja nasasjón þar sem ég hef þó starfað sem stjórnmálamaður í sex ár. Ég verð að segja að mér finnst ekki vera innstæða eða hljómur í þeirri klisju sem hæstv. forsætisráðherra kemur með aftur og aftur að nú sé svo mikið svigrúm til skattalækkana vegna þess að stöðugleikinn í efnahagsmálum sé svo mikill. Staðan sem skapast hefur gefi ríkisstjórninni svigrúm til skattalækkana án þess að stöðugleikanum sé ógnað.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst sáralítið innihald í upphrópunum af þessu tagi og gagnrýni hæstv. forsætisráðherra fyrir að fjargviðrast yfir því að stjórnarandstaðan skuli halda því fram að nú verði skorið niður í ríkisútgjöldum. Hæstv. forsætisráðherra talaði um að það væru engin áform um niðurskurð, aðeins áform um aðhald. Hvaða hártoganir eru þetta hjá hæstv. ráðherra? Auðvitað á að skera niður í opinberum útgjöldum. Það sýnir sig best í Morgunblaðinu í gær, mánudaginn 22. nóvember, þar sem Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir, og það er meira að segja sett inn í fyrirsögn hjá Morgunblaðinu, að brýnt sé að mæta skattalækkunum með niðurskurði. Með niðurskurði — hverju öðru? Hvað annað er aðhald í ríkisútgjöldum?

Hvað ætla þessir hæstv. stjórnarherrar að segja við það fólk sem stýrir opinberum stofnunum, t.d. opinberu háskólunum sem koma hér ár eftir ár, og ekki er árið í ár nein undantekning, til að ræða við fjárlaganefnd og menntamálanefnd um það hvernig þeir eru nánast hlunnfarnir, hvernig opinberu háskólarnir eru nánast hlunnfarnir af ríkissjóði og ríkisvaldinu vegna þess að menn neita að horfast í augu við eðlilegar hækkanir til háskólastigsins sem byggja á launahækkunum, breytingum á launastiku háskólakerfisins og breytingum sem lúta að nemendafjölgun í háskólunum. Ár eftir ár koma forsvarsmenn þessara virtu stofnana, sem stjórnarherrarnir segja á tyllidögum að séu máttarstólpar í samfélagi okkar, og segja okkur svo óyggjandi sé, sýna okkur svart á hvítu að það er verið að hafa fé af þessum virtu stofnunum okkar. Það er verið að gera þeim nánast ókleift að standa undir lagalega hlutverki sínu.

Á sama tíma segja hæstv. ráðherrar í þessum stóli að það séu engin áform um niðurskurð. Ríkissjóður geti vel séð af 20–30 milljörðum á hverju ári, ekki þurfi að skera niður á móti því. Hver trúir þeim yfirlýsingum? Hæstv. forseti. Ekki ég. Og þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hér og segir að það sé bara verið að reyna að hemja tekjuvöxtinn ætlast þá hv. þingmaður til þess að við hlæjum? Mér er ekki hlátur í hug. Hemja tekjuvöxtinn hjá hinu opinbera. Heyr á endemi.

Svo segja menn að skattalækkunaráformin séu hvati til að vinna, tekjurnar muni aukast hjá fólki og þetta sé hvati til að vinna meira. Það sagði hæstv. fjármálaráðherra líka þegar hann talaði fyrir fjárlagafrumvarpinu í upphafi vetrar.

Má ég benda hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum á það að Íslendingar eru vinnupíndasta þjóð í allri Evrópu. Hvaða hvata eru menn að tala um hér til þess að vinna meira? (Gripið fram í.) Má ég biðja um hvata til þess að fólk fari að komast inn á heimilin til að sinna börnum sínum, sinna hjónaböndum sínum, sinna sambandinu við foreldra sína. Það væri miklu eðlilegra að við værum hér að ræða einhverja hvata til slíks. (PHB: Meiri menntun.) Meiri menntun, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Mér finnst eðlilegt að fólk sækist eftir meiri menntun, sérstaklega þegar tekin hefur verið um það sameiginleg pólitísk ákvörðun að hækka menntunarstig þjóðarinnar. En það er ekki þar með sagt að við þurfum að vinna allan sólarhringinn aldirnar á enda. Ég geri því lítið úr þeim hvata til tekjuaukningar sem menn þykjast sjá í skattalækkunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Sannleikurinn er auðvitað sá að hér er um að ræða skerðingu á tekjum ríkissjóðs. Það eru ótal verkefni fram undan sem við gjarnan viljum fara í. Ef við höfum ekki tekjur til að mæta kostnaði við þau verkefni verður ekki farið í þau. Það er svo einfalt.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ekki sungið skattalækkunarsönginn. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að við þurfum að byggja á skattkerfinu okkar, öflugu skattkerfi til þess að geta átt fyrir öflugu velferðarkerfi. Við höfum aldrei ætlað annað en að fólk sem kemst sæmilega af í samfélaginu sé sæmilega sátt við að þurfa að borga skatta. Ég heyri ekki fólk í samfélaginu sem hefur sæmilega góðar tekjur vera ævinlega að kveinka sér undan því að þurfa að borga skatt.

Ég tel því að ríkisstjórnin sé á villigötum og sé meðvitað að veikja velferðarkerfi okkar með þessum áformum. Það er algjör nauðsyn í mínum huga að viðurkenna að skatttekjur hins opinbera standa undir velferðarsamfélaginu og þær eru ætlaðar, hugsaðar í grunninn til að jafna kjör fólks. Með skattalækkunarfrumvarpinu er ríkisstjórnin að veikja möguleika okkar á að jafna kjörin og að eiga hér öflugt velferðarsamfélag. Það þarf miklu frekar að dreifa skattbyrðinni af sanngirni.

Ég er alveg sammála því og sátt við að setja einhvers konar þak á jaðaráhrifin í skattkerfinu. Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum aldrei mótmælt því. En þessi aðferð sem hér er notuð er ekki sú sem við teljum vænlegasta í þeim efnum.

Við teljum líka nauðsynlegt að efla tekjumöguleika sveitarfélaganna og það verður að fara að ganga almennilega í viðræður sem fara fram í þeim geira. Það hlýtur að vera markmið okkar að sveitarfélögin geti sinnt með reisn þeim verkefnum sem þau hafa tekið til sín frá ríkinu og ríkið hefur ekki hingað til auðveldað þeim það. Eru menn búnir að gleyma umræðunni sem fór fram í kennaraverkfallinu? Menn gera mikið úr þeim kjarabótum sem kennarar hafa verið að semja um, ég vil benda fólki á að kennarar eru ekki búnir að samþykkja þann samning sem undirritaður var af launanefndinni og samningamönnum kennara, það á eftir að sjá hvernig það fer á endanum. Sannleikurinn er sá að þegar hæstv. forsætisráðherra fer að skamma hv. þm. Steingrím J. Sigfússon fyrir að hvetja til launahækkana umfram getu þjóðfélagsins þá vil ég benda hæstv. forsætisráðherra á að launahækkanirnar samkvæmt kennarasamningnum sem er undirritaður en liggur ósamþykktur, eru 17–18%. Um hvað sömdu sjómenn? 16%, án þess að fara í verkfall. Það gólaði enginn neitt yfir því. Samningur kennara er upp á 17–18%. Eru þetta, hæstv. forsætisráðherra, launahækkanir umfram getu þjóðfélagsins? Ég segi nei. Hæstv. forsætisráðherra á ekki að leyfa sér svona yfirlýsingar í þessari umræðu því að þær standast ekki skoðun.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að nýta allan þann tíma sem okkur er ætlaður en kannski þurfa aðrir að nýta ræðutíma upp á 40 mínútur, þeir sem eru mjög vel inni í þessum málum, hafa verið að takast á við þau undanfarin ár og liggur mikið á hjarta. Ég veit að gert er ráð fyrir matarhléi hér í þinginu klukkan sjö og ég sé ekki ástæðu til að vera að lengja mál mitt í þessum efnum en ég ítreka einungis að forgangsröðunin er kolröng og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa aðrar áherslur í skattamálunum. Við höfum farið yfir þær í ræðum okkar og við leggjum mikið upp úr að þessi umræða skili þó einhverju, og í því sambandi tek ég undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem mæltist til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki þetta þannig til afgreiðslu að möguleiki væri á einhverjum breytingum í forgangsröðuninni, hún nefndi þar t.d. barnabæturnar. Og eins og ég hóf mál mitt, þá ég tek undir að eitthvað verði reynt að gera í þeim efnum og það væri sómi að ef a. m. k. væri hægt að setja barnabæturnar í forgang.