Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 23. nóvember 2004, kl. 19:06:49 (1989)


131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:06]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er auðvitað að reyna að flækja fólk í einhverri umræðu sem er svo langt við hliðina á kjarna málsins í þessum efnum.

Af hverju tekur hv. þingmaður eingöngu mið af konum hér? Ég frábið mér að þurfa að skoða þessi skattalækkunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar með kynjagleraugum, hv. þingmaður. Ég er til í að bregða hér upp kynjagleraugum og ég gæti sagt við ríkisstjórnina: Þið hafið gleymt samþættingarhugsjóninni ykkar sem kemur fram í jafnréttisáætluninni. Í þessu frumvarpi er ekki orð um það hvernig þessar breytingar koma öðruvísi niður á konum en körlum. Ég hefði viljað sjá sérstakan kafla um það í greinargerðinni hvernig samþættingarsjónarmið ríkisstjórnarinnar hafa verið uppi á borðinu eða hvernig þeim hefur verið sinnt við samningu þessa máls.

En ég segi við hv. þm. Pétur H. Blöndal: Ég er hér í nákvæmlega sömu erindagjörðum og hann, ég vil þegnum samfélagsins vel. Ég vil efla velferðarkerfið og sjá til þess að velferðarkerfið fúnkeri fyrir þá sem á þurfa að halda. Ég er ekki að gera ráð fyrir því að nokkur manneskja misnoti það kerfi. Ég held að við getum aldrei búið til velferðarkerfi ef við ætlum alltaf að miða við einhverja svarta sauði sem misnota það.

Það kann vel að vera að einhverjir einn, tveir eða þrír geri það en við megum ekki miða kerfið við þann eða þá einstaklinga sem eru þannig innréttaðir. En það er nákvæmlega þannig sem mér finnst hv. þingmaður stilla málunum upp í andsvari sínu, og mér finnst það ekki rétt.